Íbúar Kópavogs fara ekki varhluta af því fjölbreytta íþróttalífi sem einkennir íþróttabæjarfélagið Kópavog. Nánast er hægt að fullyrða að hver einasta fjölskylda í bænum tengist eða eigi barn í einhverskonar íþróttastarfi.
Hreyfing og fræðsla er nauðsynlegur hluti af uppeldi barna og það starf sem á sér stað innan íþróttahreyfingarinnar er að mörgu leyti mjög gott, aðstaðan til fyrirmyndar og starf félaganna öflugt.
Allt þetta starf kostar hins vegar umtalsverða fjármuni sem að stórum hluta leggst á foreldra iðkenda. Kostnaðarhlutdeild iðkenda er því miður orðin slík að ekki aðeins launalægri fjölskyldur veigra sér við kostnaðinum, heldur eiga millitekjufjölskyldur einnig í vandræðum með að standa skil á honum. Möguleikar barna til að stunda fleiri en eina íþrótt eða tómstund eru nánast útilokaðir.
Þá má velta því upp hvort æfingaálag barna sé of mikið, enda hefur verið sýnt fram á að fylgni fjölda æfingastunda í skipulögðu starfi barna undir 12 ára aldri og langtíma árangurs er hverfandi. Samspil æfinga og leiks er talið vega mun þyngra á mótunarárum einstaklings.
Hérlendis byrjum við fyrr á skipulögðu starfi, æfum oftar og við borgum margfalt meira fyrir starfið miðaða við nágrannalöndin. Að auki er sjaldnast neitt innifalið í grunnæfingagjöldum, og því er raunkostnaður við iðkun oftast töluvert hærri en þau segja til um.
Af þessu leiðir að kostnaður barnafjölskyldna við íþróttastarf hefur aldrei verið hærri þrátt fyrir að bæjarfélagið leggi til frístundarstyrk sem hefur hækkað með hverju árinu. Það hefur hins vegar sýnt sig að þær hækkanir frístundarstyrksins duga skammt á móti þeim hækkunum sem lagst hafa beint á fjölskyldur iðkenda.
Þessi þróun getur ekki haldið áfram og nýrra leiða þarf að leita til að koma til móts við fjölskyldur með börn í íþróttastarfi, bæði hvað varðar hófsemd í kostnaðarþátttöku og hófsemd í æfingaálagi. Brýn þörf er á sterkari stefnumörkun um hvernig opinberum fjármunum skuli varið þegar kemur að íþrótta og tómstundastarfi. Hver séu markmið bæjarfélagsins með stuðningi við íþróttastarf og aðrar tómstundir barna? Á grunni slíkrar stefnumörkunar yrði öll eftirfylgni með því hvort fjárútlát bæjarfélagsins skili árangri markvissari í framhaldinu.
Með framboði mínu til bæjarstjórnar í Kópavogi mun ég leggja áherslu á að berjast fyrir lækkun kostnaðar við íþrótta og tómstundarstarf í sveitafélaginu og að Kópavogur verði leiðandi í stefnumótun starfs sem býður upp á meiri sveigjanleika sem mun henta öllum, ekki aðeins þeim efnameiri. Þá fyrst verður loforð Kópavogs um jöfnuð til íþróttaiðkunar óháð íþrótt og efnahag ekki aðeins orðin tóm.
Sverrir Kári Karlsson er verkfræðingur og þriggja barna faðir sem skipar 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar.
Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 18. apríl 2018.