Categories
Fréttir

Okkur mun takast að móta kerfisbreytingar sem gera öllum fjölskyldum kleift að eignast húsnæði

Deila grein

18/09/2019

Okkur mun takast að móta kerfisbreytingar sem gera öllum fjölskyldum kleift að eignast húsnæði

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, segir í yfirlýsing í dag að „[e]itt af meginmarkmiðum Framsóknar er að gera ungu fólki og tekjulágum fjölskyldum kleift að kaupa sínu fyrstu íbúð. Í tengslum lífskjarasamninga var sérstaklega fjallað um þessar aðgerðir.“ Hér að neðan má sjá yfirlýsingu Ásmundar Einars.

Á fundum í Skotlandi hefur Ásmundur Einar, ásamt fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Íbúðalánasjóði, átt fundi með Kevin Stuart, húsnæðismálaráðherra Skotlands og sömuleiðis vinnufund með skoskum embættismönnum þar sem húsnæðismál voru rædd með sérstakri áherslu á stuðning við ungt fólk og tekjulága við að komast inn á fasteignamarkaðinn.
Ásmundur Einar segir að vinna sé í gangi við frumvarp „til að innleiða sérstök hlutdeildarlán að skoskri fyrirmynd. Samhliða því vinnur ríkisstjórnin að því að veitt verði heimild til að nýta hluta lífeyrissparnaðar til fasteignakaupa (Svissneska leiðin).
Er sannfærður um að með góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðar o.fl. mun okkur takast að móta kerfisbreytingar sem gera öllum fjölskyldum kleift að eignast húsnæði,“ sagði Ásmundur Einar.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, átti í gær fund með Kevin Stuart, húsnæðismálaráðherra Skotlands. Hann sat sömuleiðis vinnufund með skoskum embættismönnum þar sem húsnæðismál voru rædd með sérstakri áherslu á stuðning við ungt fólk og tekjulága við að komast inn á fasteignamarkaðinn. Í för með ráðherra voru fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Íbúðalánasjóði.
Markmið fundanna var að kynnast því með hvaða hætti stjórnvöld í Skotlandi hafa innleitt og unnið með svokölluð hlutdeildarlán sem hafa hjálpað íbúðakaupendum að festa kaup á sinni fyrstu eign. Bæði Englendingar og Skotar hafa valið þann kost að veita hlutdeildarlán (Equity Loans) til þess að styðja við tekjulægri íbúðakaupendur og stuðla að hagkvæmum nýbyggingum þar sem þess er þörf.
Þegar kemur að stöðugleika á húsnæðismarkaði eru þrjár stoðir sem skipta mestu máli; kaupendur, byggingaraðilar og lánveitendur. Hlutverk stjórnvalda  er að tryggja að skipulag og umgjörð húsnæðismarkaðarins sé með þeim hætti að það ríki stöðugleiki, að byggingaraðilar geti tryggt jafnt og viðeigandi framboð, að almenningur hafi aðgang að lánsfé og að viðkvæmustu hópar samfélagsins og dreifðar byggðir njóti sérstaks stuðnings. Hlutdeildarlánin eru eitt púsl í þessa heildarmynd. (Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.)


Með Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra í för eru (frá vinstri) Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Gunnhildur Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu húsnæðis- og lífeyrismála hjá félagsmálaráðuneytinu, Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður félags- og barnamálaráðherra, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Rún Knútsdóttir, deildarstjóri á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs. (Ljósmynd af vef Stjórnarráðsins)