Categories
Greinar

Land og synir

Deila grein

19/09/2019

Land og synir

Bændur hafa um áratugaskeið verið leiðandi í allri framkvæmd landgræðslu á Íslandi. Í gegnum verkefnin Bændur græða landið og landbótaþætti gæðastýringar hafa verið unnin ótrúleg afrek í endurheimt lífmassa og beitilands. Þá er ekki enn búið að taka til landgræðslustörf bænda sem ekki hafa verið bundin við slík verkefni og hafa margir lagt mikið á sig til að bæta land sitt og auðga, framtíðinni til heilla.

Um 600 bændur eru þátttakendur í verkefninu Bændur græða landið og um 25 landbótaáætlanir eru unnar samhliða vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt. Þeir aðilar er stundað hafa landgræðslu hafa oft og tíðum lagt til mannskap og tæki á sinn eigin kostnað til verkefnanna og er þar um umtalsverðar upphæðir að ræða. Landgræðslan hefur á móti kostað áburð og fræ til verkefna þar sem því er viðkomið, s.s. í rýrt land og til að styrkja vöxt og viðgang nýrra plantna. Samvinna í þessum verkefnum hefur borið ríkulegan ávöxt. Bændur hafa ekki hag af að ganga á landsins gæði, þvert á móti er það hagur þeirra að bæta land og landgæði. Skynsamleg nýting til beitar bætir landkosti íslenskra sveita. Bændur eru stöðugt meðvitaðri um bætta búskaparhætti og hafa unnið markvisst að landbótum í samræmi við ráðgjöf Landgræðslunnar á þeim svæðum þar sem þess hefur þurft við.

Það er því allsérstakt að heyra málflutning fulltrúa Landgræðslunnar og Landbúnaðarháskóla Íslands að undanförnu. Þeim er tíðrætt um óhæft beitiland og hugsanlega friðun afrétta fyrir beit. Það mætti halda að þeir aðilar væru staddir í kvikmyndinni Land og synir sem fjallaði um kreppuárin og flótta fólks úr sveitum á mölina. Hvers vegna? Jú, því aðgerðir þær sem þeir viðra, snúa að hugsanlegri lokun ákveðinna afrétta sem munu hafa veruleg áhrif á afkomu bænda á viðkomandi svæðum.

Á þessum svæðum Íslands býr fólk með börn sín og bústofn og hefur lagt hvað mest á sig í uppgræðslu lands, hvers á það að gjalda. Fólkið sem hefur lagt vinnu sína, tæki og fjármagn í nákvæmlega þau verkefni sem ætla skyldi að væru Landgræðslunni að skapi.

Hins vegar verður að segjast að skort hafi á að Landgræðslan sinni sínu upphaflega hlutverki. Sem var að græða upp land og endurheimta lífmassa. Skynsemin hrópar á að Landgræðslan hvetji til frekari landbóta frekar en að standa í hreinum hótunum við bændur og efli og treysti enn frekar þau verkefni sem unnin hafa verið í samvinnu og enda höfum við þar grunn til að byggja á til framtíðar.

Landsátak í landgræðslu

Til að mæta þeim áskorunum sem framtíðin ber í skauti sér varðandi bæði sjálf bæra nýtingu lands og loftslagsmál væri hægt að samtvinna þessi tvö sjónarmið í einni heildarsýn.

Það er óneitanlega freistandi að fá bændur og Landgræðsluna til að vinna saman að stórátaki í landgræðslu. Bæði til að auka og bæta beitiland og ekki síður til þess að binda kolefni. Slíkt verkefni gæti borið ríkulegan árangur þar sem ómetanleg þekking Landgræðslunnar og mikilvægt vinnuframlag bænda, skili okkur enn lengra áfram. Eins væri stuðningur í því að stjórnvöld komi að með myndarlegum hætti í formi aukins fjármagns til slíks verkefnis. Einnig væri áhugavert að fá almenning í landinu og fyrirtæki sem vilja sýna samfélagslega ábyrgð í loftslagsmálum með í þetta lið.

Að þessu augnamiði mun undirritaður vinna og smíða lagafrumvarp um verkefnið fyrir komandi haustþing og það lagt fram á fyrstu dögum nýs Alþingis, í september. Lagafrumvarpinu verður ætlað að koma til móts við sjónarmið er varða loftslagsmál og sjálf bæra landnýtingu.

Bændur hafa verið og verða áfram gæslumenn landsins. Bændur hafa sýnt það að þeir standa fyllilega undir merkjum sem slíkir og hafa unnið þrekvirki á mörgum stöðum á undanförnum áratugum og munu gera það áfram fái þeir til þess tilhlýðilegan stuðning, allra. – Öflug samvinna ber ríkulegan ávöxt!

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. september 2019.