Categories
Greinar

Landsvirkjun verður ekki seld

Deila grein

19/09/2019

Landsvirkjun verður ekki seld

Þegar litið verður til baka í þingsögunni þá mun eflaust vekja athygli þeirra sem það gera sú mikla umræða sem átti sér stað í kringum lögleiðingu 3 orkupakkans sem lauk á dögunum. Margt var þar látið falla á báða bóga sem eflaust var ýkt eða staðfært og þung orð sem eftir standa enda miklar tilfinningar í umræðunni. En vegna þessa er mikilvægt að þessi umræða verði ekki lögð af baki og látin gleymast heldur dregin af henni lærdómur og hlustað vel eftir því sem á móti var mælt að þessi löggjöf tæki hér gildi. Í þeirri umræðu kom vel fram skýr vilji almennings til að orkumál verði ekki einvörðungu mæld á vogarskálum markaðarins heldur að þjóðin öll njóti góðs af þeirri auðlind. Það þurfa stjórnmálamenn allra flokka að hlusta á og vinna að.

Mikilvæg fyrirtæki í þjóðareigu

Landsstjórn og þingflokkur Framsóknarflokksins fundaði nú fyrir skemmstu til að fara yfir málefnin sem flokkurinn mun leggja áherslu á komandi þingvetri í samhljómi við stefnu okkar. Þar munum við leggja áherslu á að auðlindir þjóðarinnar séu í sameiginlegri eigu landsmanna og það verði tryggt með ákvæði í stjórnarskrá. Þannig mætum við meðal annars áðurnefndri gagnrýni á orkumál um leið og við verðum að ljúka því verkefni að jafna húshitunarkostnað um land allt. Þá er það ljóst í mínum huga að Framsóknarflokkurinn mun aldrei geta samþykkt að okkar helstu fyrirtæki, sem nú eru í þjóðareigu, verði seld til einkavæðingar. Fyrirtæki eins og Landsvirkjun, Landsnet, RARIK og Flugstöð Leifs Eiríkssonar, svo einhver séu nefnd, sem eru nauðsynlegir innviðir landsins og munu til framtíðar geta lagt eigendum sínum, þjóðinni, til arð til uppbyggingar og velferðar.

Endurskoða þarf hugmyndir um miðhálendisþjóðgarð

Það verður af nægu af taka á komandi þingvetri og vonandi mun Alþingi takast að vinna að málum í sem mestri samstöðu. Brýnt er að mínu mati að stíga varlega til jarðar í umræðu um miðhálendisþjóðgarð og virða athugasemdir sveitarfélaga og heimamanna sem þar eiga hlut að máli. Fáir þekkja betur til þeirra mála en þeir sem það landsvæði hafa nýtt og bera til þess tilfinningar sem heimamenn. Þá er rétt að hafa í huga að til þess að við getum tekist á við loftslagsvá til framtíðar og lokið orkuskiptum, ásamt því að sækja fram í atvinnuuppbyggingu um land allt, þarf að hafa möguleika á virkja frekar okkar endurnýjanlegu orkugjafa. Því má ekki fórna.

Reglur um jarðakaup

Þá um leið verður Alþingi einnig að leiða til lykta umgjörð um jarðakaup og setja löggjöf sem tryggir að jarðir geti ekki safnast á fárra hendur sem leikvellir auðmanna og skilja þannig heilu heiðardalina eftir mannlausa. Tryggja verður að vilji menn eiga land skuli það hafa hlutverk og skila sveitarfélögunum sem það hýsa tekjum til að standa undir þjónustu við íbúa sína. Þá skýtur það skökku við að á tímum upplýstrar umræðu um loftslagsmál og sýklaónæmis í matvælum þá séum við ekki að móta framtíðarsýn fyrir innlenda matvælaframleiðslu og það rými sem hún mun þurfa í landnýtingu framtíðar. Slíkt þolir enga bið í umræðu á Alþingi.

Verkefnin verða næg og fátt eitt nefnt hér. Ég treysti því og veit að þingmenn Framsóknarflokksins munu ganga til verka á vetri komanda og vinna að þeim með samvinnu og jöfnuð að leiðarljósi og sýna þannig að þeir séu verðir traustsins sem þeim hefur verið falið af kjósendum.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð og ritari Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 19. september 2019.