Ríkisstjórnin hefur frá upphafi tekið það verkefni föstum tökum að stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu samfélagslegra innviða. Hagstjórn stjórnvalda mótast nú út frá breyttum forsendum en spár gera ráð fyrir minni hagvexti á næstu árum. Íslenska hagkerfið er undirbúið fyrir minnkandi umsvif og stjórnvöld hafa því farið í skattalækkanir og aukið opinberar framkvæmdir.
Meðal innviðafjárfestinga sem tengjast mennta- og menningarmálaráðuneytinu má nefna byggingu Húss íslenskunnar sem nú er í fullum gangi. Hús íslenskunnar verður glæsilegt og verðugur heimavöllur fyrir fjöregg íslenskrar menningar, tungumálið okkar. Þar munu tvinnast saman fortíð, samtíð og framtíð íslenskunnar. Þannig myndar húsið umgjörð um þjóðararf Íslendinga og skapar aðstæður til að efla þekkingu og þróun á tungumálinu. Til að íslenskan verði áfram gjaldgeng í stafrænum nútímaheimi, og okkar sjálfsagða mál, hafa stjórnvöld fjárfest í máltækniáætlun fyrir íslensku. Markmið hennar er að tryggja að hægt sé að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu.
Á árinu 2019 voru veittar 845 milljónir króna vegna Húss íslenskunnar og áætlað er að veita 1.935 milljónir á þessu ári. Svipaða sögu má segja um framlag til máltækniverkefnisins því á árinu 2019 voru veittar 465 milljónir og áætlað er að veita 604 milljónir til verkefnisins á þessu ári.
Aðrar mikilvægar fjárfestingar eru bygging félagsaðstöðu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, viðbygging við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og uppbygging við Menntaskólann í Reykjavík. Menntaskólinn í Reykjavík skipar ákveðinn sess í sögu okkar og hefur lagt mikið af mörkum til menntunar á Íslandi. Húsnæðismál skólans eru loksins að taka á sig metnaðarfulla mynd sem allir geta verið stoltir af en starfshópur skilaði af sér þarfagreiningu og húsrýmisáætlun fyrir MR í nóvember og mun ákvörðun um næstu skref liggja fyrir í lok þessa mánaðar. Þess má einnig geta að áætlaðar fjárfestingarheimildir framhaldsskóla, sem meðal annars eru ætlaðar til kaupa þeirra á tækjum og búnaði, hækka um 62,6 milljónir milli áranna 2019 og 2020 eða um 16%.
Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og leggur grunninn að áframhaldandi velsæld okkar. Við viljum að skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verði áfram undirstaða íslenska skólakerfisins og það geti mætt örum samfélagsbreytingum. Á því byggist samkeppnishæfni okkar til framtíðar. Forsenda áframhaldandi velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf þar sem til staðar eru störf fyrir menntað fólk sem stuðlar að nýsköpun og þróun.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2020.