Eitt af grunngildum Framsóknarflokksins er að efla menntakerfið í landinu. Menntun er hreyfiafl framfara og því brýnt að jafnræði ríki í aðgengi að menntun fyrir alla. Ný lög um Menntasjóð námsmanna tóku gildi 1. júlí. Þessi allsherjar kerfisbreyting hefur verið baráttumál áratugum saman. Afar brýnt var að bæta kjör námsmanna, auka réttindi og jafna tækifæri til náms. Ég brenn fyrir það að ungmenni landsins njóti góðs aðgengis að menntun óháð efnahag og staðsetningu.
Eitt af því sem hefur ætíð staðið í mér er hvernig ábyrgðarkerfi lánasjóðs námsmanna þróaðist, þ.e. að ekki var veitt námslán án þess að ábyrgðarmanna nyti við. Í þessu fólst mismunun á aðstöðu fólks í gegnum lífsleiðina. Margar fjölskyldur hafa þurft að endurskipuleggja fjármál efri áranna vegna þessa. Margir hafa þurft að takast á við þá staðreynd að erfa gamlar ábyrgðir á námslánum, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því. Þetta hefur eðli málsins samkvæmt verið fólki þungbært. Þessu hefur, sem betur fer, verið breytt með nýju lögunum þegar 35.000 ábyrgðir á námslánum féllu niður.
Þessi lög bera því með sér umbyltingu á námslánakerfi hér á landi. Ný lög kveða á um að ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum, teknum í tíð eldri laga, falli niður við gildistöku laganna, enda sé lánþegi í skilum á láni sínu. Markmiðið er að hver lánþegi skuli sjálfur vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu eigin námslána og samræma þannig námslán sem veitt eru fyrir og eftir árið 2009. Þá er tiltekið að ábyrgðir ábyrgðarmanns falli niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum. Þessi breyting er í samræmi við reglu sem lengi hefur gilt um lánþegann sjálfan, þ.e. að skuldin falli niður við andlát en erfist ekki. Þetta er gríðarlega mikilvægt enda hefur verið vakin athygli á ágöllum á þessu fyrirkomulagi í fjölda ára af hálfu þeirra sem hafa fengið lánsábyrgð í arf.
Markmið mitt með þessum lagabreytingum er að draga úr aðstöðumun í samfélaginu ásamt því að tryggja jafna möguleika og jöfn tækifæri til náms. Þannig á möguleiki á menntun að vera án tillits til landfræðilegra aðstæðna, kyns eða efnahagslegra og félagslegra aðstæðna. Það hefur myndast góð samstaða á Alþingi um að ráðast í þessar kerfisbreytingar sem voru löngu tímabærar. Kerfisbreyting sem þessi leiðir af sér aukið réttlæti í samfélaginu ásamt því að auka verðmætasköpun sem felst í því að fleiri hafa tækifæri á því að mennta sig án þess að reiða sig á góðvild annarra. Eitt af markmiðum nýrra laga var að námslánakerfið væri sanngjarnara og réttlátara. Þessi kerfisbreyting mun einnig greiða leiðina að áhyggjulausu ævikvöldi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júlí 2020.