Categories
Greinar

Áhyggjulaust ævikvöld

Deila grein

17/07/2020

Áhyggjulaust ævikvöld

Eitt af grunn­gild­um Fram­sókn­ar­flokks­ins er að efla mennta­kerfið í land­inu. Mennt­un er hreyfiafl fram­fara og því brýnt að jafn­ræði ríki í aðgengi að mennt­un fyr­ir alla. Ný lög um Mennta­sjóð náms­manna tóku gildi 1. júlí. Þessi alls­herj­ar kerf­is­breyt­ing hef­ur verið bar­áttu­mál ára­tug­um sam­an. Afar brýnt var að bæta kjör náms­manna, auka rétt­indi og jafna tæki­færi til náms. Ég brenn fyr­ir það að ung­menni lands­ins njóti góðs aðgeng­is að mennt­un óháð efna­hag og staðsetn­ingu.

Eitt af því sem hef­ur ætíð staðið í mér er hvernig ábyrgðar­kerfi lána­sjóðs náms­manna þróaðist, þ.e. að ekki var veitt náms­lán án þess að ábyrgðarmanna nyti við. Í þessu fólst mis­mun­un á aðstöðu fólks í gegn­um lífs­leiðina. Marg­ar fjöl­skyld­ur hafa þurft að end­ur­skipu­leggja fjár­mál efri ár­anna vegna þessa. Marg­ir hafa þurft að tak­ast á við þá staðreynd að erfa gaml­ar ábyrgðir á náms­lán­um, jafn­vel án þess að gera sér grein fyr­ir því. Þetta hef­ur eðli máls­ins sam­kvæmt verið fólki þung­bært. Þessu hef­ur, sem bet­ur fer, verið breytt með nýju lög­un­um þegar 35.000 ábyrgðir á náms­lán­um féllu niður.

Þessi lög bera því með sér um­bylt­ingu á náms­lána­kerfi hér á landi. Ný lög kveða á um að ábyrgðir ábyrgðarmanna á náms­lán­um, tekn­um í tíð eldri laga, falli niður við gildis­töku lag­anna, enda sé lánþegi í skil­um á láni sínu. Mark­miðið er að hver lánþegi skuli sjálf­ur vera ábyrg­ur fyr­ir end­ur­greiðslu eig­in náms­lána og sam­ræma þannig náms­lán sem veitt eru fyr­ir og eft­ir árið 2009. Þá er til­tekið að ábyrgðir ábyrgðar­manns falli niður við and­lát hans enda sé lánþegi í skil­um. Þessi breyt­ing er í sam­ræmi við reglu sem lengi hef­ur gilt um lánþeg­ann sjálf­an, þ.e. að skuld­in falli niður við and­lát en erf­ist ekki. Þetta er gríðarlega mik­il­vægt enda hef­ur verið vak­in at­hygli á ágöll­um á þessu fyr­ir­komu­lagi í fjölda ára af hálfu þeirra sem hafa fengið láns­ábyrgð í arf.

Mark­mið mitt með þess­um laga­breyt­ing­um er að draga úr aðstöðumun í sam­fé­lag­inu ásamt því að tryggja jafna mögu­leika og jöfn tæki­færi til náms. Þannig á mögu­leiki á mennt­un að vera án til­lits til land­fræðilegra aðstæðna, kyns eða efna­hags­legra og fé­lags­legra aðstæðna. Það hef­ur mynd­ast góð samstaða á Alþingi um að ráðast í þess­ar kerf­is­breyt­ing­ar sem voru löngu tíma­bær­ar. Kerf­is­breyt­ing sem þessi leiðir af sér aukið rétt­læti í sam­fé­lag­inu ásamt því að auka verðmæta­sköp­un sem felst í því að fleiri hafa tæki­færi á því að mennta sig án þess að reiða sig á góðvild annarra. Eitt af mark­miðum nýrra laga var að náms­lána­kerfið væri sann­gjarn­ara og rétt­lát­ara. Þessi kerf­is­breyt­ing mun einnig greiða leiðina að áhyggju­lausu ævikvöldi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júlí 2020.