Categories
Greinar

Sjónvarpsefni selur súkkulaði

Deila grein

17/07/2020

Sjónvarpsefni selur súkkulaði

Sala á íslenskum vörum og þjónustu fyrir erlendan gjaldeyri hefur sjaldan verið mikilvægari en nú. Með slíkri gjaldeyrisöflun verða til verðmæti sem halda samfélaginu gangandi, leggja grunninn að hagsæld og velferð okkar allra. Tjónið af samdrætti í útflutningstekjum vegna kórónuveiru-faraldursins er ómælt. Tekjur af erlendum ferðamönnum hafa minnkað, mikilvægir markaðir fyrir íslenskan fisk breyst og verðlækkanir hafa orðið á áli og kísilmálmi síðustu misseri vegna breyttrar neysluhegðunar um allan heim. Áhrif þess á hagkerfið eru veruleg.

Íslendingar hafa áður tekist á við áskoranir af þessu tagi. Við höfum dregið lærdóm þeim og vitum hversu mikilvæg fjölbreytni í atvinnulífinu er. Með fleiri útflutningsgreinum minnkar höggið af stórum áföllum, rétt eins og sannast hefur á undanförnum vikum.

Íslensk kvikmyndagerð er ein þeirra greina sem skapar verðmæti. Íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsefni hafa vakið mikla athygli erlendis og Ísland er upptökustaður á heimsmælikvarða. Náttúrufegurð á þar hlut að máli en fagþekking og metnaður þeirra sem starfa í greininni skiptir enn meira máli. Nýjasta rósin í hnappagat þeirra snýr að flutningi og upptöku á kvikmyndatónlist, en á undanförnum árum hafa tugir Netflix- og Hollywood-framleiðenda tekið upp kvikmyndatónlist á Akureyri í samstarfi við SinfoniaNord.

Um heim allan hefur sjónvarpsáhorf verið í hæstu hæðum vegna samkomutakmarkana. Ísland er í aðalhlutverki í sumu því efni sem notið hefur mestra vinsælda og efnahagsleg áhrif þess gætu orðið veruleg. „Husavík“ er nú eitt vinsælasta leitarorðið á netinu og íslenskt lúxus-súkkulaði er rifið úr hillum verslana í Bandaríkjunum, eftir að þarlendar stjörnur heimsóttu framleiðandann í vinsælum umhverfisþætti. Frá því að þátturinn var frumsýndur hafa 30 þúsund súkkulaðiplötur verið sendar með hraði vestur um haf.

Súkkulaði bjargar ekki hagkerfinu eitt og sér, en er (bragð)gott dæmi um samhengi hlutanna. Í fjölbreyttu hagkerfi leiðir eitt af öðru, menning skapar tækifæri sem vekur áhuga á landi og þjóð. Þannig mun fjárfesting í menningarstarfi skila ávinningi til allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. júlí 2020.