Categories
Fréttir

„Störfin heim!“

Deila grein

17/07/2020

„Störfin heim!“

„Það er gamaldags að hugsa sem svo að hið opinbera geti ekki rekið stofnanir og þjónustu úti á landi til jafns við höfuðborgarsvæðið. Úti á landi býr mikill mannauður sem getur vel sinnt þeim verkefnum sem þeim er falið af hinu opinbera. Aukinn fjölbreytileiki starfa eflir landsbyggðina og byggir upp sterkari samfélög,“ segir Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar, í grein á visir.is, „Störfin heim!“.

„Það er ákvörðun að halda byggð í landinu. Til þess að svo megi vera þarf að huga að samgöngum, menntun, menningu og síðast en ekki síst að fjölbreytt tækifæri á atvinnumarkaði séu til staðar,“ segir Ingibjörg Ólöf.

Í Bítinu á Bylgjunni í morgun sagði Ingibjörg Ólöf:

„Við þurfum að færa okkur til nútímans og ég tel það gríðarlega mikilvægt. Við sáum það í kóvinu, þar sem kom í ljós að fólk gat unnið heiman frá sér, og að við getum hugsað þetta lengra. Við eigum að nýta okkur þekkinguna og tæknina og fara í það markvisst að flytja opinber störf út á land.“

Það ætti að ganga enn lengra!

„Það ætti reyndar að mínu mati að ganga enn lengra og miða við það að opinber störf væru almennt frekar úti á landi en í höfuðborginni þar sem fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri eru á höfuðborgarsvæðinu en víða úti á landi,“ segir Ingibjörg Ólöf.

„Við viljum öll sjá blómlega byggð í landinu, við getum öll verið sammála um það. Og til að svo megi verða þurfum við að breyta til, við þurfum að efla landsbyggðina og þá m.a. að fjölga atvinnutækifærum. En við erum að sjá það allt of oft að unga fólkið okkar fer til Reykjavíkur eða erlendis að mennta sig. Það vill síðan koma til baka í sína heimabyggð en hefur ekki haft tækifæri til þess þar sem það er engin atvinna til staðar fyrir það við hæfi,“ segir Ingibjörg Ólöf í Bítinu.