Við mótun farsællar efnahagsstefnu þjóðríkja er einblínt á að auka samkeppnishæfni og styrkja viðnámsþróttinn. Þeim ríkjum sem hafa þetta tvennt að leiðarljósi vegnar vel.
Ísland hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að efnahagur heimila, fyrirtækja og staða hins opinbera hefur styrkst mikið á undanförnum árum. Vegna þessarar hagfelldu stöðu hefur ríkisstjórnin getað mótað markvissar aðgerðir til að styðja við hagkerfið, lykilþættir í þeirri stefnu eru að fjárfesta í menntun og menningu.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að öfugt menntakerfi sé meginforsenda framfara og kjarninn í nýsköpun þjóðarinnar til framtíðar.
Við viljum að stærri hlutur hagkerfisins sé drifinn áfram af hugviti og stuðlað sé að aukinni verðmætasköpun í öllu hagkerfinu. Með því fæst meira jafnvægi í þjóðarbúskapinn og minni sveiflur verða í gjaldeyrissköpun. Til þess að búa til slíkt umhverfi, þar sem nýsköpun blómstrar og verkvit, þarf skýra stefnu í menntamálum og árangur. Menntastefnan tekur mið af þessu hugarfari og ég hlakka til að kynna hana.
Stærsta samfélagsverkefnið okkar er að skólarnir komi sterkir inn í haustið. Um allan heim eru skólar ekki að opna með hefðbundum hætti í haust og skaðinn sem hlýst af því til lengri tíma er ómetanlegur. Við verðum öll sem eitt að leggja mikið af mörkum til að tryggja sterka stöðu allra skólastiga í landinu. Á næstu dögum fer af stað umfangsmikið samráð og samvinna við alla lykilaðila til að stuðla að því að það verði að rauninni.
Skólar gegna þjóðhagslega mikilvægu hlutverki og lengri tíma skólalokun er óæskileg. Það er þjóðahagslega mikilvægt að forgangsraða í þágu skólakerfisins. Stjórnvöld hafa aukið verulega fjárveitingar til menntakerfisins. Ég fullyrði að slík ráðstöfun sé ein sú arðbærasta sem samfélagið leggur í og við forgangsröðum í þágu menntunar. Öll heimsbyggðin stendur frammi fyrir verulegum áskorunum á tímum farsóttar og sótt er að grunnsamfélagsgerðinni.
Á Íslandi höfum við alla burði til þess að sækja fram á þeim sviðum sem eru okkur dýrmætust. Við höldum áfram að forgangsraða í þágu framtíðarinnar í samvinnu hvert við annað.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2020.