Nýlegar jarðhræringar á Reykjanesi hafa verið okkur Íslendingum áminning um nálægð náttúruaflanna. Við búum á eyju elds og ísa sem okkur hefur verið falin til varðveislu. Ábyrgð okkar felst í því að varðveita landið og náttúruna, en á sama tíma verðum við að nýta þær auðlindir sem okkur hefur verið treyst fyrir á skynsamlegan hátt.
Græn markmið á öllum sviðum
Ábyrg auðlindanýting felst ekki í því að láta verðmæti liggja óhreyfð og ónýtt. Hún felst miklu heldur í því að nýta auðlindir með sjálfbærum hætti og nýta arðinn og rentuna til að byggja í haginn fyrir komandi kynslóðir. Það er á ábyrgð okkar sem nú mótum stefnuna að skila Íslandi í betra ástandi til komandi kynslóða. Í því felst bæði sjálfbær nýting náttúruauðlinda, verðmætasköpun og uppbygging innviða. Þessi markmið fara vel saman.
Látum verkin tala
Undirritaður hefur notið þeirrar gæfu að fá tækifæri til að láta verkin tala, þá bæði sem þingmaður Norðausturkjördæmis og forystumaður bænda. Öflugur stuðningur við skógrækt og landgræðslu í takti við verðmætasköpun og innviðauppbyggingu skilar bæði núlifandi og komandi kynslóðum hámarkslífsgæðum. Það eru forréttindi að vera í stöðu til að láta verkin tala.
Græn forysta
Sauðfjárrækt var fyrsta atvinnugreinin á Íslandi til setja sér stefnu um fulla kolefnisjöfnun. Verkið var unnið af bestu fagmönnum sem tóku út kolefnisfótspor greinarinnar og í kjölfarið fylgdi raunhæf og metnaðarfull tímasett áætlun. Það var meðal annars byggt á reynslu af verkefnum eins og „Bændur græða landið“ og gæðastýringu í sauðfjárrækt en yfir 90% bænda hafa unnið landbótastarf undir merkjum þeirra.
Kerfið þarf að virka
Því miður hefur gengið hægar að hrinda kolefnisjöfnunarverkefninu í framkvæmd en að var stefnt. Sama má segja um hugmyndir um stórfellda beitarskógaræktun sem undirritaður keyrði af stað í samvinnu við skógræktarfólk fyrir fáeinum árum. Eina skýringu fyrir þessu er meðal annars að finna í því að boðleiðir og verkaskipting í stjórnsýslunni er ekki með þeim hætti sem best væri á kosið til að ná hámarksárangri í kolefnisjöfnun.
Samvinna er lykillinn
Eftirfylgni undirritaðs á Alþingi, meðal annars með því að vera fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þingmanna úr ýmsum flokkum um þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt, hefur hjálpað til við að halda þessum málaflokki á dagskrá. Sú tillaga miðaðist við að leitað yrði víðtækrar samvinnu, stjórnvalda, almennings, atvinnulífs og bænda, stærstu landeigenda á Íslandi.
Nýtt ráðuneyti umhverfis og landbúnaðar
Það er mikilvægt fyrir komandi kynslóðir að kolefnisjöfnun verði forgangsverkefni á Íslandi. Öflugt þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt í samvinnu við bændur getur einnig leitt til nýrra atvinnutækifæra um allt land. Áður en lengra er farið þá þarf að stokka upp í stjórnsýslunni. Eftir næstu kosningar þarf að setja upp nýtt ráðuneyti umhverfismála og landbúnaðar. Það er kominn tími til að láta verkin tala og gera Ísland grænna.
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2021.