Málefni norðurslóða eru meðal helstu forgangsmála Íslands á alþjóðavettvangi, en bæði vísindaleg og staðbundin þekking er ómetanleg við ákvarðanatöku sem hefur áhrif á heiminn. Vísindarannsóknir og vöktun breytinga á norðurslóðum er undirstaðan fyrir frekari stefnumótun, bæði innan ríkja og í alþjóðlegu samstarfi. Áhrif loftslagsbreytinga eru einna sýnilegastar á norðurslóðum þar sem hlýnun er meira en tvöfalt hraðari en annars staðar. Hringborð norðurslóða fer fram þessa dagana í Reykjavík. Það er alþjóðlegur samstarfs- og samráðsvettvangur um málefni norðurslóða og stærsta alþjóðlega samkoman þar sem framtíð norðurslóða er rædd. Ísland nýtur góðs af þessum samráðsvettvangi og mikilvægt að hann sé nýttur af vísindasamfélaginu og atvinnulífinu.
Kortlagning norðurslóðarannsókna á Íslandi
Umfang norðurslóðarannsókna á Íslandi hefur aukist mikið undanfarinn áratug og hafa rannsóknarverkefni á málefnasviðinu sprottið upp víða um land. Nýverið kom út skýrslan: Kortlagning norðurslóðarannsókna á Íslandi sem unnin var af Rannís, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Norðurslóðaneti Íslands, en verkefnið naut góðs af sérstöku átaki ríkisstjórnarinnar um sumarstörf fyrir námsmenn á tímum heimsfaraldurs. Skýrslan inniheldur meðal annars greinargott yfirlit um norðurslóðastefnu íslenskra stjórnvalda og lýsingu á íslenskum aðilum sem stunda norðurslóðarannsóknir. Meginefni skýrslurnar er greining á norðurslóðaverkefnum út frá úthlutunum innlendra og erlendra samkeppnissjóða undanfarinn áratug. Þar kemur fram að yfir milljarði króna hafi verið úthlutað hérlendis til norðurslóðaverkefna úr Rannsóknasjóði, en háskólar, stofnanir og fyrirtæki á Íslandi hafa jafnframt sótt verkefnastyrki fyrir yfir milljarð króna í Horizon 2020, rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins á sjö ára tímabili áætlunarinnar. Niðurstöður skýrslunnar leiða í ljós að á Íslandi kemur öflugur hópur aðila að norðurslóðarannsóknum og að íslenskir háskólar, stofnanir og fyrirtæki eru eftirsóttir samstarfsaðilar í alþjóðlegu samstarfi.
Pólitísk forysta um vísindasamstarf á norðurslóðum og aukin samskipti við Japan
Ísland hefur gert sig gildandi í alþjóðlegu norðurslóðasamstarfi og hefur verið með formennsku í Norðurskautsráðinu árin 2019-2021. Ísland hefur einnig í samstarfi við Japan staðið að þriðja fundi vísindamálaráðherra um vísindi norðurslóða. Upphaflega stóð til að fundurinn færi fram í nóvember síðastliðnum en líkt og hefur gerst með aðra alþjóðlega viðburði hafa skipuleggjendur þurft að aðlaga sig að breyttum aðstæðum vegna Covid-19-heimsfaraldursins. Megináhersla íslenskra stjórnvalda hefur verið opin umræða, gagnsæi og nýsköpun. Áhrif umhverfis- og tæknibreytinga á samfélög og lífríki á norðurslóðum hafa verið dregin upp sem mikilvægt viðfangsefni. Meðal þess sem komið hefur í ljós er mikil þörf á aukinni vöktun og frekari rannsóknum á samspili umhverfisbreytinga og samfélagsþróunar á norðurslóðum og þýðingu þessara breytinga á heimsvísu. Meðal þess sem hefur komið út úr samstarfi vísindamálaráðherra norðurslóða er nýr gagnagrunnur um alþjóðlegt vísindasamstarf og samráðsvettvangur fjármögnunaraðila norðurslóðarannsókna.
Sóknarfæri fyrir atvinnulífið og frekari rannsóknir
Á undanförnum árum hefur byggst upp öflugt þekkingarsamfélag hérlendis um málefni sem getur vaxið og dafnað frekar. Í því samhengi hefur Ísland tækifæri til að styrkja stöðu sína enn frekar sem alþjóðleg miðstöð fyrir norðurslóðarannsóknir og nýsköpun, þar sem hagfelld landfræðileg lega og öflugir innviðir eru lykilforsenda í samspili við það margbreytilega hugvit sem hér fyrirfinnst. Síðastliðið haust var kynnt vísinda- og tæknistefna fyrir árin 2020-2022, þar sem blásið er til stórsóknar til stuðnings við þekkingarsamfélagið á Íslandi, meðal annars með eflingu samkeppnissjóða og til rannsókna og nýsköpunar á sviði umhverfismála. Ég vænti þess að vinnan sem nú fer fram styðji við komandi kynslóð rannsakenda og frumkvöðla sem leita munu nýrra tækifæra á norðurslóðum.
Í mínum huga er það ljóst að tækniframfarir verða leiðandi í lausninni á loftslagsvandanum. Græn fjárfesting og hugvit Íslendinga getur orðið lykillinn að raunverulegum framförum.
Ísland hefur margt fram að færa í málefnum norðurslóða. Við eigum að halda áfram að leggja áherslu á málefni norðurslóða í víðum skilningi; tryggja stöðu okkar sem strandríkis innan svæðisins og taka virkan þátt í alþjóðlegri vísindasamvinnu er því tengist.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2021.