Categories
Greinar

Norðurslóðir eru vettvangur breytinga

Deila grein

18/10/2021

Norðurslóðir eru vettvangur breytinga

Mál­efni norður­slóða eru meðal helstu for­gangs­mála Íslands á alþjóðavett­vangi, en bæði vís­inda­leg og staðbund­in þekk­ing er ómet­an­leg við ákv­arðana­töku sem hef­ur áhrif á heim­inn. Vís­inda­rann­sókn­ir og vökt­un breyt­inga á norður­slóðum er und­ir­staðan fyr­ir frek­ari stefnu­mót­un, bæði inn­an ríkja og í alþjóðlegu sam­starfi. Áhrif lofts­lags­breyt­inga eru einna sýni­leg­ast­ar á norður­slóðum þar sem hlýn­un er meira en tvö­falt hraðari en ann­ars staðar. Hring­borð norður­slóða fer fram þessa dag­ana í Reykja­vík. Það er alþjóðleg­ur sam­starfs- og sam­ráðsvett­vang­ur um mál­efni norður­slóða og stærsta alþjóðlega sam­kom­an þar sem framtíð norður­slóða er rædd. Ísland nýt­ur góðs af þess­um sam­ráðsvett­vangi og mik­il­vægt að hann sé nýtt­ur af vís­inda­sam­fé­lag­inu og at­vinnu­líf­inu.

Kort­lagn­ing norður­slóðarann­sókna á Íslandi

Um­fang norður­slóðarann­sókna á Íslandi hef­ur auk­ist mikið und­an­far­inn ára­tug og hafa rann­sókn­ar­verk­efni á mál­efna­sviðinu sprottið upp víða um land. Ný­verið kom út skýrsl­an: Kort­lagn­ing norður­slóðarann­sókna á Íslandi sem unn­in var af Rannís, Stofn­un Vil­hjálms Stef­áns­son­ar og Norður­slóðaneti Íslands, en verk­efnið naut góðs af sér­stöku átaki rík­is­stjórn­ar­inn­ar um sum­arstörf fyr­ir náms­menn á tím­um heims­far­ald­urs. Skýrsl­an inni­held­ur meðal ann­ars grein­argott yf­ir­lit um norður­slóðastefnu ís­lenskra stjórn­valda og lýs­ingu á ís­lensk­um aðilum sem stunda norður­slóðarann­sókn­ir. Meg­in­efni skýrsl­urn­ar er grein­ing á norður­slóðaverk­efn­um út frá út­hlut­un­um inn­lendra og er­lendra sam­keppn­is­sjóða und­an­far­inn ára­tug. Þar kem­ur fram að yfir millj­arði króna hafi verið út­hlutað hér­lend­is til norður­slóðaverk­efna úr Rann­sókna­sjóði, en há­skól­ar, stofn­an­ir og fyr­ir­tæki á Íslandi hafa jafn­framt sótt verk­efna­styrki fyr­ir yfir millj­arð króna í Horizon 2020, rann­sókn­ar- og ný­sköp­un­ar­áætl­un Evr­ópu­sam­bands­ins á sjö ára tíma­bili áætl­un­ar­inn­ar. Niður­stöður skýrsl­unn­ar leiða í ljós að á Íslandi kem­ur öfl­ug­ur hóp­ur aðila að norður­slóðarann­sókn­um og að ís­lensk­ir há­skól­ar, stofn­an­ir og fyr­ir­tæki eru eft­ir­sótt­ir sam­starfsaðilar í alþjóðlegu sam­starfi.

Póli­tísk for­ysta um vís­inda­sam­starf á norður­slóðum og auk­in sam­skipti við Jap­an

Ísland hef­ur gert sig gild­andi í alþjóðlegu norður­slóðasam­starfi og hef­ur verið með for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu árin 2019-2021. Ísland hef­ur einnig í sam­starfi við Jap­an staðið að þriðja fundi vís­inda­málaráðherra um vís­indi norður­slóða. Upp­haf­lega stóð til að fund­ur­inn færi fram í nóv­em­ber síðastliðnum en líkt og hef­ur gerst með aðra alþjóðlega viðburði hafa skipu­leggj­end­ur þurft að aðlaga sig að breytt­um aðstæðum vegna Covid-19-heims­far­ald­urs­ins. Megin­áhersla ís­lenskra stjórn­valda hef­ur verið opin umræða, gagn­sæi og ný­sköp­un. Áhrif um­hverf­is- og tækni­breyt­inga á sam­fé­lög og líf­ríki á norður­slóðum hafa verið dreg­in upp sem mik­il­vægt viðfangs­efni. Meðal þess sem komið hef­ur í ljós er mik­il þörf á auk­inni vökt­un og frek­ari rann­sókn­um á sam­spili um­hverf­is­breyt­inga og sam­fé­lagsþró­un­ar á norður­slóðum og þýðingu þess­ara breyt­inga á heimsvísu. Meðal þess sem hef­ur komið út úr sam­starfi vís­inda­málaráðherra norður­slóða er nýr gagna­grunn­ur um alþjóðlegt vís­inda­sam­starf og sam­ráðsvett­vang­ur fjár­mögn­un­araðila norður­slóðarann­sókna.

Sókn­ar­færi fyr­ir at­vinnu­lífið og frek­ari rann­sókn­ir

Á und­an­förn­um árum hef­ur byggst upp öfl­ugt þekk­ing­ar­sam­fé­lag hér­lend­is um mál­efni sem get­ur vaxið og dafnað frek­ar. Í því sam­hengi hef­ur Ísland tæki­færi til að styrkja stöðu sína enn frek­ar sem alþjóðleg miðstöð fyr­ir norður­slóðarann­sókn­ir og ný­sköp­un, þar sem hag­felld land­fræðileg lega og öfl­ug­ir innviðir eru lyk­il­for­senda í sam­spili við það marg­breyti­lega hug­vit sem hér fyr­ir­finnst. Síðastliðið haust var kynnt vís­inda- og tækni­stefna fyr­ir árin 2020-2022, þar sem blásið er til stór­sókn­ar til stuðnings við þekk­ing­ar­sam­fé­lagið á Íslandi, meðal ann­ars með efl­ingu sam­keppn­is­sjóða og til rann­sókna og ný­sköp­un­ar á sviði um­hverf­is­mála. Ég vænti þess að vinn­an sem nú fer fram styðji við kom­andi kyn­slóð rann­sak­enda og frum­kvöðla sem leita munu nýrra tæki­færa á norður­slóðum.

Í mín­um huga er það ljóst að tækni­fram­far­ir verða leiðandi í lausn­inni á lofts­lags­vand­an­um. Græn fjár­fest­ing og hug­vit Íslend­inga get­ur orðið lyk­ill­inn að raun­veru­leg­um fram­förum.

Ísland hef­ur margt fram að færa í mál­efn­um norður­slóða. Við eig­um að halda áfram að leggja áherslu á mál­efni norður­slóða í víðum skiln­ingi; tryggja stöðu okk­ar sem strand­rík­is inn­an svæðis­ins og taka virk­an þátt í alþjóðlegri vís­inda­sam­vinnu er því teng­ist.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2021.