Categories
Greinar

Ferðumst á vit nýrra ævintýra

Deila grein

14/12/2021

Ferðumst á vit nýrra ævintýra

Forfeður okk­ar áttuðu sig snemma á mik­il­vægi þekk­ing­ar og hversu mik­il­vægt það væri að afla sér nýrr­ar þekk­ing­ar með því að ferðast á vit nýrra æv­in­týra en svo er kveðið á í Há­va­mál­um:

Vits er þörf
þeim er víða rat­ar.
Dælt er heima hvað.
Að auga­bragði verður
sá er ekki kann
og með snotr­um sit­ur.

Ég geri ráð fyr­ir að þess­ari heim­speki Há­va­mála hafi frem­ur verið beint til okk­ar heima­fólks um að sækja okk­ur þekk­ingu ytra en að Ísland yrði sá staður sem yrði heim­sótt­ur ríku­lega. Staðreynd­in er hins veg­ar sú að á skömm­um tíma hef­ur ferðaþjón­ust­an vaxið í eina af stærstu út­flutn­ings­grein­um þjóðar­inn­ar.

Ferðaþjón­usta skapaði 553 millj­arða króna verðmæti fyr­ir sam­fé­lagið árið 2019 og mun­ar um minna! Sama ár námu bein­ar gjald­eyris­tekj­ur af er­lend­um ferðamönn­um 383 ma.kr. eða 8,6% af vergri lands­fram­leiðslu. Vegna þessa hef­ur stöðug­leiki gjald­miðils­ins auk­ist og gjald­eyr­is­forði þjóðarbús­ins styrkst veru­lega. Auk­in­held­ur má segja að ferðaþjón­ust­an sé ein ár­ang­urs­rík­asta byggðaaðgerð Íslands­sög­unn­ar, sjálfsprott­in at­vinnu­up­bygg­ing um allt land. Á ár­un­um 2009-2019 skapaði ferðaþjón­usta að jafnaði 500 ný störf á ári á lands­byggðinni. Það er gríðarlega mik­il­vægt að þessi þróun tap­ist ekki.

Það hef­ur eng­um dulist að áhrif heims­far­ald­urs­ins hafa komið hlut­falls­lega verr við ferðaþjón­ust­una en ýms­ar aðrar at­vinnu­grein­ar. Að sama skapi hef­ur það varpað enn skýr­ara ljósi á það hversu mik­il­væg ferðaþjón­ust­an er fyr­ir efna­hags­lífið. Því hafa stjórn­völd lagt þunga áherslu á að styðja við grein­ina til þess að tryggja að hún lendi á báðum fót­um eft­ir heims­far­ald­ur og verði vel und­ir það búin þegar fólks­flutn­ing­ar milli landa aukast enn frek­ar að nýju. Það er aug­ljóst að þeim mun hraðari sem viðspyrna ferðaþjón­ust­unn­ar verður, þeim mun minni verður sam­fé­lags­leg­ur kostnaður af far­aldr­in­um til lengri tíma.

Ferðaþjón­ust­an hef­ur einnig átt stór­an þátt í að auka lífs­gæði okk­ar með ríku­legra mann­lífi, ný­stár­legu fram­boði af afþrey­ingu og góðum mat og gefið Íslend­ing­um tæki­færi á að víkka út tengslanet sín svo dæmi séu tek­in. Sá aukni áhugi á Íslandi sem fylg­ir ferðaþjón­ust­unni hef­ur einnig aukið skiln­ing lands­manna á eig­in landi og varpað ljósi á hversu sér­stakt það er fyr­ir margra hluta sak­ir. Það er ánægju­legt að geta tekið á móti fjölda gesta og deilt með þeim nátt­úru okk­ar, sögu og menn­ingu. Til að styðja enn frek­ar við það munu stjórn­völd meðal ann­ars halda áfram að styðja við markaðssetn­ingu Íslands sem áfangastaðar. Þannig tryggj­um við áfram­hald­andi sókn fyr­ir ferðaþjón­ust­una til að skapa ný æv­in­týri og þekk­ingu, þar sem speki Há­va­mála er höfð að leiðarljósi.

Höf­und­ur er ferðamálaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Al­freðsdótt­ir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. desember 2021.