Deyi málin deyja líka þjóðirnar, eða verða að annarri þjóð.“ Svo komst Konráð Gíslason, prófessor í norrænum fræðum við Hafnarháskóla og einn Fjölnismanna, að orði árið 1837 í umfjöllun sinni um íslenskuna. Orð Konráðs ríma við orð fjölmargra annarra í tímans rás um mikilvægi tungumálsins okkar, enda óumdeilt að íslenskan er dýrmætt og einstakt tungumál sem mótað hefur sjálfsmynd okkar sem þjóðar og undirbyggt sjálfstæði landsins með öllum þeim menningararfi sem henni fylgir. Hraðar tæknibreytingar samtímans hafa þó dregið fram nýjar áskoranir gagnvart íslenskunni sem mikilvægt er að takast á við af festu.
Með ofangreint meðal annars í huga höfum við nýtt tímann vel undanfarin fjögur ár og unnið heimavinnuna okkar til þess að styrkja stöðu íslenskunnar á margvíslegan hátt til framtíðar. Góð og alhliða móðurmálsþekking er mikilvæg fyrir persónulegan þroska barna, menntun þeirra og hæfni til að móta hugsanir sínar og hugmyndir. Með aukinni snjalltækjanotkun eykst því þörfin á að tækin skilji móðurmálið okkar.
Íslensk stjórnvöld hafa leitt saman vísindamenn, frumkvöðla og einkafyrirtæki í umfangsmiklum og metnaðarfullum verkefnum sem miða að því að efla máltækni hér á landi. Um 2,3 milljarðar hafa þannig runnið til Verkáætlunar um máltækni sem áætlað er að ljúki í ár. Á sjötta tug sérfræðinga hafa undanfarin ár unnið að rannsóknum og þróun máltækni á Íslandi. Til dæmis eru mörg hundruð klukkustundir af talmálsupptökum aðgengilegar fyrir þá sem vilja þróa íslenskar snjalltækjaraddir. Þúsundir klukkustunda af hljóðdæmum eru einnig fáanlegar sem má nota til að kenna tækjunum íslensku sem nýtist í öllu daglegu lífi fólks.
Á næsta ári verða önnur þýðingarmikil verklok fyrir íslenskuna og menningararfinn henni tengdan. Hús íslenskunnar verður þá formlega opnað og færir þannig tungumálinu okkar nýtt og glæsilegt lögheimili sem við getum öll verið stolt af. Hin nýju heimkyni munu hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þar verða meðal annars lesrými, fyrirlestra- og kennslusalir, skrifstofur og bókasafn, að ógleymdum sérhönnuðum rýmum s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á íslenskum skinnhandritum – okkar dýrmætustu menningarverðmætum.
Við munum halda ótrauð áfram við að gera veg íslenskunnar sem mestan. Það verður áframhaldandi samvinnuverkefni stjórnvalda, almennings, atvinnulífsins og annarra sem hafa lagt mikið af mörkum undanfarin ár fyrir tungumálið. Það er trú mín að án tungumáls verði hugmyndir ekki til og ef allir tala sama tungumálið er hugmyndaauðgi stefnt í voða og framförum til lengri tíma. Það eiga ekki allir að vera eins, þannig viðhöldum við margbreytilegri og sterkari samfélögum.
Höfundur er menningarmálaráðherra.
Höfundur: Lilja Alfreðsdóttir
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. janúar 2022.