Categories
Greinar

Spennandi tímar fyrir íslenskuna

Deila grein

06/01/2022

Spennandi tímar fyrir íslenskuna

Deyi mál­in deyja líka þjóðirn­ar, eða verða að ann­arri þjóð.“ Svo komst Kon­ráð Gísla­son, pró­fess­or í nor­ræn­um fræðum við Hafn­ar­há­skóla og einn Fjöln­ismanna, að orði árið 1837 í um­fjöll­un sinni um ís­lensk­una. Orð Kon­ráðs ríma við orð fjöl­margra annarra í tím­ans rás um mik­il­vægi tungu­máls­ins okk­ar, enda óum­deilt að ís­lensk­an er dýr­mætt og ein­stakt tungu­mál sem mótað hef­ur sjálfs­mynd okk­ar sem þjóðar og und­ir­byggt sjálf­stæði lands­ins með öll­um þeim menn­ing­ar­arfi sem henni fylg­ir. Hraðar tækni­breyt­ing­ar sam­tím­ans hafa þó dregið fram nýj­ar áskor­an­ir gagn­vart ís­lensk­unni sem mik­il­vægt er að tak­ast á við af festu.

Með of­an­greint meðal ann­ars í huga höf­um við nýtt tím­ann vel und­an­far­in fjög­ur ár og unnið heima­vinn­una okk­ar til þess að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar á marg­vís­leg­an hátt til framtíðar. Góð og al­hliða móður­málsþekk­ing er mik­il­væg fyr­ir per­sónu­leg­an þroska barna, mennt­un þeirra og hæfni til að móta hugs­an­ir sín­ar og hug­mynd­ir. Með auk­inni snjall­tækja­notk­un eykst því þörf­in á að tæk­in skilji móður­málið okk­ar.

Íslensk stjórn­völd hafa leitt sam­an vís­inda­menn, frum­kvöðla og einka­fyr­ir­tæki í um­fangs­mikl­um og metnaðarfull­um verk­efn­um sem miða að því að efla mál­tækni hér á landi. Um 2,3 millj­arðar hafa þannig runnið til Ver­káætl­un­ar um mál­tækni sem áætlað er að ljúki í ár. Á sjötta tug sér­fræðinga hafa und­an­far­in ár unnið að rann­sókn­um og þróun mál­tækni á Íslandi. Til dæm­is eru mörg hundruð klukku­stund­ir af tal­máls­upp­tök­um aðgengi­leg­ar fyr­ir þá sem vilja þróa ís­lensk­ar snjall­tækjaradd­ir. Þúsund­ir klukku­stunda af hljóðdæm­um eru einnig fá­an­leg­ar sem má nota til að kenna tækj­un­um ís­lensku sem nýt­ist í öllu dag­legu lífi fólks.

Á næsta ári verða önn­ur þýðing­ar­mik­il verklok fyr­ir ís­lensk­una og menn­ing­ar­arf­inn henni tengd­an. Hús ís­lensk­unn­ar verður þá form­lega opnað og fær­ir þannig tungu­mál­inu okk­ar nýtt og glæsi­legt lög­heim­ili sem við get­um öll verið stolt af. Hin nýju heim­kyni munu hýsa fjöl­breytta starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og ís­lensku- og menn­ing­ar­deild Há­skóla Íslands. Þar verða meðal ann­ars les­rými, fyr­ir­lestra- og kennslu­sal­ir, skrif­stof­ur og bóka­safn, að ógleymd­um sér­hönnuðum rým­um s.s. fyr­ir varðveislu, rann­sókn­ir og sýn­ingu á ís­lensk­um skinn­hand­rit­um – okk­ar dýr­mæt­ustu menn­ing­ar­verðmæt­um.

Við mun­um halda ótrauð áfram við að gera veg ís­lensk­unn­ar sem mest­an. Það verður áfram­hald­andi sam­vinnu­verk­efni stjórn­valda, al­menn­ings, at­vinnu­lífs­ins og annarra sem hafa lagt mikið af mörk­um und­an­far­in ár fyr­ir tungu­málið. Það er trú mín að án tungu­máls verði hug­mynd­ir ekki til og ef all­ir tala sama tungu­málið er hug­mynda­auðgi stefnt í voða og fram­förum til lengri tíma. Það eiga ekki all­ir að vera eins, þannig viðhöld­um við marg­breyti­legri og sterk­ari sam­fé­lög­um.

Höf­und­ur er menn­ing­ar­málaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Al­freðsdótt­ir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. janúar 2022.