Í gær var undirritað samkomulag ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði til næstu tíu ára. Markmiðið er skýrt og það er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði með því að nota þau verkfæri sem birtist í samkomulaginu.
Grimmt happdrætti
Síðustu ár höfum við búið við miklar sveiflur á húsnæðismarkaði, bæði hvað varðar framboð á lóðum og húsnæði og þar af leiðandi verð. Þessar sveiflur skapa aðstæður sem valda því að kynslóðirnar sem koma inn á markaðinn sem fyrstu kaupendur verða hluti af eins konar grimmu happdrætti þar sem fæstir vinna og flestir hefja þátttöku með þungar byrðar. Vegna þessarar stöðu er mikil áhersla lögð á húsnæðismálin í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Fyrstu skrefin voru þau að sameina undir einu ráðuneyti, nýju innviðaráðuneyti, málaflokka húsnæðis, skipulags, sveitarstjórna, samgangna og byggða. Þessi aðgerð er grundvöllur þess að hægt sé að greina stöðuna og koma með markvissar og öflugar aðgerðir til þess að skapa jafnvægi á þessum mikilvæga markaði.
Tímamótasamkomulag
Það samkomulag sem undirritað var í gær markar tímamót. Í því felst að ríki og sveitarfélög hafa sömu sýn, bæði á vandann, og þá ekki síður á lausnirnar. Markmiðið er að á næstu tíu árum verði byggðar 35 þúsund nýjar íbúðir, fjögur þúsund íbúðir á ári fyrstu fimm árin og þrjú þúsund síðari fimm árin. Þá er ekki síður mikilvægt að þriðjungur þessara 35 þúsund íbúða verði á viðráðanlegu verði og fimm prósent af öllu nýju húsnæði verði félagsleg húsnæðisúrræði til að mæta sérstaklega þörfum þeirra sem höllustum fæti standa. Einnig verður ráðist í sérstakt átak til að eyða biðlistum eftir sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk.
Allir eiga að fá tækifæri
Það er engin ein lausn á þeim vanda sem við blasir á húsnæðismarkaði, lausnirnar eru margar. Í því tímamótasamkomulagi sem undirritað var í gær eru mikilvægir þræðir sem ofnir verða saman til að gera húsnæðismarkaðinn stöðugri. Það er einlæg trú mín að sú samstaða sem hefur náðst milli ríkis og sveitarfélaga varði leiðina til heilbrigðari húsnæðismarkaðar þar sem allir fái tækifæri og enginn verði skilinn eftir á götunni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 13. júlí 2022.