Categories
Greinar

Áfram Ísland!

Deila grein

13/07/2022

Áfram Ísland!

Það er eft­ir­vænt­ing í sam­fé­lag­inu nú þegar stelp­urn­ar okk­ar spila sinn ann­an leik gegn Ítal­íu á Evr­ópu­meist­ara­móti kvenna í knatt­spyrnu á Englandi í dag. Sam­ein­ing­araflið og kraft­ur­inn sem fylg­ir stelp­un­um smit­ar út frá sér. Fjöldi ís­lenskra stuðnings­manna hef­ur gert sér ferð á móti til að styðja dyggi­lega við bakið á ís­lenska landsliðinu og fjöl­skyld­ur og vin­ir koma sam­an á Íslandi til þess að horfa á leik­inn og senda hlýja strauma út.

Vel­gengni ís­lensku landsliðanna í knatt­spyrnu hef­ur fyllt okk­ur stolti, gleði og til­hlökk­un. Árang­ur­inn blæs líka bar­áttu­anda og krafti í fjölda barna og ung­linga sem fylgj­ast spennt með sín­um fyr­ir­mynd­um. Vegna þessa er hlaupið hraðar, sparkað fast­ar og stefnt hærra. Íþrótta­fólkið okk­ar býr yfir metnaði, dugnaði og vinnu­semi. Það hef­ur sett sér mark­mið, keppt að þeim sama hvað dyn­ur á og haldið í gleðina yfir stór­um sem smá­um sigr­um.

Það að kom­ast á stór­mót sem þetta er ekki sjálfsagt. Að baki slík­um ár­angri ligg­ur þrot­laus vinna stelpn­anna okk­ar og þeirra sem standa þeim næst. Þessi ár­ang­ur bygg­ist einnig á óeig­ingjarnri vinnu sam­fé­lags­ins í gegn­um tíðina. Ber þar fyrst að nefna baklandið, en það er fólkið sem legg­ur sitt af mörk­um með stuðningi sín­um, elju og ástríðu. Þetta eru fjöl­skyld­urn­ar, starfs­fólkið í íþrótta­hús­un­um, sjálf­boðaliðarn­ir og aðrir vel­unn­ar­ar. Þau eru að upp­skera ríku­lega þessa dag­ana. Annað sem breyt­ir höfuð máli er jafn aðgang­ur að íþrótta og tóm­stund­a­starfi á land­inu okk­ar. Það er okk­ar sem sam­fé­lags að tryggja að öll börn hafi jöfn tæki­færi til þess að ná langt í því sem þau vilja taka sér fyr­ir hend­ur.

Fram und­an eru spenn­andi og skemmti­leg­ir tím­ar og ég trúi því að æv­in­týrið á Englandi sé er rétt að byrja. Til þess að gera um­gjörð móts­ins enn glæsi­legri ákváðu ís­lensk stjórn­völd að blása til menn­ing­arkynn­inga í tengsl­um við leiki stelpn­anna á móti. Að þeim koma öfl­ug­ur hóp­ur ís­lenskra lista­manna sem koma fram fyr­ir hvern leik. Auk­in­held­ur hafa menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið og mennta- og barna­málaráðuneytið lestr­ar­hvatn­ing­ar­her­ferðina sett á lagg­irn­ar lestr­ar­hvatn­ing­ar­her­ferðina Tími til að lesa sem ætluð er fyr­ir les­end­ur á grunn­skóla­aldri í sum­ar.

Hvatn­ing­in er skemmti­leg og inn­blás­in af þátt­töku stelpn­anna okk­ar á EM. Að þessu sinni snýst lestr­ar­hvatn­ing­in um bæði lest­ur og sköp­un. Börn og for­eldr­ar gera með sér samn­ing um ákveðinn mín­útu­fjölda í lestri fyr­ir hvern leik og hvert mark sem að stelp­urn­ar okk­ar skora á EM. Þá geta krakk­ar einnig tekið þátt í að skapa og skrifa sögu til þess að senda inn – en sag­an þarf að inni­halda bolta. Nán­ari upp­lýs­ing­ar er að finna inná vefsíðunni www.tim­itila­dlesa.is.

Það er gam­an að geta samþætt íþrótt­ir og menn­ingu með þess­um hætti til þess að auka hróður lands­ins og hvetja stelp­urn­ar okk­ar enn frek­ar til dáða. Sem ráðherra menn­ing­ar­mála sendi ég stelp­un­um okk­ar bar­áttu­kveðjur fyr­ir leik­inn í dag og óska öll­um lands­mönn­um gleðilegr­ar fót­bolta­hátíðar þar sem slag­orðið verður tví­mæla­laust: Áfram Ísland!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar­ráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 13. júlí 2022.