Orkumál og sjálfbærni þeirra hafa verið í brennidepli vegna hlýnunar jarðar um nokkra hríð. Í kjölfarið á innrás Rússa í Úkraínu og deilum þeirra við Evrópusambandið vegna refsiaðgerða er komin upp óvissustaða í orkumálum í álfunni. Ekkert ríki í heiminum flytur út jafn mikið gas og Rússland, en um helmingur alls gass sem notað er innan ESB kemur frá Rússlandi. Staðan er nú þannig að ekki er víst að Evrópa muni eiga nóg af gasi fyrir komandi vetur. Skortur á gasi í Evrópu leiðir til samdráttar með tilheyrandi afleiðingum fyrir fyrirtæki og fjölskyldur. Samkvæmt spám gæti verg landsframleiðsla í ESB-ríkjum lækkað um allt að 1,5% ef veturinn verður harður með alvarlegum truflunum á gasbirgðum. Talað er um að þýskur iðnaður gæti staðið frammi fyrir alvarlegri ógn vegna skorts á orku. Orkuverð á heimsvísu hefur hækkað verulega og hækkað framfærslukostnað Evrópubúa. Frá því snemma á síðasta ári hefur heimsmarkaðsverð á olíu tvöfaldast, verð á kolum nærri fjórfaldast og verð á evrópsku jarðgasi nánast sjöfaldast. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að framfærslukostnaður heimila hækki að meðaltali um 7% miðað við það sem gert var ráð fyrir snemma árs 2021. Sum ríki skera sig þó úr en talið er að framfærslukostnaður heimila í Eistlandi geti hækkað um allt að 20%.
Reynir á samstöðu innan ESB
Í síðasta mánuði lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram tillögu til að sporna við gasskorti á þá leið að aðildarríkin drægju úr gasnotkun um 15% næsta vetur. Tillagan hefur sætt nokkurri andstöðu innan sambandsins en Spánverjar, Grikkir, Portúgalar, Ítalir, Pólverjar og Kýpverjar eru meðal annars andvígir áætluninni og halda því fram að eitt yfirgripsmikið markmið sé ósanngjarnt miðað við mismunandi orkusamsetningu aðildarríkjanna. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins metur ástandið það alvarlegt að huga þurfi að því hvort samdrátturinn þurfi að vera lögboðinn innan sambandsins. Það er greinilegt að fram undan eru erfiðar samningaviðræður milli ríkja Evrópusambandsins þar sem reyna mun á samstöðu þeirra.
Ísland nýtur sérstöðu í orkumálum
Ég vil í þessu sambandi vekja máls á því að það skiptir verulegu máli að vera sjálfbær á sem flestum sviðum. Á meðan nágrannar okkar í Evrópu sjá fram á harðan vetur í orkumálum stöndum við mun betur að vígi. Við Íslendingar höfum gríðarmikil tækifæri þegar kemur að því að búa til græna orku og þar getum við gert enn betur. Aðgerðir í loftslagsmálum til að ná kolefnishlutleysi hafa framkallað græna iðnbyltingu um allan heim og við erum meðvituð um mikilvægi þess að hraða umskiptum yfir í græna endurnýjanlega orku. Það er verðugt markmið og raunhæft að Ísland verði fyrst ríkja óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 en ávinningurinn af því að venja okkur af jarðefnaeldsneyti er ekki aðeins fyrir loftslagið, heldur skiptir það máli fyrir sjálfstæði þjóðarinnar til lengri tíma litið. Orkuöryggi er þjóðaröryggismál, við Íslendingar erum óþægilega háð innfluttum orkugjöfum á vissum sviðum og mikilvægt að við drögum úr innflutningi á orkugjöfum. Orkuöryggi kallar á aukna raforkuframleiðslu og öflugra flutnings- og dreifikerfi sem aftur kallar á heildrænt skipulag orkukerfisins og samþættingu verkferla. Þá þarf einnig að mæta orkuþörfinni með bættri orkunýtingu og auknum orkusparnaði.
Til að ná þessu fram er mikilvægt að unnið sé í sem mestri sátt um vernd og nýtingu landsvæða og náttúruauðlinda. Okkar verkefni nú er að leita leiða í sameiningu og sátt um hvernig við ætlum að framleiða okkar grænu orku, hvort sem það er með vatnsafli, vindorku eða öðrum aðferðum.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar
Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. ágúst 2022.