Minningargrein
Í dag kveðjum við mætan mann, Ingvar Gíslason. Ingvar hóf ungur að árum afskipti af stjórnmálum. Hann skipaði sér í raðir Framsóknarfólks, þá 18 ára menntaskólanemi á Akureyri, á stofnári lýðveldis 1944. Fyrir honum átti að liggja að helga krafta sína starfi Framsóknarflokksins og veita stefnu flokksins brautargengi í ræðu og riti. Ingvar sat 26 ár á Alþingi, 1961-1987. Hann var menntamálaráðherra 1980-1983 og voru það einkum tvö verkefni er biðu úrlausnar hans öðrum fremur á þeim tíma, málefni Ríkisútvarpsins og Þjóðarbókhlöðunnar og sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns. Ingvar vann að endurskipulagningu RÚV, nýju útvarpshúsi og frumvarpi til útvarpslaga. Eins má nefna lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem voru stórt skref á þeim tíma. Ungu fólki var þá gert kleift að sækja nám víðsvegar um heiminn þar sem nú var lánað fyrir skólagjöldum.
Ingvar sagði svo sjálfur frá að hann hefði litið á sig og raunar hvern og einn alþingismann sem varnarmann sjálfstæðis og fullveldis Íslands á grundvelli stjórnarskrár lýðveldisins.
„Þótt tíminn sé hraðfleygur er of langt gengið að trúa því að mannleg tilvera sé eins og fljúgandi fis í sviptivindum. Ekki afneita ég forlagatrú, en pólitísk nauðhyggja leiðir menn afvega. Sannleikurinn er sá að með skynsemi, gætni og guðshjálp ræður maðurinn sínum næturstað. Ég vona af einlægni að forusta Framsóknarflokksins sé fær um að tileinka sér þessa ofureinföldu fílósófíu roskinna og reyndra manna. Hún er í fullu samræmi við heimspeki alþýðumannsins, búandkarlsins og smáborgarans.“
Ingvar var einarður stuðningsmaður sterks atvinnulífs um land allt og þess að dreifa atvinnutækjunum með það fyrir augum að skapa lífvænleg skilyrði á hverjum byggilegum stað á Íslandi.
„Það er skoðun Framsóknarmanna og sem betur fer margra annarra góðra Íslendinga, að þrátt fyrir landsstærð okkar miðað við fólksfjölda, þá séu staðhættir slíkir hér á landi, að við höfum ekki efni á því, hvorki í nútíð né framtíð, að vanrækja nokkurn þann blett landsins, sem í byggð er og í byggð má verða. Það er lífsskilyrði þessari þjóð og skyldukvöð hennar, að hún haldi öllu sínu landi í byggð og hagi svo stjórnarstefnu sinni, að því marki verði náð. Það er ekki annað en falskenning, að við eigum einhver önnur úrræði betri til lífsbjargar í þessu landi en að byggja upp atvinnulíf sveita, kauptúna og þorpa umhverfis landið.“
Á fundi ungra Framsóknarmanna, eftir að þingmennsku hans var lokið sagði Ingvar m.a.: „Miðjuflokkur á hvorki að vera eins og bjöllukólfur sem sveiflast ýmist til hægri eða vinstri eða eins og vísir á ónýtri klukku sem alltaf bendir í eina átt. Öðru nær. Miðjuflokkur á að vera kjarninn í flokkakerfinu, eins konar segull. Þangað eiga hreyfingar samtímans að leita, þangað á straumurinn að liggja. Þar á að skilja á milli þess sem er gott og framsækið og þess sem er illt og afturvirkt, þess sem er jákvætt og þess sem er neikvætt.“
Við Framsóknarfólk minnumst Ingvars með virðingu og færum ættingjum hans einlæga samúðarkveðju við lát hans.
Sigurður Ingi Jóhannsson,
formaður Framsóknar.