Categories
Fréttir Greinar

Ingvar Gíslason

Deila grein

31/08/2022

Ingvar Gíslason

Minningargrein

Í dag kveðjum við mæt­an mann, Ingvar Gísla­son. Ingvar hóf ung­ur að árum af­skipti af stjórn­mál­um. Hann skipaði sér í raðir Fram­sókn­ar­fólks, þá 18 ára mennta­skóla­nemi á Ak­ur­eyri, á stof­nári lýðveld­is 1944. Fyr­ir hon­um átti að liggja að helga krafta sína starfi Fram­sókn­ar­flokks­ins og veita stefnu flokks­ins braut­ar­gengi í ræðu og riti. Ingvar sat 26 ár á Alþingi, 1961-1987. Hann var mennta­málaráðherra 1980-1983 og voru það einkum tvö verk­efni er biðu úr­lausn­ar hans öðrum frem­ur á þeim tíma, mál­efni Rík­is­út­varps­ins og Þjóðar­bók­hlöðunn­ar og sam­ein­ing Lands­bóka­safns og Há­skóla­bóka­safns. Ingvar vann að end­ur­skipu­lagn­ingu RÚV, nýju út­varps­húsi og frum­varpi til út­varps­laga. Eins má nefna lög um Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna sem voru stórt skref á þeim tíma. Ungu fólki var þá gert kleift að sækja nám víðsveg­ar um heim­inn þar sem nú var lánað fyr­ir skóla­gjöld­um.

Ingvar sagði svo sjálf­ur frá að hann hefði litið á sig og raun­ar hvern og einn alþing­is­mann sem varn­ar­mann sjálf­stæðis og full­veld­is Íslands á grund­velli stjórn­ar­skrár lýðveld­is­ins.

„Þótt tím­inn sé hraðfleyg­ur er of langt gengið að trúa því að mann­leg til­vera sé eins og fljúg­andi fis í svipti­vind­um. Ekki af­neita ég for­laga­trú, en póli­tísk nauðhyggja leiðir menn af­vega. Sann­leik­ur­inn er sá að með skyn­semi, gætni og guðshjálp ræður maður­inn sín­um næt­urstað. Ég vona af ein­lægni að for­usta Fram­sókn­ar­flokks­ins sé fær um að til­einka sér þessa of­ur­ein­földu fílósófíu rosk­inna og reyndra manna. Hún er í fullu sam­ræmi við heim­speki alþýðumanns­ins, bú­and­karls­ins og smá­borg­ar­ans.“

Ingvar var ein­arður stuðnings­maður sterks at­vinnu­lífs um land allt og þess að dreifa at­vinnu­tækj­un­um með það fyr­ir aug­um að skapa líf­væn­leg skil­yrði á hverj­um byggi­leg­um stað á Íslandi.

„Það er skoðun Fram­sókn­ar­manna og sem bet­ur fer margra annarra góðra Íslend­inga, að þrátt fyr­ir lands­stærð okk­ar miðað við fólks­fjölda, þá séu staðhætt­ir slík­ir hér á landi, að við höf­um ekki efni á því, hvorki í nútíð né framtíð, að van­rækja nokk­urn þann blett lands­ins, sem í byggð er og í byggð má verða. Það er lífs­skil­yrði þess­ari þjóð og skyldu­kvöð henn­ar, að hún haldi öllu sínu landi í byggð og hagi svo stjórn­ar­stefnu sinni, að því marki verði náð. Það er ekki annað en fals­kenn­ing, að við eig­um ein­hver önn­ur úrræði betri til lífs­bjarg­ar í þessu landi en að byggja upp at­vinnu­líf sveita, kaup­túna og þorpa um­hverf­is landið.“

Á fundi ungra Fram­sókn­ar­manna, eft­ir að þing­mennsku hans var lokið sagði Ingvar m.a.: „Miðju­flokk­ur á hvorki að vera eins og bjöllu­kólf­ur sem sveifl­ast ým­ist til hægri eða vinstri eða eins og vís­ir á ónýtri klukku sem alltaf bend­ir í eina átt. Öðru nær. Miðju­flokk­ur á að vera kjarn­inn í flokka­kerf­inu, eins kon­ar seg­ull. Þangað eiga hreyf­ing­ar sam­tím­ans að leita, þangað á straum­ur­inn að liggja. Þar á að skilja á milli þess sem er gott og fram­sækið og þess sem er illt og aft­ur­virkt, þess sem er já­kvætt og þess sem er nei­kvætt.“

Við Fram­sókn­ar­fólk minn­umst Ingvars með virðingu og fær­um ætt­ingj­um hans ein­læga samúðarkveðju við lát hans.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son,

formaður Fram­sókn­ar.