Categories
Greinar

Takk sjálfboðaliðar!

Deila grein

05/12/2022

Takk sjálfboðaliðar!

Ásmund­ur Ein­ar Daðason: „Íþrótta- og æsku­lýðsstarf hér á landi get­ur ekki átt sér stað í nú­ver­andi mynd án sjálf­boðaliða sem sí­fellt gefa af sér í þágu heild­ar­inn­ar.

Í dag er alþjóðleg­ur dag­ur sjálf­boðaliðans. Af því til­efni hef­ur mennta- og barna­málaráðuneytið beint sjón­um að mik­il­vægi sjálf­boðaliða fyr­ir íþrótta- og æsku­lýðsstarf með kynn­ingar­átaki und­ir yf­ir­skrift­inni „al­veg sjálfsagt“. Það er til um­hugs­un­ar um vinnu­fram­lag sem er aðdá­un­ar­vert og hreint ekki sjálfsagt. Í dag fer fram ráðstefna ráðuneyt­is­ins um þær áskor­an­ir sem skipu­leggj­end­ur starfs sem reiðir sig á sjálf­boðaliða standa frammi fyr­ir.

Með því að fagna deg­in­um vilja Sam­einuðu þjóðirn­ar benda á mik­il­vægi sjálf­boðastarfs fyr­ir sam­fé­lagið og heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna um sjálf­bæra þróun. Evr­ópuk­ann­an­ir gefa til kynna að um 30% Íslend­inga eldri en 18 ára vinni sjálf­boðastörf á hverj­um tíma. Við minn­umst með þakk­læti og hlýju þeirra ótal sjálf­boðaliða sem á hverj­um degi verja tíma sín­um í marg­vís­leg sam­fé­lags­leg verk­efni af um­hyggju og ein­stakri ósér­hlífni.

Í heims­far­aldr­in­um kom mik­il­vægi íþrótta- og æsku­lýðsstarfs fyr­ir sam­fé­lagið allt ber­lega í ljós. Þegar við sigl­um út úr far­aldr­in­um er mik­il­vægt að skoða hvort starf með sjálf­boðaliðum hafi breyst og hvaða áskor­an­ir eru fram und­an.

Við þurf­um að hlúa vel að sjálf­boðastarf­inu okk­ar og búa þannig um að það haldi áfram að vera eft­ir­sókn­ar­vert. Áfram þarf að und­ir­búa nýj­ar kyn­slóðir und­ir kom­andi verk­efni þar sem sjálf­boðastarf verður áfram mik­il­vægt. Sjálf­boðaliðar þurfa að geta öðlast þekk­ingu og reynslu sem nýt­ist til lífstíðar og að tak­ast á við spenn­andi og krefj­andi verk­efni á eig­in for­send­um. Ekki síður er mik­il­vægt að þátt­taka í sjálf­boðastarfi geti áfram skapað tæki­færi til að kynn­ast nýju fólki og skapa vina­tengsl til fram­búðar. Í sam­fé­lagi þar sem sam­keppni um tíma fólks og at­hygli verður sí­fellt meiri er áskor­un að ná til ein­stak­linga sem reiðubún­ir eru að taka að sér sjálf­boðastörf og finna verk­efni við hæfi.

Íþrótta- og æsku­lýðsstarf hér á landi get­ur ekki átt sér stað í nú­ver­andi mynd án sjálf­boðaliða sem sí­fellt gefa af sér í þágu heild­ar­inn­ar. Fögn­um því að búa í sam­fé­lagi þar sem þátt­taka í sjálf­boðastarfi er jafn sjálf­sögð og raun ber vitni.

Takk sjálf­boðaliðar!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 5. desember 2022.