Categories
Greinar

Orkumál eru fullveldismál

Deila grein

05/12/2022

Orkumál eru fullveldismál

Það er hátíð í dag. Til­efnið er sjálft full­veldið, en við fögn­um því að fyr­ir 104 árum var viður­kennt að Ísland væri full­valda og frjálst ríki og hef­ur því 1. des­em­ber sér­stöðu í sögu og menn­ingu okk­ar. Með sam­bands­lög­un­um milli Íslands og Dan­merk­ur, sem gildi tóku 1. des­em­ber 1918, urðu þátta­skil í sögu þjóðar­inn­ar sem mörkuðu upp­haf að sam­felldri fram­fara­sögu henn­ar.

Tíma­mót sem þessi gefa færi á að líta um öxl og til framtíðar, þakka fyr­ir það sem vel hef­ur tek­ist og hug­leiða hvernig tak­ast skuli á við áskor­an­ir framtíðar­inn­ar. Full­veldi þjóða er ekki sjálf­sagður hlut­ur og verður ekki til af sjálfu sér. Það er drifið áfram af þrám og löng­un­um þjóða til þess að fara með stjórn á eig­in mál­um; trú­in á að með slíku fyr­ir­komu­lagi ná­ist fram betra sam­fé­lag á for­send­um þjóðfé­lagsþegn­anna sjálfra.

Á und­an­förn­um miss­er­um höf­um við verið minnt á það með óhugn­an­leg­um hætti hversu brot­hætt full­veldi ríkja get­ur verið. Grimmi­leg inn­rás Rússa inn í hina frjálsu og full­valda Úkraínu er skýrt dæmi um brot á full­veldi rík­is með skelfi­leg­um af­leiðing­um. Ísland ásamt banda­lagsþjóðum sín­um mun áfram standa heils­hug­ar með Úkraínu gegn þeirri ólög­legu inn­rás sem geis­ar í land­inu.

Það sem stríðið í Úkraínu hef­ur meðal ann­ars varpað ljósi á og vakið umræðu um eru ör­ygg­is­mál í víðu sam­hengi. Til að mynda orku- og fæðuör­yggi sem er gríðarlega mik­il­vægt að huga að. Ég vil meina að hvert það nú­tímaþjóðfé­lag, sem ekki get­ur tryggt greiðan aðgang að fæðu og orku, geti teflt eig­in­legu full­veldi í tví­sýnu.

Íslend­ing­ar hafa borið gæfu til þess að byggja hér upp eitt öfl­ug­asta vel­ferðarþjóðfé­lag heims­ins sem hef­ur meðal ann­ars grund­vall­ast á sjálf­bærri orku­öfl­un. Við eig­um að halda áfram á þeirri braut að auka orku­ör­yggi sem mun leiða til enn meiri sjálf­bærni hag­kerf­is­ins og treysta stöðu lands­ins sem full­valda rík­is enn frek­ar. Sú staðreynd að raf­orku­kerfi lands­ins er ekki tengt raf­orku­kerfi Evr­ópu kem­ur sér sér­stak­lega vel í því ár­ferði sem nú rík­ir og bregður ljósi á mik­il­vægi þess að standa vörð um sjálf­stæði í orku­mál­um. Það sjá­um við til dæm­is með því að líta á þróun raf­orku­verðs ann­ars staðar á Norður­lönd­um, sem hef­ur hækkað mikið. Ísland hef­ur alla mögu­leika á að ná fullu sjálf­stæði í orku­mál­um með auk­inni fram­leiðslu á end­ur­nýj­an­legri orku til þess að standa und­ir raf­væðingu í sam­göng­um í lofti, á láði og legi. Þrátt fyr­ir allt það frá­bæra sam­starf í alþjóðamál­um, sem við tök­um þátt í, er það gæfu­spor fyr­ir þjóðina að vera ekki í Evr­ópu­sam­band­inu. Með fullu for­ræði á stjórn efna­hags- og pen­inga­mála sem og orku­mála hef­ur Íslend­ing­um vegnað vel, eins og alþjóðleg­ur sam­an­b­urður sýn­ir glögg­lega á ýms­um sviðum. Á þeirri braut skul­um við halda áfram. Ég óska lands­mönn­um öll­um til ham­ingju með full­veld­is­dag­inn.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 1. desember 2022.