Þeir sem misst hafa heilsuna, tímabundið eða um lengri tíma, þekkja vel hversu dýrmæt heilsan er. Allt annað lendir í öðru sæti þegar fólk lendir í veikindum og lífsgæði skerðast verulega. Geðraskanir og stoðkerfisvandamál eru meginorsök örorku hér á landi og áskoranir tengdar lífsstílssjúkdómum vega þungt í þjónustu heilbrigðiskerfisins. Aukin áhersla á lýðheilsu þjóðarinnar er gríðarlega mikilvægt skref til framtíðar og þar gegna stjórnvöld mikilvægu hlutverki.
Ein af þeim leiðum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Embætti landlæknis hafa bent á til þess að efla lýðheilsu er innleiðing lýðheilsumats. Við innleiðingu matsins er skoðað á kerfisbundinn hátt hvaða áhrif löggjöf og stjórnvaldsákvarðanir hafa á heilsu þeirra hópa sem verða fyrir áhrifum. Gildir þá einu hvort um jákvæð eða neikvæð áhrif er að ræða. Tilgangurinn er að undirbyggja betri ákvarðanatöku og eftir atvikum bregðast við með mótvægisaðgerðum. Það er því grundvallarforsenda að stjórnvöld vinni að því markmiði með öllum þeim kerfum sem einkenna velferðarríki. Löggjöf hefur haft óumdeilanleg áhrif á heilsu þjóðarinnar í gegnum tíðina. Í lýðheilsustefnu til 2030 er sérstaklega tekið fram að stjórnvöldum beri að hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun. Innleiðingin verður því að vera markviss rétt eins og á við um kostnaðarmat eða mat á áhrifum á jafnrétti, svo eitthvað sé nefnt.
Á haustþingi lagði ég fram þingsályktunartillögu þess efnis að ríkisstjórninni yrði falið að hefja vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi. Lagt er til að skipaður verði sérfræðihópur með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags og Embættis landlæknis sem síðan legði til leiðir sem tryggja rýni allra frumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á lýðheilsu þjóðarinnar. Nærtækast er að horfa til Finnlands í þessum efnum þar sem Finnar hafa sett sér slíkar áherslur.
Heilsa okkar er undirstaða lífsgæða og heilsan verður aldrei metin til fjár. Festum því lýðheilsumat í sessi sem eitt skref í átt að bættri lýðheilsu hér á landi.
Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. febrúar 2023.