Categories
Fréttir

Margt hækkað umfram verðlagshækkanir

Deila grein

01/02/2023

Margt hækkað umfram verðlagshækkanir

„Neytendamál skipta okkur öll máli og sjálfur hef ég aðeins tjáð mig um þau. Ég byrjaði á að fjalla um húsnæðismarkaðinn hér snemma á síðasta ári og hef rætt tryggingamál,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Það svar sem ég fékk við fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra sýndi að iðgjöld bílatrygginga hafa hækkað umfram verðlagshækkanir. Það kemur auðvitað ofan á allt annað. Hækkandi lán á húsnæðinu okkar, leigan, matarkarfan – þetta er auðvitað eitthvað sem við finnum öll fyrir sem búum hér.“

Ágúst Bjarni fór nýlega yfir stöðu innlendrar netverslunar í samkeppni við erlendar netverslanir sem byggja á tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar í viðtali á RÚV.

„Það er alveg ljóst að þetta er áskorun fyrir innlenda verslun í heild sinni, hún er að keppa við verslun á miklu stærri markaði. En við sjáum það líka að það hafa mörg jákvæð skref verið stigin til handa neytendum. Við getum nefnt tollasamninginn, fríverslunarsamninginn, niðurfellingu tolla og vörugjalda og svo mætti lengi telja. Ég held að við þurfum áfram að vinna í þá átt að tala fyrir tvíhliða tollasamningum,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Við sjáum það líka þegar við rýnum í þessar tölur og það er sérstaklega áhugavert — ég hvet þingmenn til þess að rýna skýrslu frá McKinsey frá árinu 2012 sem fjallar um stöðu innlendrar verslunar og þær áskoranir sem fram undan eru. Þar er rými til að hagræða, ná niður fermetrafjölda í verslun og ná upp raunverulegri stærðarhagkvæmni svo að innlend verslun verði samkeppnishæf við þá erlendu,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Forseti. Neytendamál skipta okkur öll máli og sjálfur hef ég aðeins tjáð mig um þau. Ég byrjaði á að fjalla um húsnæðismarkaðinn hér snemma á síðasta ári og hef rætt tryggingamál. Það svar sem ég fékk við fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra sýndi að iðgjöld bílatrygginga hafa hækkað umfram verðlagshækkanir. Það kemur auðvitað ofan á allt annað. Hækkandi lán á húsnæðinu okkar, leigan, matarkarfan — þetta er auðvitað eitthvað sem við finnum öll fyrir sem búum hér.

Nýlega fór ég í viðtal á RÚV, ásamt hv. þm. Guðbrandi Einarssyni frá Viðreisn, varðandi þá stöðu sem innlend netverslun er í í samkeppni við þá erlendu sem byggir á tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Það er alveg ljóst að þetta er áskorun fyrir innlenda verslun í heild sinni, hún er að keppa við verslun á miklu stærri markaði. En við sjáum það líka að það hafa mörg jákvæð skref verið stigin til handa neytendum. Við getum nefnt tollasamninginn, fríverslunarsamninginn, niðurfellingu tolla og vörugjalda og svo mætti lengi telja. Ég held að við þurfum áfram að vinna í þá átt að tala fyrir tvíhliða tollasamningum.

Við sjáum það líka þegar við rýnum í þessar tölur og það er sérstaklega áhugavert — ég hvet þingmenn til þess að rýna skýrslu frá McKinsey frá árinu 2012 sem fjallar um stöðu innlendrar verslunar og þær áskoranir sem fram undan eru. Þar er rými til að hagræða, ná niður fermetrafjölda í verslun og ná upp raunverulegri stærðarhagkvæmni svo að innlend verslun verði samkeppnishæf við þá erlendu.“