Categories
Fréttir

„Greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn“

Deila grein

01/02/2023

„Greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár frá Byggðastofnun í störfum þingsins.

Orkustofnun hefur unnið upp gögnin um kostnað á ársgrundvelli við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land fyrir Byggðastofnun.

„Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hvað kostnaðurinn er mismunandi eftir landsvæðum og það er margt sem skýrir þann mismun,“ sagði Halla Signý.

Húshitunarkostnaður er mikill á milli svæða og sem fyrr mun meiri en á raforkuverði, er munurinn allt að þrefaldur á lægsta og hæsta verði.

„Þó hefur þessi munur dregist saman, m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreifikostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla,“ sagði Halla Signý.

Vestfirðir tróna á toppnum hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey.

„Gamansagan af Vestfirðingnum, sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn, á mögulega enn við,“ sagði Halla Signý.

„Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og ekki hafa allir aðgang að þeirri auðlind. Á Vestfjörðum eru kyntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kyntar með olíu.“

„Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Því þarf að hraða. Auk þess þarf að ráðast í að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum með sterkari hætti. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnusamfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Auk þess eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Byggðastofnun hefur gefið út skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár. Hún hefur áður gefið út slíkar skýrslur og hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land. Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hvað kostnaðurinn er mismunandi eftir landsvæðum og það er margt sem skýrir þann mismun.

Þegar rýnt er í húshitunarkostnað er munurinn á milli svæða sem fyrr mun meiri en á raforkuverði. Hann er mikill, miklu meiri en ásættanlegt er. Munurinn á lægsta og hæsta mögulega húshitunarkostnaði er þrefaldur. Þó hefur þessi munur dregist saman, m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreifikostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla. Það kemur heldur ekki á óvart að Vestfirðir tróni á toppnum hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey. Gamansagan af Vestfirðingnum, sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn, á mögulega enn við.

Virðulegi forseti. Við tölum oft um að þeir sem nýti auðlindir sjávar eigi að greiða fyrir það með arði. Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og ekki hafa allir aðgang að þeirri auðlind. Á Vestfjörðum eru kyntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kyntar með olíu.

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Því þarf að hraða. Auk þess þarf að ráðast í að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum með sterkari hætti. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnusamfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Auk þess eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins.“