Categories
Fréttir

Er ekki þörf á birgðastöðum á fleiri stöðum á landinu?

Deila grein

01/02/2023

Er ekki þörf á birgðastöðum á fleiri stöðum á landinu?

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins áform umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Frumvarpinu er ætlað að skylda söluaðila eldsneytis eigi birgðir að jafngildi notkunar til 90 daga.

„Líkt og við höfum orðið óþægilega vör við síðustu misseri skipast veður skjótt í lofti. Eldgos, heimsfaraldur og stríð geta valdið aðstæðum þar sem lífsnauðsynlegar vörur verða af skornum skammti en nægt framboð er forsenda öryggis á fjöldamörgum sviðum og gæti fljótt stefnt í óefni í samfélaginu ef skortur yrði á jarðefnaeldsneyti,“ sagði Ingibjörg.

Minnti hún á markmið Íslands að verða óháð jarðefnaeldsneyti hér á landi, en fram að því eigi að hafa tiltækar olíubirgðir á landinu. Telur Ingibjörg að skoða verði hvort ekki sé þörf á birgðastöðum á fleiri stöðum á landinu.

„Við vitum aldrei hvaða aðstæður geta skapast, hvort sem er hér á landi eða í heiminum öllum, og því mikilvægt að við séum ekki með öll eggin í sömu körfu. Hér er ég ekki síst að horfa til flugvélaeldsneytis. Við þurfum að vera við því búin að þannig aðstæður skapist hér á suðvesturhorninu að flugvellir lokist. Eldgos á Reykjanesi og óveður undanfarnar vikur eru ágætisáminning fyrir okkur um það,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í síðustu viku kynnti hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráðsgátt áform um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Samkvæmt frumvarpinu er áformað að leggja skyldu á söluaðila eldsneytis, að þeir viðhaldi jarðefnaeldsneytisbirgðum sem jafngildi notkun til 90 daga. Líkt og við höfum orðið óþægilega vör við síðustu misseri skipast veður skjótt í lofti. Eldgos, heimsfaraldur og stríð geta valdið aðstæðum þar sem lífsnauðsynlegar vörur verða af skornum skammti en nægt framboð er forsenda öryggis á fjöldamörgum sviðum og gæti fljótt stefnt í óefni í samfélaginu ef skortur yrði á jarðefnaeldsneyti.

Markmið okkar til framtíðar er auðvitað að verða óháð jarðefnaeldsneyti hér á landi en enn er nokkuð í það að þeim markmiðum verði náð. Þar til orkuskiptum hefur verið náð þurfum við að hafa tiltækar olíubirgðir hér á landi. En einmitt í þessu samhengi langar mig að minnast hér á mikilvægi þess að landið sé allt tengt, að við þessa vinnu sem og annað, þegar hugað er að neyðarbirgðum, verði skoðað hvort ekki sé þörf á að koma upp birgðastöð á fleiri stöðum á landinu. Við vitum aldrei hvaða aðstæður geta skapast, hvort sem er hér á landi eða í heiminum öllum, og því mikilvægt að við séum ekki með öll eggin í sömu körfu. Hér er ég ekki síst að horfa til flugvélaeldsneytis. Við þurfum að vera við því búin að þannig aðstæður skapist hér á suðvesturhorninu að flugvellir lokist. Eldgos á Reykjanesi og óveður undanfarnar vikur eru ágætisáminning fyrir okkur um það.“