Categories
Greinar

Stuðningur við börn sem verða fyrireða beita ofbeldi

Deila grein

01/02/2023

Stuðningur við börn sem verða fyrireða beita ofbeldi

Í haust bárust fréttir af ofbeldi og einelti meðal barna, því miður er ekki um einsdæmi að ræða, það eru til börn sem beita ofbeldi og þá eru börn sem verða fyrir ofbeldi. Um er að ræða samfélagslegt mein sem mikilvægt er að uppræta með öllum tiltækum ráðum. Ekki eru vísbendingar um að börn sem beita ofbeldi í barnæsku verði ofbeldisfull þegar þau verða eldri. Þörf er á að grípa inn í ofbeldi barna ásamt því að leita allra leiða til þess að stöðva ofbeldi í samfélaginu á öllum stigum.

Aukin áhersla á að leysa vanda

Lengi hefur aðaláherslan verið á að veita þeim sem verður fyrir ofbeldi aðstoð. Það er vissulega nauðsynlegt enda er það gríðarlegt áfall að verða fyrir ofbeldi. Þá er það engu að síður mikilvægt að veita viðeigandi fræðslu og stuðning til þeirra sem beita ofbeldi. Þeir sem beita ofbeldi eiga oft og tíðum við einhvern vanda að stríða og því er mikilvægt að þeir einstaklingar fái rétta leiðsögn og stuðning út í lífið. Með öðrum orðum, það er jafn mikilvægt að aðstoða þá sem beita ofbeldi og þá sem verða fyrir ofbeldi.

Samningur við VERU

Ofbeldi barna er enn aðeins lítill hluti mála sem skila sér til lögreglu og barnaverndar. Því miður hefur allt of lengi verið litið á ofbeldi barna sem vandamál sem hægt er að leysa heima fyrir en sem betur fer eru tímarnir að breytast. Fyrir áramót undirritaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, samning til styrktar VERU, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun. Samningurinn snýr að stuðningi við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi. VERA er heildstætt langtíma meðferðarúrræði fyrir unglinga í fikti og neyslu sem rekin eru af Vímulausri æsku, en samtökin stofnuðu Foreldrahús árið 1999 og kjarnastarfsemi þess er ráðgjöf, meðferð og fræðsla. Í Foreldrahúsi er starfrækt fjölskylduráðgjöf, foreldrahópar og foreldranámskeið, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga og stuðningsmeðferð fyrir ungmenni í vímuefnavanda.

Mikilvægi forvarna

Þessi samningur sem gerður var við VERU er stórt og mikilvægt skref í áttinni að því að bæta líðan barnanna okkar. Hér er um að ræða lið í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið stjórnvalda gegn ofbeldi er meðal annars að koma á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. En mikilvægt er að allar aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki sérstaklega til forvarna og fræðslu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2023.