Categories
Fréttir Greinar

Ásýnd Íslands og sérstaða

Deila grein

01/02/2023

Ásýnd Íslands og sérstaða

Milljónir manna um allan heim dreymir um að ferðast til Íslands. Orðspor landsins hefur dreifst um allar heimsálfur og er náttúra landsins og menningarminjar eitt helsta aðdráttarafl ferðaþjónustunnar. Ferðamönnum hefur fjölgað hratt síðustu árin og ferðaþjónustan hefur náð þeim stað að verða ein af okkar stærstu atvinnugreinum. Þá er Ísland í þeirri stöðu umfram margar aðrar þjóðir að ferðaþjónustan er aftur komin á fullt skrið eftir heimsfaraldur. Því má meðal annars þakka aðgerðum stjórnvalda við heimsfaraldri Covid-19 en einnig seiglu og dugnaði þeirra fyrirtækja og starfsmanna sem hér starfa. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur öll tækifæri til þess að halda áfram að vaxa og dafna en aðeins ef rétt er staðið að málum.

En hvað með íslenskuna?

Í allri umræðu um náttúru landsins og uppbyggingu ferðamannastaða megum við þó ekki gleyma einu af okkar aðalsmerkjum, íslenskunni, en Ísland er áhugavert land m.a. vegna hennar. Ef við glötum íslenskunni mun bæði hljómur og ásýnd landsins breytast. Því miður hefur það verið tilhneiging síðustu ár að enskan hafi tekið yfir sem tungumál ferðaþjónustunnar. Æ fleiri fyrirtæki bera ensk nöfn og enskuvæðing á skiltum víðs vegar um land er orðin mjög áberandi. Hér þarf sameiginlegt átak stjórnvalda, sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila til að færa þróunina til betri vegar. Leyfum ferðamönnum að sjá og lesa íslenskuna, það er upplifun til jafns við náttúru og menningu landsins.

Trú á verkefnum og fjárfestingar

Víða um land er kallað eftir aukinni fjárfestingu, sér í lagi á landsbyggðinni. Á sama tíma er takmarkað aðgengi að lánveitingum til fjárfestinga í ferðaþjónustu, sem er áhyggjuefni og mikilvægt að bregðast við með einhverjum hætti. Þörf er á gistirýmum í hærri gæðum og seglum á svæði, t.d. fyrir austan og vestan og ljóst er að ekki er hægt að ráðast í slíkt án fjármagns. Fjárfestar verða að hafa trú á v verkefnum og því þarf að tryggja með betri hætti nýtingu um allt land, allt árið um kring.

Gjaldtaka

Þá kallar fjölgun ferðamanna á aðgerðir af okkar hálfu, sér í lagi ef við ætlum að ná markmiðum okkar um ferðaþjónustu á landsbyggðinni allt árið um kring. Framlög til ferðaþjónustunnar eru ekki há í samanburði við margar aðrar greinar, þrátt fyrir að hér sé um að ræða eina af okkar mikilvægustu atvinnugreinum. Við þurfum að gæta þess að náttúra landsins, auðlind ferðaþjónustunnar, verði ekki fyrir of miklum ágangi og tapi þannig sérstöðu sinni. Það er því óumflýjanlegt, ef við ætlum að byggja hér upp af meiri gæðum til framtíðar, að taka umræðu um gjaldtöku í ferðaþjónustu af meiri festu. Á sama tíma er þó mikilvægt að gera það í samráði við alla hagaðila og gæta þess að ferðaþjónustan hafi gott svigrúm til þess að koma auknum gjöldum inn í verðskrár enda eru þær ákvarðaðar langt fram í tímann. Með góðum innviðum og áhugaverðum seglum bætum við sérstöðu okkar og um leið sérstöðu landsins. Þannig tryggjum við betur ásýnd og framtíð ferðaþjónustu á Íslandi.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2023.