Categories
Greinar

Þjóðminjasafn í 160 ár

Deila grein

26/02/2023

Þjóðminjasafn í 160 ár

Um helg­ina verður haldið upp á 160 ára af­mæli Þjóðminja­safns Íslands en safnið telst stofnað 24. fe­brú­ar 1863 þegar Jón Árna­son, þá stifts­bóka­vörður, færði stifts­yf­ir­völd­um bréf frá Helga Sig­urðssyni á Jörfa í Kol­beinsstaðahreppi þess efn­is að hann vilji gefa Íslandi 15 gripi með því for­orði að þeir marki upp­hafið að safni ís­lenskra forn­minja. Á þess­um tíma hafði varðveisla á ís­lensk­um grip­um einkum farið fram í dönsk­um söfn­um, því var vissu­lega um tíma­mót að ræða.

Í fyll­ingu tím­ans hef­ur safnið vaxið með þjóðinni og tekið breyt­ing­um. Þannig var safnið til að mynda yf­ir­leitt nefnt Forn­gripa­safnið fram til 1911 þegar það hlaut lög­form­lega nafnið Þjóðminja­safn Íslands, sem það hef­ur heitið all­ar göt­ur síðan. Safnið hef­ur komið víða við og verið til húsa á ýms­um stöðum, má þar nefna Dóm­kirkj­una, gamla Tugt­húsið við Skóla­vörðustíg, Alþing­is­húsið og Lands­banka­húsið við Aust­ur­stræti þar til safnið fékk aðstöðu á lofti Lands­bóka­safns­ins við Hverf­is­götu árið 1908. Þar átti það eft­ir að vera til húsa í rúm 40 ár. Það var svo við lýðveld­is­stofn­un árið 1944 að Alþingi Íslend­inga ákvað að reisa Þjóðminja­safn­inu eigið hús við Suður­götu í Reykja­vík og flutti safnið þangað árið 1950.

Nýja hús­næðið markaði vatna­skil í starf­semi safns­ins en með því gafst kost­ur á að út­víka starf­semi þess. Fram að þeim tíma­punkti sam­an­stóð safn­kost­ur­inn mest­megn­is af jarðfundn­um forn­grip­um, kirkju­grip­um og list­mun­um frá fyrri öld­um. Eft­ir flutn­ing­ana á Suður­göt­um gafst safn­inu kost­ur á að hefja einnig söfn­un á al­menn­um nytja­hlut­um sem ekki voru list­grip­ir, svo sem verk­fær­um og búsáhöld­um af ýmsu tagi sem end­ur­spegluðu dag­legt líf fólks hér á landi og tækni­m­inj­um síðar meir.

Árið 2004 var svo ný­upp­gert Þjóðminja­safn opnað á ný eft­ir gagn­ger­ar end­ur­bæt­ur á hús­næði safns­ins við Suður­götu, hús­næðið eins og við þekkj­um það í dag.

Þjóðminja­safnið gegn­ir lyk­il­hlut­verki sem eitt þriggja höfuðsafna þjóðar­inn­ar með því að ann­ast söfn­un, skrá­setn­ingu, varðveislu og rann­sókn­ir á menn­ing­ar­arfi þjóðar­inn­ar ásamt því að styðja við byggðasöfn og önn­ur minja­söfn. Á sama tíma hef­ur safnið aukið og miðlað þekk­ingu á menn­ing­ar­arfi og sögu þjóðar­inn­ar og gert hana aðgengi­legri fyr­ir gesti og gang­andi með áhuga­verðum hætti. Í dag teyg­ir starf­semi safns­ins sig um allt land, meðal ann­ars með Húsa­safni Þjóðminja­safns Íslands sem veit­ir inn­sýn í húsa­kost þjóðar­inn­ar á seinni öld­um og þróun húsa­gerðar. Það er eng­inn vafi í huga mér að við vær­um fá­tæk­ari sem þjóð ef ekki hefði verið fyr­ir fram­sýni Helga og fleiri um að hefja söfn­un forn­gripa fyr­ir 160 árum. Ég hvet því sem flesta til þess að leggja leið sína í Þjóðminja­safnið um helg­ina þar sem þess­um merk­is­áfanga verður fagnað með fjöl­breyttri dag­skrá fyr­ir alla fjöl­skyld­una.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. febrúar 2023.