Categories
Greinar

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Deila grein

29/02/2024

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Eftir 1. júlí 2024 mega bændur ekki endurnota eyrnamerki/ örmerki sín í sauðfé, geitur og nautgripi samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar, á grundvelli EFTA-löggjafar.

Anton Guðmundson.

Í reglugerð 916/2012, með tilskipun 2008/71/EB, kemur fram að ekki sé heimilt að endurnýta einstaklingsmerki. Komi endurnýtt eyrnamerki á sauðfé, geitum og nautgripum inn í sláturtíð haustið 2024 verður þeim, skv. ákvörðun Matvælastofnunar (MAST), fargað í sláturhúsi.

Sé um nautgrip að ræða verður skepnunni fargað og kjötinu eytt, en í tilfelli sauðkindar eða geitar verður merkinu eytt en dýrið samþykkt til slátrunar. 

Þessi reglugerð hefur það í för með sér að gríðarlegur kostnaðarauki er settur yfir á íslenska bændur sem berjast nú víðast hvar við að halda lífi í sveitum landsins sem snýr að byggðastefnu og matvælaöryggi í landinu.

Sem dæmi þá þýðir þetta fyrir bónda sem hefur tæplega 1.000 númer á ári og hvert örmerki kostar 320 krónur, að hann þarf að kaupa á hverju ári 800 hnappa, gerir það 256 þúsund krónur í hreinan aukakostnað fyrir bóndann sem bætist síðan við heildarkostnað á númerum en margir bændur hafa ákveðið að hætta að marka lömbin sín, aðallega vegna dýraverndunarsjónarmiða, og samkvæmt reglugerð verða bændur þá að setja tvö númer, sem sagt númer í bæði eyrun.

Þetta þýðir í raun að bændur þurfa að kaupa merkingar á rúmlega 300 þúsund krónur á hverju ári sem er svo fargað. Hreinleiki íslensks landbúnaðar er einstakur á heimsvísu og það þekkjum við sem byggjum þetta land. Því má með sanni segja að það þykir undrun sæta að íslensk stjórnvöld skuli hleypa reglugerðinni í gegn.

Þau sjónarmið eru ekki höfð að leiðarljósi í ákvörðun þessari að landbúnaður hérlendis er mun faglegri en þekkist víðast hvar í Evrópu. Reglugerð þessi á þess vegna ekki erindi við íslenskan landbúnað. Hún mun hafa í för með sér gríðarlegan kostnaðarauka fyrir íslenska bændur.

Um er að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir bændur og þarf því að endurskoða ákvörðunina út frá því sjónarmiði. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í sjálfstæðu lýðveldi og á ekki ávallt að renna þeim EFTA-tilskipunum sem vinna gegn hagsæld þjóðarinnar áreynslulaust í gegn.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 22. febrúar 2024.