Categories
Fréttir Greinar

Atlantshafsbandalagið í 75 ár og varnarmálastefna fyrir Ísland

Deila grein

13/07/2024

Atlantshafsbandalagið í 75 ár og varnarmálastefna fyrir Ísland

Eitt það mik­il­væg­asta í líf­inu er góð vinátta, sem reyn­ist traust þegar á reyn­ir. Við kynn­umst mik­il­vægi vináttu strax í bernsku og vit­um líka að brýnt er að velja vini gaum­gæfi­lega. Atlants­hafs­banda­lagið er varn­ar­banda­lag vinaþjóða sem aðhyll­ast lýðræði og frelsi. Í ár fögn­um við 80 ára lýðveldi Íslands og get­um litið stolt yfir far­inn veg, en það er ekki að ósekju held­ur hafa far­sæl­ar ákv­arðanir sem tekn­ar voru á fyrstu árum lýðveld­is­ins varðað þá veg­ferð. Ein giftu­rík­asta ákvörðun lýðveld­is­tím­ans var tek­in á Alþingi hinn 30. mars 1949 um að Ísland skyldi ger­ast stofnaðili Atlants­hafs­banda­lags­ins. Þáver­andi for­sæt­is­ráðherra, Bjarni Bene­dikts­son, und­ir­ritaði síðan stofn­sátt­mála þess í Washingt­on DC fimm dög­um síðar, hinn 4. apríl, ásamt 11 öðrum þjóðarleiðtog­um.

75 ára far­sælt varn­ar­banda­lag

Ákvörðunin var um­deild á sín­um tíma og þótti sum­um ekki sjálfsagt á upp­hafs­ár­um kalda stríðsins að Ísland tæki jafn­skýra af­stöðu til þess að skipa sér í sveit annarra vest­rænna lýðræðis­ríkja með þeim skuld­bind­ing­um sem því fylgja. Það var hins veg­ar hár­rétt ákvörðun fyr­ir herlausa þjóð að mynda banda­lag með ríkj­um sem voru til­bú­in að verja Ísland ef aft­ur kæmi til átaka, og að sama skapi tryggja banda­lagsþjóðum aðstöðu á hernaðarlega mik­il­vægri legu Íslands í Norður-Atlants­haf­inu. Fimmta grein stofn­sátt­mála Atlants­hafs­banda­lags­ins um að árás á eitt aðild­ar­ríki sé árás á þau öll fel­ur í sér afar mik­il­væga vörn og fæl­ing­ar­mátt. Til allr­ar ham­ingju hafa ekki orðið átök né stríð gegn aðild­ar­ríkj­um Atlants­hafs­banda­lags­ins í 75 ár af því tagi sem ein­kenndu fyrri hluta tutt­ug­ustu ald­ar og er ég ekki í nokkr­um vafa um að sam­vinna þess­ara ríkja hafi stuðlað að friði og vel­sæld í Evr­ópu. Aðild­ar­ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins eru orðin 32 og rík­ur vilji er hjá fleiri ríkj­um til aðild­ar.

Skelfi­legt árás­ar­stríð í Evr­ópu og stækk­un Atlants­hafs­banda­lags­ins

Hræðilegt stríð geis­ar í Úkraínu og verður vá­legra með degi hverj­um. Tugþúsund­ir hafa fallið og millj­ón­ir eru á flótta um alla Evr­ópu. Hjörtu manna um alla ver­öld haga sér eins í gleði og sorg og er eng­um blöðum um það að fletta að harm­ur úkraínsku þjóðar­inn­ar er mik­ill. Ísland hef­ur tekið á móti yfir fjög­ur þúsund ein­stak­ling­um frá Úkraínu og er það vel. Þetta stríð er áminn­ing um mik­il­væg þess að standa vörð um gildi lýðræðis­ins, sem eru því miður ekki sjálf­sögð víða um heim. Ég hef þá trú að því fleiri ríki sem aðhyll­ist frelsi og lýðræði, því betra fyr­ir frið um all­an heim. Ófriður og stríð bitna ætíð verst á sak­laus­um borg­ur­um og svipta ungt fólk æsku sinni og sól­ar­sýn. Meg­inþung­inn þarf að vera á að koma á sann­gjörn­um friði sem fyrst og koma í veg fyr­ir stig­mögn­un átaka. Í raun og sann hef­ur Rúss­land það í hendi sér. Rúss­land hóf þetta stríð og get­ur lokið því hvenær sem er með því að hætta árás­um og draga herlið sitt til baka en því miður er fátt sem bend­ir til þess að sú leið verði val­in á þess­ari stundu. Atlants­hafs­banda­lagið hef­ur stutt við Úkraínu í átök­un­um við Rúss­land. Stjórn­völd í Úkraínu hafa ít­rekað lýst yfir áhuga á að verða aðild­ar­ríki banda­lags­ins. Það er afar skilj­an­legt og er nauðsyn­legt að vinna að út­færslu á því. Aðild­ar­ríkj­um Atlants­hafs­banda­lags­ins hef­ur fjölgað á und­an­förn­um ára­tug­um í kjöl­far falls hins ill­ræmda járntjalds. Nú síðast bætt­ust við Finn­land og Svíþjóð í kjöl­far árás­ar Rúss­lands á Úkraínu, aðild þess­ara ríkja er sögu­leg og þótti nán­ast óhugs­andi fyr­ir nokkr­um árum. Raun­sætt end­ur­mat á stöðu ör­ygg­is­mála í Evr­ópu varð til þess að rík­in tvö ákváðu að sækja um um aðild og ganga í banda­lagið með sterk­um póli­tísk­um stuðningi inn­an­lands ásamt því að al­menn­ing­ur í báðum lönd­um fylkti sér á bak við ákvörðun­ina. Á sín­um tíma þótti aðild Nor­egs að banda­lag­inu vera lang­sótt af því að landa­mæri rík­is­ins væru við Rúss­land. Hins veg­ar var það svo að Norðmenn töldu afar vara­samt að hverfa aft­ur til hlut­leys­is­stefnu í ut­an­rík­is­mál­um eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina.

Ísland þarf að stíga öld­una

„Hver sá sem ræður yfir Íslandi hef­ur ör­lög Eng­lands, Kan­ada og Banda­ríkj­anna í hendi sér“! Þannig ritaði þýski land­herfræðing­ur­inn Karl Haus­hofer og Winst­on Churchill vitnaði oft í þessi orð til að sann­færa Banda­rík­in um mik­il­vægi þess að taka yfir varn­ir Íslands í seinni heims­styrj­öld­inni. Churchill var sann­færður um að til að tryggja sig­ur banda­manna þyrftu Banda­rík­in að taka þátt og fyrsta skrefið þyrfti að vera að sjá til þess að sjó­leiðin yfir Atlants­hafið væri ör­ugg. Banda­rík­in taka yfir varn­ir Íslands í júlí 1941, áður en form­leg þátt­taka þeirra í seinni heims­styrj­öld­inni varð að veru­leika. Í fram­hald­inu hefst far­sælt sam­starf Banda­ríkj­anna og Íslands sem leiðir svo af sér tví­hliða varn­ar­samn­ing sem und­ir­ritaður var árið 1951 og var sam­komu­lag um fram­kvæmd hans síðast upp­fært 2016. Varn­ar­sam­starfið við Banda­rík­in er lyk­il­stoð í vörn­um Íslands ásamt aðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu. Ljóst er í mín­um huga að brýnt er að Ísland sinni þessu sam­starfi af alúð og virðingu. Íslend­ing­ar eru friðsöm þjóð og tala alltaf fyr­ir slíku enda er friður for­senda fram­fara. Að mínu mati er mik­il­vægt að styrkja stoðir okk­ar á vett­vangi Atlants­hafs­banda­lags­ins og móta löngu tíma­bæra varn­ar­mála­stefnu fyr­ir Ísland.

Framtíð Atlants­hafs- banda­lags­ins

Á sama tíma og veiga­mik­ill leiðtoga­fund­ur Atlants­hafs­banda­lags­ins fór fram í höfuðborg Banda­ríkj­anna í vik­unni, var loftið lævi blandið þar sem Rúss­ar hafa staðið fyr­ir mann­skæðum árás­um á Kænug­arð, meðal ann­ars á barna­spítala. Ein af meg­inniður­stöðum fund­ar­ins var að auka stuðning við úkraínsk stjórn­völd og halda bar­átt­unni áfram en ákveðin óvissa er þó uppi vegna banda­rísku for­seta­kosn­ing­anna í haust. Don­ald Trump, f.v. for­seti og fram­bjóðandi, leiðir í flest­um skoðana­könn­un­um og hef­ur hann ít­rekað að Evr­ópu­ríki verði að taka meiri ábyrgð á eig­in vörn­um og ekki gefið skýr skila­boð um áfram­hald­andi stuðning Banda­ríkj­anna við Úkraínu. Lík­legt er að ein­angr­un­ar­sinn­um muni vaxa ásmeg­in, ef Trump sigr­ar í nóv­em­ber. Staðan var ekki ósvipuð hjá fyrr­um for­seta Banda­ríkj­anna, Frank­lin D. Roosevelt, í seinni heims­styrj­öld­inni en þá var lít­ill stuðning­ur við þátt­töku Banda­ríkj­anna í því stríði fram að árás Jap­ana á Pe­arl Har­bor. Þátt­taka Banda­ríkj­anna í seinni heims­styrj­öld­inni skipti sköp­um um að lýðræðis­ríki sigruðu hin fasísku and­lýðræðis­legu öfl sem aft­ur lagði grunn­inn að þeim opnu þjóðfé­lög­um á Vest­ur­lönd­um sem við þekkj­um í dag. Afar brýnt er að framtíð Atlants­hafs­banda­lags­ins sé tryggð til framtíðar enda hef­ur þetta varn­ar­sam­starf sýnt fram á mik­inn ávinn­ing fyr­ir aðild­ar­rík­in. Ísland hef­ur aukið fram­lag sitt á síðustu árum og er það mik­il­vægt fyr­ir ör­yggi og varn­ir lands­ins. Hér þarf þó að gera bet­ur eins og ís­lensk stjórn­völd hafa skuld­bundið sig til, nú síðast á ný­af­stöðnum leiðtoga­fundi í Washingt­on.

Öll þessi upp­rifj­un á sög­unni á þess­um tíma­mót­um er ekki að ástæðulausu held­ur er hún áminn­ing um mik­il­vægi þess að Ísland haldi áfram að skipa sér í sveit með lýðræðis­ríkj­um á vett­vangi Atlants­hafs­banda­lags­ins. Á þess­um tíma­mót­um er viðeig­andi að rifja upp forna speki Há­va­mála:

Vin sín­um
skal maður vin­ur vera,
þeim og þess vin.
En óvin­ar síns
skyldi engi maður
vin­ar vin­ur vera.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. júlí 2024.