Ólympíuleikarnir í París standa sem hæst um þessar mundir. Við erum stolt af okkar íslensku þátttakendum, sem hafa staðið sig afar vel og náð takmarki sínu sem íþróttafólk. Tvennt er mér sérstaklega hugleikið í tengslum við leikana: annars vegar frammistaða og viðtal við sundkappann Anton Svein Mckee, og hins vegar bandaríska fimleikakonan Simone Biles.
Anton Sveinn McKee komst áfram í undanúrslit í 200 metra bringusundi og synti á 2:10,36 sem var níundi besti tíminn í undanrásunum. Hann náði hins vegar ekki að komast í úrslit og hafnaði í 15. sæti. Þetta er einkar góður árangur hjá íþróttamanninum sem hefur æft þrotlaust síðustu ár. Viðtalið sem var tekið við hann hjá RÚV fangaði athygli mína, og sérstaklega þá skilaboðin hans til allra sem vilja láta drauma sína rætast. Anton talaði um mikilvægi þess að gefast aldrei upp, sama hversu erfiðar aðstæður geta verið. Hann minnti á að árangur næst ekki á einni nóttu, heldur þarf feikilega vinnu og hugrekki til að stíga út fyrir þægindarammann. Samhliða því ræddi hann um vegferðina á Ólympíuleikana og það þroskaferli. Skilaboð Antons voru að lífsins vegur snýst ekki endilega að ná settum markmiðum, heldur fremur að gera ávallt sitt besta.
Ég hef fylgst afar vel með fimleikum frá unga aldri. Ég æfði sjálf fimleika og fylgdist náið með Nadiu Comăneci í Moskvu 1980 og svo Mary Lou Retton í Los Angeles 1984. Báðar voru stórkostlegar í fimleikum og afar gaman að fylgjast með þeim. Simone Biles er í dag fremsta fimleikakona veraldar og það hafa verið algjör forréttindi að fylgjast með henni þessa Ólympíuleika og hversu sterk hún hefur komið til baka eftir áfallið í Tókýó. Heimildaþátturinn á streymisveitunni Netflix um hana er líka einkar áhugaverður, en þar er farið yfir æviskeið hennar og hvernig hún fjallar um þau áföll sem hún hefur upplifað. Markverðast er þó hversu opinskátt hún ræðir þessi mál og hvernig hún hefur sigrast á hverri áskorun og endað sem eitt stærsta nafn fimleikasögunnar.
Það sem gerir Simone Biles enn sérstæðari er hæfnin hennar til að vera opin um andlegu heilsuna sína. Í Tókýó 2020 tók hún þá erfiðu ákvörðun að draga sig úr keppni til að gæta eigin heilsu, sem vakti mikla athygli og umræður um mikilvægi andlegs heilbrigðis í íþróttum. Hún hefur síðan þá orðið tákn fyrir mikilvægi þess að setja andlega heilsu í forgang, jafnvel þegar undir er mikill þrýstingur að utan.
Þetta íþróttafólk á það sameiginlegt að vera einlægt, einbeitt og vinnusamt. Eiginleikar sem búa til traustan jarðveg fyrir að ná árangri. Lokaorðin frá Antoni Sveini, þegar hann hvetur okkur öll til að elta drauma okkar með því að: „Stökkvum í djúpu laugina. Áfram Ísland!“
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2024.