Við í Framsókn höfum lagt áherslu á að vernda hag eldri borgara og síðustu ár hafa mikilvæg skref verið tekin í átt að því að bæta kjör þeirra. Eitt af þessum skrefum er tillaga í fjárlögum sem nú eru til umræðu í þinginu. Hækkun á almenna frítekjumarkinu fyrir eldri borgara er mikilvægt skref til að stuðla að betri lífskjörum fyrir þennan hóp. Á sama tíma og þetta skref er tekið er brýnt að greina sérstaklega þá einstaklinga innan hópsins sem eiga í mestum efnahagslegum erfiðleikum og beina aðstoð til þeirra með markvissari hætti.
Almenna frítekjumarkið nær til allra eldri borgara og er það hlutfall tekna sem eldri borgarar geta haft án þess að þær hafi áhrif á greiðslur þeirra frá Tryggingastofnun eða öðrum almannatryggingum. Nú liggur fyrir tillaga í fjárlögum að hækka frítekjumarkið, úr 25.000 kr. í 36.500 kr. á mánuði. Hækkun frítekjumarksins þýðir að fleiri eldri borgarar geti haft auknar tekjur án þess að þær skerði réttindi þeirra til lífeyrisgreiðslna. Slíkar breytingar stuðla að meira fjárhagslegu öryggi og bættri afkomu þeirra eldri borgara sem eru virkir á vinnumarkaði eða hafa aðrar tekjulindir. Hækkun frítekjumarksins hefur því bein áhrif á lífsgæði eldri borgara og gerir þeim kleift að lifa með meiri reisn. Fyrir marga er þetta mikilvægt, sérstaklega þegar horft er til hækkandi verðlags, aukins húsnæðiskostnaðar og kostnaðar við heilbrigðisþjónustu. Þessi hækkun er tímabært skref en einnig er mikilvægt að hafa í huga þörfina á að halda áfram hækkun frítekjumarksins í þrepum á næstu árum.
Mikilvægi markvissrar aðstoðar
Þrátt fyrir þessi mikilvægu skref í að bæta lífskjör eldri borgara er staðreyndin sú að efnahagsstaða þeirra er mjög mismunandi. Fjárhagsleg staða eldri borgara er almennt sterk þar sem sumir eiga töluverð eignasöfn eða hafa áunnið sér eftirlaun úr lífeyrissjóðum, en aðrir búa hins vegar við fjárhagslegan skort. Einstaklingar sem hafa litla sem enga inneign í lífeyrissjóðum, búa við hátt leiguverð og/eða eiga ekki íbúðarhúsnæði eða hafa verið utan vinnumarkaðar stóran hluta ævi sinnar, t.d. vegna heimilisstarfa eða veikinda, geta upplifað fjárhagslega veika stöðu. Því er mikilvægt að greina þennan hóp sérstaklega svo stuðningurinn rati í réttan farveg. Eins mun verða nauðsynlegt að skoða það bil sem orðið hefur á milli lægstu launa og ellilífeyris. Þennan mun verður að minnka í áföngum yfir næstu ár.
Samfélagsleg ábyrgð
Samfélagið ber ríka ábyrgð á að tryggja að allir eldri borgarar fái tækifæri til að lifa með reisn og öryggi á efri árum. Hækkun frítekjumarksins er mikilvægt skref í þessa átt, en það er jafnframt brýnt að við gleymum ekki þeim sem búa við mestan fjárhagslegan skort eins og áður sagði. Með markvissri aðstoð og skýrari greiningu á þörfum þessa hóps getum við byggt upp réttlátara samfélag þar sem allir eldri borgarar fá sömu tækifæri til að njóta ævikvöldsins. Það er ekki nóg að horfa á meðaltölin eða almennar breytingar; við verðum að skilja að það eru hópar sem þurfa á sértækum aðgerðum að halda. Með því að sameina hækkun frítekjumarks við markvissar aðgerðir fyrir þá sem hafa það verst getum við tryggt betri lífskjör fyrir alla eldri borgara.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. september 2024.