Categories
Fréttir Greinar

Neytendamál í öndvegi

Deila grein

21/09/2024

Neytendamál í öndvegi

Í vik­unni mælti ég á Alþingi fyr­ir þings­álykt­un um stefnu í neyt­enda­mál­um til árs­ins 2030. Mik­il vinna hef­ur átt sér stað inn­an menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins á und­an­förn­um árum til þess að und­ir­byggja raun­veru­leg­ar aðgerðir í þágu neyt­enda. Aðdrag­anda þings­álykt­un­ar­til­lög­unn­ar má meðal ann­ars rekja til þess að í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar er lögð al­menn áhersla á efl­ingu neyt­enda­vernd­ar og að tryggja stöðu neyt­enda bet­ur, meðal ann­ars í nýju um­hverfi netviðskipta.

Það skipt­ir raun­veru­legu máli að huga vel að neyt­enda­mál­um, enda hafa þau víðtæka skír­skot­un til sam­fé­lags­ins og at­vinnu­lífs­ins og mik­il­vægt er að til staðar sé skýr stefnu­mót­un á því mál­efna­sviði, ásamt aðgerðaáætl­un til næstu ára. Þegar hef­ur verið unnið að ýms­um breyt­ing­um á sviði neyt­enda­mála með það að mark­miði að bæta lög­gjöf á því sviði, auka neyt­enda­vit­und og styrkja þannig stöðu neyt­enda.

Lög­gjöf á sviði neyt­enda­mála hef­ur að stærst­um hluta það mark­mið að leiðrétta aðstöðumun sem er milli fyr­ir­tækja og al­menn­ings, þ.e. neyt­enda, bæði al­mennt og vegna ein­stakra viðskipta. Í því felst m.a. að vernda neyt­end­ur gegn órétt­mæt­um viðskipta­hátt­um fyr­ir­tækja, upp­lýsa neyt­end­ur og veita þeim skil­virk úrræði til að leita rétt­ar síns.

Í þings­álykt­un­ar­til­lög­unni er einnig að finna aðgerðaáætl­un þar sem koma fram níu skil­greind­ar aðgerðir, með ábyrgðaraðilum og sam­starfsaðilum. Aðgerðirn­ar snúa meðal ann­ars að auk­inni neyt­enda­vernd á sviði fjár­málaþjón­ustu og áherslu á fjár­mála­læsi, neyt­enda­vernd viðkvæmra hópa, áherslu á ís­lensku við markaðssetn­ingu vöru og þjón­ustu, aukna neyt­enda­vernd við fast­eigna­kaup, áherslu á netviðskipti og staf­væðingu á sviði neyt­enda­mála sem og rann­sókn­ir, upp­lýs­inga­gjöf og fræðslu til að auka neyt­enda­vit­und.

Til viðbót­ar of­an­greind­um aðgerðum hef­ur menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið lagt sér­staka áherslu á að fylgj­ast náið með arðsemi og gjald­töku viðskipta­bank­anna til að veita þeim aðhald í þágu neyt­enda. Haustið 2023 var um­fangs­mik­il skýrsla þess efn­is birt og er von á þeirri næstu síðar í haust. Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar þessi miss­er­in er að ná niður verðbólgu og þar með vöxt­um í land­inu, enda er það stærsta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja. Í því verk­efni verða all­ir að taka þátt og vera á vakt­inni. Menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið tek­ur hlut­verk sitt í því verk­efni al­var­lega og hef­ur þess vegna sett neyt­enda­mál í önd­vegi í þágu sam­fé­lags­ins alls.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. september 2024.