Categories
Fréttir Greinar

Okkar Mona Lisa

Deila grein

16/11/2024

Okkar Mona Lisa

Á mánu­dag­inn voru fyrstu hand­rit­in flutt úr Árnag­arði, sem verið hef­ur heim­ili þeirra síðan 1971, í Eddu þar sem þeirra bíður var­an­legt heim­ili. Meðal hand­rita sem flutt voru í Eddu var Kon­ungs­bók eddu­kvæða, stærsta fram­lag Íslands til heims­menn­ing­ar­inn­ar. Hún hef­ur að geyma elsta og merk­asta safn eddu­kvæða skrifað á síðari hluta 13. ald­ar af óþekkt­um skrif­ara. Eddu­kvæði geyma sög­ur af heiðnum goðum, Völu­spá sem geym­ir heims­sögu ása­trú­ar og Há­va­mál sem miðla lífs­speki Óðins.

Til­hugs­un­in um það ef þessi merka bók hefði glat­ast er skrít­in. Eng­inn Óðinn, Þór eða Loki, eng­in Frigg eða Freyja, eng­in Há­va­mál. Chris Hemsworth hefði aldrei klæðst bún­ingi Þórs þar sem eng­ar Mar­vel-mynd­ir um nor­ræna goðafræði hefðu verið gerðar. Þetta er menn­ing sem all­ur heim­ur­inn þekk­ir – menn­ing okk­ar og hluti af sjálfs­mynd okk­ar, sem hef­ur varðveist í hand­rit­un­um í gegn­um ald­irn­ar. Meðal annarra hand­rita sem flutt voru í Eddu eru Flat­eyj­ar­bók, Möðru­valla­bók og hand­rit að Mar­grét­ar­sögu sem ljós­mæður fyrri tíma höfðu í fór­um sín­um til að lina þraut­ir sæng­ur­kvenna. Hand­rit­in varpa ljósi á þann sköp­un­ar­kraft sem hef­ur alltaf ríkt á okk­ar góða landi, en Ísland sker sig úr á Norður­lönd­um þegar kem­ur að bók­mennta­arfi. Árið 2009 voru hand­rit­in okk­ar til að mynda sett á sér­staka varðveislu­skrá UNESCO. Til­gang­ur varðveislu­list­ans er að vekja at­hygli á mik­il­vægi þess að varðveita and­leg­an menn­ing­ar­arf ver­ald­ar með því að út­nefna ein­stök söfn með sér­stakt varðveislu­gildi.

Hand­rit­in varðveita einnig grunn­inn í tungu­máli okk­ar sem hef­ur þró­ast hér á landi í um 1.150 ár. Á und­an­förn­um árum hef ég lagt allt kapp á að setja ís­lensk­una í önd­vegi and­spæn­is áskor­un­um sam­tím­ans sem snúa að tungu­mál­inu. Fjöl­margt hef­ur verið gert til þess að styrkja stöðu henn­ar, allt frá því að herja á Disney+ um að bjóða upp á tal­sett barna­efni á ís­lensku til að gera ís­lensk­una gjald­genga í hinum sta­f­ræna heimi, en nú er svo komið að snjall­tæki og for­rit geta skilið, skrifað og talað hágæðaís­lensku eft­ir sam­starf við alþjóðleg tæknifyr­ir­tæki á borð við OpenAI og Microsoft. Það eitt og sér eru þýðing­ar­mestu vatna­skil fyr­ir ís­lensk­una til framtíðar, og er svo komið að Ísland er orðið fyr­ir­mynd annarra fá­mennra málsvæða í heim­in­um. Ég fyll­ist miklu stolti yfir þess­um ár­angri sem náðst hef­ur á und­an­förn­um sjö árum.

Klukk­an 14 í Eddu í dag verður tungu­mál­inu okk­ar og hand­rit­un­um lyft upp þegar sýn­ing­in Heim­ur í orðum verður opnuð. Með henni verður þessi merki­legi menn­ing­ar­arf­ur okk­ar loks­ins aðgengi­leg­ur þjóð sinni. Einnig verða verðlaun Jónas­ar Hall­gríms­son­ar veitt í Eddu klukk­an 16 við hátíðlega at­höfn auk þess sem veitt verður sér­stök viður­kenn­ing fyr­ir stuðning við ís­lenska tungu. Ég hvet fólk til að fjöl­menna í Eddu í dag, enda er um að ræða okk­ar Monu Lisu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. nóvember 2024.