Samtalið við kjósendur er það skemmtilegasta við stjórnmálin. Komandi kosningar skipta miklu máli fyrir næstu fjögur ár. Kannanir helgarinnar sýna að Framsókn á á brattann að sækja. Við frambjóðendur flokksins finnum hins vegar fyrir mjög hlýjum straumum og trúum því að okkar fjölmörgu verk í þágu samfélagsins nái í gegn fyrir kosningarnar hinn 30. nóvember.
Við finnum að fólk kann einmitt að meta að Framsókn hafi frekar einbeitt sér að því að klára verkefnin í stað þess að taka þátt í reglulegum deilum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Því fylgir ábyrgð að stjórna landi.
Við heyrum líka að mörgum hrýs hugur við að upp úr kjörkössunum komi hrein hægristjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Miðflokks með tilheyrandi sveltistefnu, niðurskurði og vanhugsaðri einkavæðingu ríkiseigna.
Nú eða hrein ESB-stjórn Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar, sem mun hækka skatta og leggja gjörvallt stjórnkerfið undir aðlögunarferli að Evrópusambandinu næstu árin með tilheyrandi átökum í þjóðfélaginu.
Aðild að ESB mun leiða af sér minni hagvöxt og framsal á fullveldi Íslands, þar með talið í auðlindamálum. Það eru staðreyndir.
Við þurfum ekki fleira til þess að ala á ósætti og óvissu í samfélaginu. Eini valkosturinn til þess að koma í veg fyrir fyrrnefnd stjórnarmynstur er að kjósa Framsókn, flokkinn á miðjunni, sem hefur einn stjórnmálaflokka fylgt þjóðinni samfellt í meira en heila öld. Það er engin miðja án Framsóknar, og engin framsókn án miðju.
Mikilvægasta verkefnið fram undan er áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu.
Því er ekki að neita að verðbólga í kjölfar fordæmalauss heimsfaraldurs og stríðsins í Evrópu hefur tekið á. Þá missti 1% þjóðarinnar húsnæði sitt vegna jarðhræringanna í Grindavík. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun að gera meira en minna til þess að styðja við samfélagið í kjölfar heimsfaraldursins, þegar 20.000 störf hurfu og margs konar starfsemi lagðist í dvala. Það kostaði, en skilaði sér í samfélagi sem lenti á báðum fótum.
Það er hins vegar ánægjulegt að markvissar og samþættar aðgerðir opinberra aðila og aðila vinnumarkaðarins séu farnar að skila sér í lækkun stýrivaxta, sem hafa lækkað um 75 punkta síðan í október. Árangur í þessa veru gerist ekki af sjálfu sér og verður ekki til í tómarúmi kosningaloforða. Þetta er staðfesting á að stefna okkar virkar sem miðar að því að ná niður vöxtum og verðbólgu. Við erum með ábyrga efnahagsstefnu og með nægjanlegt aðhald og skýra forgangsröðun í ríkisfjármálum. Við í Framsókn viljum halda áfram á þeirri braut og óskum eftir stuðningi í þau verk.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2024.