Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta þakin mjöll
og brim við björg og sand.
Þó mái tíminn margra spor
þá man og elskar kynslóð vor
sitt fagra föðurland.
Á þessum kröftugu línum hefst ljóð Davíðs Stefánssonar sem flestir ef ekki allir karlakórar landsins hafa einhvern tímann haft á efnisskrám sínum undir lagi Páls Ísólfssonar. Við búum við það, Íslendingar, að náttúran er lifandi og oft á tíðum grimm. Hún er á sama tíma ástæðan fyrir velsæld okkar, ástæðan fyrir því gríðarlega stökki sem íslenskt samfélag tók á síðustu öld inn í nútímann. Þær kynslóðir sem fæddar voru um og eftir aldamótin 1900 voru framsýnar, þær voru duglegar og við eigum þeim mikið að þakka. Og við höfum lært mikið af þeim, ekki síst það að það er eitt að vera framsýnn og annað að hafa kraft og þor til að framkvæma þær hugmyndir sem kvikna.
Ákalli um breytingar var svarað
Áramót eru mikilvæg tímamót því þau kalla á að við tökum okkur tíma og pláss til að horfa yfir sviðið, gera upp fortíðina og leggja drög og drauma að framtíðinni. Árið 2024 var mikið umbrotaár í íslensku samfélagi. Þjóðin kaus sér forseta í byrjun sumars og síðan brast á með þingkosningum í lok nóvember eftir að Sjálfstæðisflokkurinn sleit samstarfinu við okkur í Framsókn og Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Niðurstaða kosninganna var afgerandi: Ríkisstjórnarflokkunum var hafnað og þeir flokkar sem boðuðu breytingar unnu sigur og hafa nú náð saman um ríkisstjórn. Ég óska þeirri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum og heiti því að Framsókn mun stunda öfluga og málefnalega stjórnarandstöðu.
Öflug stjórn við erfiðar aðstæður
Ákallið um breytingar var sterkt í kosningabaráttunni. Trúin á þeirri ríkisstjórn sem hafði starfað frá haustinu 2017 hafði dofnað verulega enda má segja að síðasta árið hafi þjóðin búið við stjórnarkreppu. Þótt samstarfið hafi súrnað ansi hratt á síðara kjörtímabili ríkisstjórnarinnar tókum við í Framsókn þá afstöðu að mikilvægara væri að ganga hnarreist til verks og láta ekki sundurlyndi hafa eyðandi áhrif á þau brýnu verkefni sem flokkarnir þrír höfðu komið sér saman um í stjórnarsáttmála að hrinda í framkvæmd. Við ákváðum, eðlilega, að láta þjóðarhag hafa forgang umfram hagsmuni flokksins.
Breytingarnar á þingi eru verulegar en mikil nýliðun varð í kosningunum. Það var mikil reynsla sem bjó í síðustu ríkisstjórn þar sem formenn stjórnarflokkanna höfðu allir á einhverjum tíma setið í stóli forsætisráðherra. Sú reynsla kom sér vel í þeim stórkostlegu áskorunum sem ríkisstjórnin stóð frammi fyrir á þeim sjö árum sem hún var við völd. Flugfélagið Wow air féll með látum á fyrra kjörtímabilinu. Heimsfararaldur geisaði með lamandi áhrifum á samfélag og atvinnulíf. Rússar réðust inn í Úkraínu. Og rýma þurfti eitt öflugasta bæjarfélag landsins, Grindavík, vegna eldsumbrota. Svo eitthvað sé nefnt.
Síðustu ár hafa verið ár umbóta
Ég er stoltur af þeim árangri sem Framsókn náði í störfum sínum í ríkisstjórn frá árinu 2017 þegar þetta óvenjulega stjórnarmynstur varð til. Framlög til samgöngumála voru stóraukin, tímamótasamkomulag um uppbyggingu í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu náðist með samgöngusáttmálanum og undirbúningsvinnu á Sundabraut gekk vel, rannsóknarvinnu er nánast lokið og getur útboðsferill farið í gang þegar leiðarval liggur fyrir og breyting á aðalskipulagi hefur verið auglýst. Þá er Reykjanesbrautin að verða tvöföld allt að Fitjum í Reykjanesbæ, samvinnuverkefnið um Ölfusárbrú er komið af stað, með verkefninu Ísland ljóstengt, sem ég er einna stoltastur af á mínum ferli, hefur verið komið á ljósleiðaratengingu í öllum sveitum landsins, afsláttur fyrir íbúa landsbyggðarinnar með Loftbrú hefur fest sig í sessi og byggðamálin eru orðin mikilvægur þáttur í starfi Stjórnarráðsins, nokkuð sem ég hef alltaf lagt mikla áherslu á. Undir forystu Framsóknar í húsnæðismálum hefur tekist að byggja upp norrænt húsnæðiskerfi sem tryggir þúsundum fjölskyldna öruggt þak yfir höfuðið. Nú ríkir mun betra jafnvægi á húsnæðismarkaði en áður og auk þess lagði ríkið til í haust land undir byggingu 800 íbúða í Reykjanesbæ. Stórsókn í heilbrigðismálum hefur átt sér stað síðustu árin undir stjórn Willums Þórs sem hefur ekki síst komið fram í jöfnun aðgengis að kerfinu með samningum við allar heilbrigðisstéttir sem ósamið hafði verið við um áraraðir, auknu fjármagni til málaflokksins og bættum rekstrarskilyrðum Landspítalans. Markviss vinna Lilju Daggar í menningar- og viðskiptaráðuneytinu í málefnum ferðaþjónustunnar, aukinn stuðningur við menningu og listir og 35% endurgreiðslan hefur styrkt stoðir kvikmyndagerðar á Íslandi. Ásmundur Einar setti málefni barna á dagskrá, ekki síst með farsældarlögunum sem hafa þegar bætt aðstöðu þeirra barna sem veikust eru fyrir í íslensku samfélagi og ekki má heldur gleyma stuðningi hans við íþróttirnar með nýrri Þjóðarhöll og auknum stuðningi við yngri landslið okkar. Allt þetta og meira til er á afrekaskrá Framsóknar frá árinu 2017. Og á þessu geta ríkisstjórnir framtíðarinnar byggt til hagsbóta fyrir þjóðina.
Fleiri stoðir þýða aukið jafnvægi
Staða Íslands er góð, hagkerfið er því næst í jafnvægi með hátt atvinnustig, lítið atvinnuleysi og framtíðin er björt ef rétt er haldið á spöðunum. Fyrri ríkisstjórn náði stjórn á verðbólgunni sem fór á flug eftir heimsfaraldur og stríð í Úkraínu. Við sjáum fram á mjúka lendingu hagkerfisins, sjáum fram á lækkandi verðbólgu og lægri vexti. Aðhald í ríkisfjármálum er mikilvægur þáttur í þeim árangri sem fyrri ríkisstjórn náði í baráttunni við verðbólguna. Það sem var þó ekki síður mikilvægt var að með aðkomu hins opinbera náðust kjarasamningar til fjögurra ára á almennum markaði.
Gatan er því nokkuð greið fyrir allhraðar vaxtalækkanir á nýju ári.
Já, framtíðin er björt. Þeirri ríkisstjórn sem afhenti valkyrjunum lyklana að Stjórnarráðinu fyrir jól tókst að skapa þær aðstæður að nú eru fimm stoðir undir efnahag landsins. Hin nýja stoð hugvits og skapandi greina er ört vaxandi og veitir ekki aðeins auknar tekjur inn í þjóðarbúið heldur skapar ný og spennandi störf fyrir ungt fólk. Fleiri stoðir þýða aukið jafnvægi, nokkuð sem stefnt hefur verið að í langan tíma og er nú að nást.
Óvissutímar
Við lifum á tímum þar sem mikil óvissa ríkir á alþjóðasviðinu. Það geisar styrjöld í Evrópu. Fjölda fólks er fórnað á vígvellinum í Úkraínu. Það er nöturlegt að horfa upp á Rússa, sögulegt stórveldi sem nú stendur á brauðfótum og er stýrt af manni sem virðist svífast einskis til að halda stöðu sinni. Hryllingurinn á Gasa heldur áfram. Sýrland hefur losað sig við hinn hræðilega Assad en ástandið er viðkvæmt. Í janúar sest á ný í stól forseta Bandaríkjanna maður sem virðist horfa öðrum augum á hlutverk Bandaríkjanna í samfélagi þjóðanna en flestir sem í þeim stól hafa setið. Ef sumt af því sem hann hefur sagst hafa áform um nær fram að ganga getur það haft mikil áhrif á viðskipti í heiminum og þar með á lífskjör okkar hér á landi. Samband okkar við Bandaríkin hefur alltaf verið gott og mikilvægt er að hlúa að því sama hver situr þar í forsæti.
Kæri lesandi.
Eitt er það sem mikilvægast er fyrir íslenskt samfélag og það er að öðlast ró og hamingju. Árið 2024 einkenndist af óróa og ofbeldi, nokkuð sem við getum ekki þolað. Við þurfum að hlúa vel að fjölskyldum, þurfum að hlúa vel að börnunum okkar, fyrstu kynslóðinni sem elst upp við ótrúlegar breytingar sem tæknin hefur gert á samskiptum okkar og samfélagi. Besta leiðin til þess er að hver og einn horfi inn á við, veiti fólkinu sínu athygli og hlýju, leggi á sig það sem þarf til að skapa sterk tengsl við sína nánustu. Það kemur ekkert í staðinn fyrir það að eiga góða og sterka fjölskyldu sem hægt er að treysta á í lífsins ólgusjó.
Ég óska þér, lesandi góður, gleðilegs nýs árs. Megi Guð og gæfan fylgja þér árið 2025.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2024.