Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali um sex þúsund manns á Íslandi fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári. Þetta eru staðreyndir sem kalla á aðgerðir. Sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru viðkvæmir og sársaukafullir atburðir sem hafa djúpstæð áhrif á fjölskyldur, vini og samfélagið í heild.
Á síðasta ári lagði ég fram öðru sinni tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Þingheimur sameinaðist þá allur á bak við tillöguna, þvert á flokka, sem sýnir mikilvægi hennar sem og samstöðu okkar allra í því að vilja gera betur. Ég bind vonir við að slík samstaða verði einnig á nýju þingi þegar ég legg tillöguna fram að nýju.
Markmið þingsályktunartillögunnar er skýrt og byggist á metnaðarfullri vinnu starfshóps Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna á vegum Embættis landlæknis: að greina ástæður og aðdraganda þessara hörmulegu atburða, tryggja að nauðsynleg gögn séu rannsökuð og nýtt á markvissan hátt og, umfram allt, stuðla að því að bjarga mannslífum. Í dag er mikill skortur á áreiðanlegum gögnum um þessi mál sem hægt er að byggja á í forvörnum og aðgerðaáætlunum en það er á ábyrgð okkar, sem samfélags, að breyta því.
Starfshópur Lífsbrúar – mikilvægt framlag
Starfshópur Lífsbrúar hefur þegar hafið vinnu við að safna gögnum sem spanna allt að 10 ára heilsufarssögu látinna einstaklinga, með það að markmiði að greina helstu áhættuþætti. Meðal annars er skoðað hvernig félagslegir þættir, lífsatburðir eins og sambandsslit, atvinnumissir eða áföll, og jafnvel lyfjaávísanir og sjúkdómsgreiningar, hafa áhrif á andlega heilsu einstaklings.
Slík yfirgripsmikil gagnaöflun er forsenda þess að við getum greint áhættuhópa, komið í veg fyrir sjálfsvíg og dauðsföll vegna óhappaeitrana og veitt þeim sem eru í hættu viðeigandi stuðning. Niðurstöður hópsins munu skapa grunn að öflugum forvörnum og mótun stefnumótandi aðgerða til framtíðar. Við verðum að horfa á málið með opnum hug og viðurkenna að sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru oft niðurstaða margra flókinna þátta sem þarf að greina og skilja til hlítar. Með betri skilningi á orsakaferlum og helstu áhrifaþáttum er hægt að styðja betur við þá sem eiga við andlega erfiðleika að stríða, og gera viðeigandi ráðstafanir áður en hættan á sjálfsskaða eykst. Þetta er ein af þeim leiðum sem hægt er að fara til að tryggja að einstaklingar í áhættuhópum fái þá aðstoð sem þeir þurfa til að ná jafnvægi í lífi sínu og komast í gegnum erfiðleikatímabil.
Því var ánægjulegt að sjá starfshóp sem skipaður var af fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni, skila tillögu sinni í janúar að nýrri aðgerðaáætlun sem snýr að fækkun sjálfsvíga á Íslandi.
Það er mín trú að með markvissum aðgerðum og gagnreyndu starfi getum við dregið úr sjálfsvígum og dauðsföllum vegna óhappaeitrana.
Fyrirbyggjandi aðgerðir – brýn nauðsyn
Tölur um andlát vegna óhappaeitrana eru áhyggjuefni. Fjöldi þeirra hefur aukist verulega á undanförnum áratugum, sérstaklega vegna lyfja á borð við ópíóíða og ofskynjunarlyf. Aðgengi að þessum efnum þarf að endurskoða, og mikilvægt er að styrkja forvarnir sem geta bjargað mannslífum.
Við vitum að sjálfsvíg og dauðsföll vegna óhappaeitrana eiga sér flókinn aðdraganda. Meðal annars getur verið um að ræða samspil félagslegra, andlegra og líkamlegra þátta. Með betri greiningu á þessum þáttum og gagnreyndri vinnu getum við styrkt stuðninginn við þá sem þurfa mest á honum að halda.
Verum vakandi fyrir nýjum leiðum
Við stöndum á tímamótum þar sem við höfum tækifæri til að skapa raunverulegar breytingar. Það er ljóst að við höfum öfluga aðila í samfélaginu okkar sem vinna dag hvern að því að bæta líðan fólks og grípa inn í þar sem þörfin er mest. Við höfum marga sem starfa af heilum hug að geðheilbrigðismálum, sjálfsvígsforvörnum og stuðningi við aðstandendur. Það er nauðsynlegt að þessi vinna verði áfram efld og að við höldum áfram að vera vakandi fyrir leiðum til að bæta geðheilbrigði og lýðheilsu í samfélaginu. Það er á okkar ábyrgð, sem þjóðar, að bregðast við.
Ég vona að sú vinna sem starfshópur Lífsbrúar vinnur skili þeim árangri sem við viljum öll sjá – að draga úr sjálfsvígum og dauðsföllum vegna óhappaeitrana með greinargóðri rannsókn og nýtingu afurðar hennar við að mynda árangursríkar aðgerðir. Með áframhaldandi stuðningi getum við stigið mikilvægt skref í átt að betra samfélagi, þar sem andleg vellíðan er ekki aðeins réttur heldur raunverulegur möguleiki fyrir alla.
Ég hvet alla sem glíma við andlega vanlíðan til að leita sér hjálpar. Við eigum að vera til staðar hvert fyrir annað, veita stuðning og hlúa að þeim sem þurfa mest á okkur að halda. Andleg líðan á aldrei að vera feimnismál – hún er grundvöllur hamingju og lífsgæða okkar allra.
Ég vil einnig nýta tækifærið og þakka Guðrúnu Jónu hjá embætti landlæknis og Högna Óskarssyni geðlækni fyrir aðstoðina við þetta mikilvæga mál.
Við skulum vinna saman að því að búa til betra og öruggara samfélag fyrir alla.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður og þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. febrúar 2025.