Categories
Fréttir Greinar

Fimm Grammy-verðlaun á fimm árum

Deila grein

06/02/2025

Fimm Grammy-verðlaun á fimm árum

Íslensku menn­ing­ar­lífi hlotnaðist enn einn heiður­inn á alþjóðavísu í vik­unni þegar Vík­ing­ur Heiðar Ólafs­son pí­anó­leik­ari vann hin virtu Grammy-tón­list­ar­verðlaun í flokki klass­ískra ein­leiks­hljóðfæra­leik­ara fyr­ir flutn­ing sinn á Gold­berg-til­brigðum Johanns Sebastians Bachs.

Það fylg­ir því mik­il upp­hefð að vera til­nefnd­ur til Grammy-tón­list­ar­verðlaun­anna en verðlaun­in eru af mörg­um tal­in þau eft­ir­sótt­ustu í tón­list­ar­heim­in­um. Árang­ur Íslend­inga á und­an­förn­um fimm árum er stór­kost­leg­ur, en með verðlaun­um Vík­ings Heiðars hafa ís­lensk­ir lista­menn hlotið yfir 11 Grammy-til­nefn­ing­ar, og unnið fimm sinn­um; Hild­ur Guðna­dótt­ir fyr­ir tónlist í þátt­un­um Cherno­byl og kvik­mynd­inni Jókern­um, Dísella Lár­us­dótt­ir fyr­ir bestu óperu­upp­tök­una í verk­inu Ak­hna­ten, Lauf­ey Lín Jóns­dótt­ir fyr­ir plötu sína Bewitched í flokki hefðbund­inn­ar popp­tón­list­ar og nú síðast Vík­ing­ur Heiðar. Í heild hafa átta Íslend­ing­ar unnið til níu verðlauna en þeir Stein­ar Hösk­ulds­son, Gunn­ar Guðbjörns­son, Sig­ur­björn Bern­h­arðsson og Krist­inn Sig­munds­son hafa einnig unnið til verðlaun­anna.

Allt eru þetta lista­menn sem hafa skarað fram úr á sínu sviði svo að um­heim­ur­inn hef­ur tekið eft­ir. Á und­an­förn­um árum var ég reglu­lega spurð að því af er­lendu fólki hvaða krafta­verk væru unn­in hjá okk­ar tæp­legu 400.000 manna þjóð í þess­um efn­um. Að mín­um dómi er þetta hins veg­ar eng­in til­vilj­un. Að baki þess­um glæsi­lega ár­angri ligg­ur þrot­laus vinna og metnaður tón­list­ar­mann­anna sjálfra ásamt því að hér á landi hef­ur ríkt ein­dreg­inn vilji til þess að styðja við menn­ingu og list­ir, til dæm­is með framúrsk­ar­andi tón­list­ar­kenn­ur­um sem leggja sig alla fram við að miðla þekk­ingu sinni og reynslu í kennslu­stof­um lands­ins, ásamt því að tryggja aðgang fólks að tón­list­ar­námi.

Sú alþjóðlega braut heims­frægðar sem Björk ruddi hef­ur breikkað mjög með vax­andi efniviði og ár­angri ís­lenskra tón­list­ar­manna. Þannig hafa til að mynda hljóm­sveit­ir eins og Of Mon­sters and Men, KAL­EO og all­ir Grammy-verðlauna­haf­arn­ir okk­ar tekið þátt í að auka þenn­an hróður lands­ins með sköp­un sinni og af­rek­um. Þessi ár­ang­ur er einnig áminn­ing um að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hef­ur verið af hálfu hins op­in­bera við að fjár­festa í menn­ingu og list­um á und­an­förn­um árum á grund­velli vandaðrar stefnu­mót­un­ar sem birt­ist okk­ur meðal ann­ars í tón­list­ar­stefnu til árs­ins 2030. Með henni hafa verið stig­in stór skref í að styrkja um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins í land­inu, til að mynda með fyrstu heild­ar­lög­un­um um tónlist, nýrri tón­list­armiðstöð og nýj­um og stærri tón­list­ar­sjóði. Ég er mjög stolt af þess­um skref­um sem munu skila sér í enn meiri stuðningi við tón­listar­fólkið okk­ar.

Ég vil óska Vík­ingi Heiðari og fjöl­skyldu hans inni­lega til ham­ingju með verðlaun­in. Þau eru hvatn­ing til yngri kyn­slóða og enn ein rós­in í hnappagat ís­lenskr­ar menn­ing­ar á alþjóðavísu. Fyr­ir það ber að þakka.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2025.