Íslensku menningarlífi hlotnaðist enn einn heiðurinn á alþjóðavísu í vikunni þegar Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari vann hin virtu Grammy-tónlistarverðlaun í flokki klassískra einleikshljóðfæraleikara fyrir flutning sinn á Goldberg-tilbrigðum Johanns Sebastians Bachs.
Það fylgir því mikil upphefð að vera tilnefndur til Grammy-tónlistarverðlaunanna en verðlaunin eru af mörgum talin þau eftirsóttustu í tónlistarheiminum. Árangur Íslendinga á undanförnum fimm árum er stórkostlegur, en með verðlaunum Víkings Heiðars hafa íslenskir listamenn hlotið yfir 11 Grammy-tilnefningar, og unnið fimm sinnum; Hildur Guðnadóttir fyrir tónlist í þáttunum Chernobyl og kvikmyndinni Jókernum, Dísella Lárusdóttir fyrir bestu óperuupptökuna í verkinu Akhnaten, Laufey Lín Jónsdóttir fyrir plötu sína Bewitched í flokki hefðbundinnar popptónlistar og nú síðast Víkingur Heiðar. Í heild hafa átta Íslendingar unnið til níu verðlauna en þeir Steinar Höskuldsson, Gunnar Guðbjörnsson, Sigurbjörn Bernharðsson og Kristinn Sigmundsson hafa einnig unnið til verðlaunanna.
Allt eru þetta listamenn sem hafa skarað fram úr á sínu sviði svo að umheimurinn hefur tekið eftir. Á undanförnum árum var ég reglulega spurð að því af erlendu fólki hvaða kraftaverk væru unnin hjá okkar tæplegu 400.000 manna þjóð í þessum efnum. Að mínum dómi er þetta hins vegar engin tilviljun. Að baki þessum glæsilega árangri liggur þrotlaus vinna og metnaður tónlistarmannanna sjálfra ásamt því að hér á landi hefur ríkt eindreginn vilji til þess að styðja við menningu og listir, til dæmis með framúrskarandi tónlistarkennurum sem leggja sig alla fram við að miðla þekkingu sinni og reynslu í kennslustofum landsins, ásamt því að tryggja aðgang fólks að tónlistarnámi.
Sú alþjóðlega braut heimsfrægðar sem Björk ruddi hefur breikkað mjög með vaxandi efniviði og árangri íslenskra tónlistarmanna. Þannig hafa til að mynda hljómsveitir eins og Of Monsters and Men, KALEO og allir Grammy-verðlaunahafarnir okkar tekið þátt í að auka þennan hróður landsins með sköpun sinni og afrekum. Þessi árangur er einnig áminning um að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið af hálfu hins opinbera við að fjárfesta í menningu og listum á undanförnum árum á grundvelli vandaðrar stefnumótunar sem birtist okkur meðal annars í tónlistarstefnu til ársins 2030. Með henni hafa verið stigin stór skref í að styrkja umgjörð tónlistarlífsins í landinu, til að mynda með fyrstu heildarlögunum um tónlist, nýrri tónlistarmiðstöð og nýjum og stærri tónlistarsjóði. Ég er mjög stolt af þessum skrefum sem munu skila sér í enn meiri stuðningi við tónlistarfólkið okkar.
Ég vil óska Víkingi Heiðari og fjölskyldu hans innilega til hamingju með verðlaunin. Þau eru hvatning til yngri kynslóða og enn ein rósin í hnappagat íslenskrar menningar á alþjóðavísu. Fyrir það ber að þakka.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2025.