Ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur nú birt þingmálaskrá sína, en skráin felur í sér yfirlit um þau mál sem ríkisstjórnin hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður dreift. Þingmálaskráin hefur vakið athygli, ekki síst vegna þess að stór hluti hennar byggir á málum sem þegar voru í undirbúningi hjá fyrri ríkisstjórn. Það vekur upp spurningar um hversu illa hafi í raun verið stjórnað áður, eins og gefið var í skyn af núverandi valdhöfum, í ljósi þess hve margt er nú tekið upp á ný af sömu aðilum og gagnrýndu fyrri stjórn harðlega. Vitanlega gefur þetta til kynna að fjölmörg mikilvæg og brýn mál hafi verið í farvegi og staða þjóðarbúsins hafi verið góð.
Hvar eru kosningaloforðin?
Við yfirlestur þingmálaskrárinnar sést að sum af þeim kosningaloforðum sem voru sett fram með miklum þunga fyrir kosningar eru hvergi sjáanleg. Það virðist nefnilega vera óskráð regla í íslenskum stjórnmálum að kosningaloforð breytast á einni nóttu (eftir kosningar) í einhvers konar stefnumarkmið sem ekki þarf að standa við. Það er áhyggjuefni að stjórnmálamenn skuli ekki axla meiri ábyrgð gagnvart kjósendum sínum og sýna að loforð verði efnd.
Ófyrirséð fjármálastaða – eða fyrir fram þekkt?
Í upphafi stjórnarmyndunarviðræðna var fullyrt að nýjar upplýsingar um fjárhagsstöðu ríkisins gerðu nýrri ríkisstjórn það ómögulegt að efna gefin loforð. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að allar upplýsingar um afkomu og efnahag hins opinbera lágu þegar fyrir við gerð fjárlaga fyrir árið 2025 og voru öllum flokkum vel kunnar í fjárlaganefnd. Þetta vekur spurningar um hvort stjórnarflokkarnir hafi gefið loforð án þess að ætla sér raunverulega að standa við þau, eða hvort þeir hafi einfaldlega hunsað fyrirliggjandi gögn.
Samgöngumál í uppnámi
Samgöngumál hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni, sérstaklega í Norðvesturkjördæmi. Það er jákvætt að framkvæmdir á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit eru tryggðar í fjárlögum fyrir 2025, en loforð um tvenn jarðgöng á hverjum tíma, sem innviðaráðherra gaf fyrir kosningar, sjást ekki í þingmálaskránni. Ný samgönguáætlun er ekki væntanleg fyrr en í haust, og ljóst er að forgangsröðun verður lykilatriði. Fólk í kjördæminu hefur væntingar um að loforðin verði efnd og að samgöngubætur verði að veruleika – ekki aðeins orð á blaði.
Á síðasta löggjafarþingi var því ítrekað haldið fram af núverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að nægt fjármagn væri til staðar til að hefja framkvæmdir. Þannig voru gefin loforð um Álftafjarðargöng, göng um Mikladal og Hálfdán (Suðurfjarðargöng), tvöföldun Hvalfjarðargangna og göng undir Klettsháls.
Nú virðist sem tónninn sé breyttur. Stjórnmál eiga þó að byggjast á ábyrgð, og stjórnmálamenn verða að standa við gefin fyrirheit.
Breytt afstaða til stjórnarskrár?
Eitt það furðulegasta í störfum hinnar nýju ríkisstjórnar er stefnubreyting sumra ráðherra varðandi stjórnarskrána. Ráðherra sem áður sagði að bókun 35 stæðist ekki stjórnarskrá styður nú ekki aðeins málið heldur er sjálfur í ríkisstjórn sem hyggst leggja það fram. Þetta vekur upp spurningar um hvort siðferði og prinsipp skipti í raun máli í stjórnmálum, eða hvort sjónarmið íslenskra flokka breytist einfaldlega eftir því hvort þeir séu í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Sameining sýslumannsembætta
Tillaga um að sameina sýslumannsembættin í eitt hefur einnig vakið mikla umræðu. Þetta myndi þýða að embættin, sem gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki hins opinbera í hverjum landshluta, yrðu sameinuð í eina miðlæga stofnun. Við í Framsókn teljum slíkt ekki til framfara, en styðjum þess í stað aukið samstarf embættanna, skilvirkari verkaskiptingu og betri samvinnu.
Ábyrgð og samvinna í stjórnmálum
Þrátt fyrir ofangreindar áhyggjur og sjónarmið vil ég leggja áherslu á að allir þingmenn, óháð flokksaðild, eiga það sameiginlegt að vilja vinna að hagsmunum þjóðarinnar. Þó að stefnur og áherslur séu mismunandi ætti markmiðið alltaf að vera að gera Ísland betra í dag en í gær. Ég hlakka til samstarfsins á þessu kjörtímabili og vona að stjórnmálamenn sýni bæði ábyrgð og staðfestu í ákvörðunum sínum.
Við eigum ávallt að stefna að því að gera betur. Það á að vera meginreglan í allri pólitík.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður og oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2025.