Categories
Fréttir Greinar

Pólitísk ábyrgð

Deila grein

19/02/2025

Pólitísk ábyrgð

Ný rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur hef­ur nú birt þing­mála­skrá sína, en skrá­in fel­ur í sér yf­ir­lit um þau mál sem rík­is­stjórn­in hyggst leggja fram á þing­inu ásamt áætl­un um hvenær þeim verður dreift. Þing­mála­skrá­in hef­ur vakið at­hygli, ekki síst vegna þess að stór hluti henn­ar bygg­ir á mál­um sem þegar voru í und­ir­bún­ingi hjá fyrri rík­is­stjórn. Það vek­ur upp spurn­ing­ar um hversu illa hafi í raun verið stjórnað áður, eins og gefið var í skyn af nú­ver­andi vald­höf­um, í ljósi þess hve margt er nú tekið upp á ný af sömu aðilum og gagn­rýndu fyrri stjórn harðlega. Vit­an­lega gef­ur þetta til kynna að fjöl­mörg mik­il­væg og brýn mál hafi verið í far­vegi og staða þjóðarbús­ins hafi verið góð.

Hvar eru kosn­ingalof­orðin?

Við yf­ir­lest­ur þing­mála­skrár­inn­ar sést að sum af þeim kosn­ingalof­orðum sem voru sett fram með mikl­um þunga fyr­ir kosn­ing­ar eru hvergi sjá­an­leg. Það virðist nefni­lega vera óskráð regla í ís­lensk­um stjórn­mál­um að kosn­ingalof­orð breyt­ast á einni nóttu (eft­ir kosn­ing­ar) í ein­hvers kon­ar stefnu­mark­mið sem ekki þarf að standa við. Það er áhyggju­efni að stjórn­mála­menn skuli ekki axla meiri ábyrgð gagn­vart kjós­end­um sín­um og sýna að lof­orð verði efnd.

Ófyr­ir­séð fjár­málastaða – eða fyr­ir fram þekkt?

Í upp­hafi stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðna var full­yrt að nýj­ar upp­lýs­ing­ar um fjár­hags­stöðu rík­is­ins gerðu nýrri rík­is­stjórn það ómögu­legt að efna gef­in lof­orð. Þetta er sér­stak­lega áhuga­vert í ljósi þess að all­ar upp­lýs­ing­ar um af­komu og efna­hag hins op­in­bera lágu þegar fyr­ir við gerð fjár­laga fyr­ir árið 2025 og voru öll­um flokk­um vel kunn­ar í fjár­laga­nefnd. Þetta vek­ur spurn­ing­ar um hvort stjórn­ar­flokk­arn­ir hafi gefið lof­orð án þess að ætla sér raun­veru­lega að standa við þau, eða hvort þeir hafi ein­fald­lega hunsað fyr­ir­liggj­andi gögn.

Sam­göngu­mál í upp­námi

Sam­göngu­mál hafa verið fyr­ir­ferðar­mik­il í umræðunni, sér­stak­lega í Norðvest­ur­kjör­dæmi. Það er já­kvætt að fram­kvæmd­ir á Dynj­and­is­heiði og í Gufu­dals­sveit eru tryggðar í fjár­lög­um fyr­ir 2025, en lof­orð um tvenn jarðgöng á hverj­um tíma, sem innviðaráðherra gaf fyr­ir kosn­ing­ar, sjást ekki í þing­mála­skránni. Ný sam­göngu­áætlun er ekki vænt­an­leg fyrr en í haust, og ljóst er að for­gangs­röðun verður lyk­il­atriði. Fólk í kjör­dæm­inu hef­ur vænt­ing­ar um að lof­orðin verði efnd og að sam­göngu­bæt­ur verði að veru­leika – ekki aðeins orð á blaði.

Á síðasta lög­gjaf­arþingi var því ít­rekað haldið fram af nú­ver­andi sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra að nægt fjár­magn væri til staðar til að hefja fram­kvæmd­ir. Þannig voru gef­in lof­orð um Álfta­fjarðargöng, göng um Mikla­dal og Hálf­dán (Suður­fjarðargöng), tvö­föld­un Hval­fjarðargangna og göng und­ir Kletts­háls.

Nú virðist sem tónn­inn sé breytt­ur. Stjórn­mál eiga þó að byggj­ast á ábyrgð, og stjórn­mála­menn verða að standa við gef­in fyr­ir­heit.

Breytt afstaða til stjórn­ar­skrár?

Eitt það furðuleg­asta í störf­um hinn­ar nýju rík­is­stjórn­ar er stefnu­breyt­ing sumra ráðherra varðandi stjórn­ar­skrána. Ráðherra sem áður sagði að bók­un 35 stæðist ekki stjórn­ar­skrá styður nú ekki aðeins málið held­ur er sjálf­ur í rík­is­stjórn sem hyggst leggja það fram. Þetta vek­ur upp spurn­ing­ar um hvort siðferði og prinsipp skipti í raun máli í stjórn­mál­um, eða hvort sjón­ar­mið ís­lenskra flokka breyt­ist ein­fald­lega eft­ir því hvort þeir séu í stjórn eða stjórn­ar­and­stöðu.

Sam­ein­ing sýslu­mann­sembætta

Til­laga um að sam­eina sýslu­mann­sembætt­in í eitt hef­ur einnig vakið mikla umræðu. Þetta myndi þýða að embætt­in, sem gegna gríðarlega mik­il­vægu hlut­verki hins op­in­bera í hverj­um lands­hluta, yrðu sam­einuð í eina miðlæga stofn­un. Við í Fram­sókn telj­um slíkt ekki til fram­fara, en styðjum þess í stað aukið sam­starf embætt­anna, skil­virk­ari verka­skipt­ingu og betri sam­vinnu.

Ábyrgð og sam­vinna í stjórn­mál­um

Þrátt fyr­ir of­an­greind­ar áhyggj­ur og sjón­ar­mið vil ég leggja áherslu á að all­ir þing­menn, óháð flokksaðild, eiga það sam­eig­in­legt að vilja vinna að hags­mun­um þjóðar­inn­ar. Þó að stefn­ur og áhersl­ur séu mis­mun­andi ætti mark­miðið alltaf að vera að gera Ísland betra í dag en í gær. Ég hlakka til sam­starfs­ins á þessu kjör­tíma­bili og vona að stjórn­mála­menn sýni bæði ábyrgð og staðfestu í ákvörðunum sín­um.

Við eig­um ávallt að stefna að því að gera bet­ur. Það á að vera meg­in­regl­an í allri póli­tík.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður og odd­viti Fram­sókn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2025.