Ríkisstjórn Íslands hefur í hyggju að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að hefja að nýju aðildarviðræður við Evrópusambandið. Fram kemur reyndar í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna að atkvæðagreiðslan snúist um framhald viðræðna við ESB. Ég á erfitt með að sjá að þetta sé framhald, þar sem hvert og eitt ríki Evrópusambandsins verður að samþykkja aftur að aðildarviðræður hefjist að nýju. Þannig að erfitt er að halda því fram að þetta sé beint framhald enda er hagkerfi Íslands búið að breytast mikið frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur settist við samningaborðið árið 2009. Fernt í hagkerfinu okkar hefur tekið miklum umskiptum til batnaðar síðasta áratug eða svo: Landsframleiðsla á mann, hagvöxtur, staða krónunnar og skuldir þjóðarbúsins.
Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, varpaði ljósi á þessa stöðu nú á dögunum og staðfestir þær hagtölur sem liggja fyrir og hafa gert í nokkurn tíma. Í fyrsta lagi er landsframleiðsla á mann í aðildarríkjum ESB mun lægri en á Íslandi og hefur verið í nokkurn tíma. Bilið á landsframleiðslu á mann á Íslandi annars vegar og evruríkjum hins vegar hefur aukist stöðugt frá því að evran var tekin upp um aldamótin. Árið 2023 var landsframleiðsla á mann á Íslandi 19% meiri en á evrusvæðinu og 24% meiri en hjá ESB. Í öðru lagi hefur hagvöxtur á Íslandi verið meiri á árunum 2000-2023 eða um 1,5% meðan vöxturinn á evrusvæðinu er 0,9%. Hér er umtalsverður munur á og skiptir öllu máli þegar horft er til framtíðar. Í þriðja lagi hefur krónan verið að styrkjast frá 2010-2024 miðað við SDR-mælikvarðann en evran hefur veikst. Það ber hins vegar að hafa í huga að krónan er örmynt og getur hæglega sveiflast ef hagstjórnin er ekki í föstum skorðum og vegur útflutningsgreina þjóðarbúsins sterkur. Að lokum, þá hefur skuldastaða Íslands verið að styrkjast og nema heildarskuldir ríkissjóðs um 40% af landsframleiðslu. Þetta sama hlutfall hjá Frakklandi er 110% og hjá Þýskalandi 63%.
Sökum þess að Íslandi hefur vegnað vel í efnahagsmálum mun það einnig þýða að Ísland þurfi að greiða meira til sjóða Evrópusambandsins en þegar síðast var sótt um. Prófessor Ragnar Árnason hefur reiknað út að þetta geti numið á bilinu 35-50 milljörðum eða um 100 þúsund krónum á hvern landsmann. Ríkisstjórn Gro Harlem Brundtland sótti um aðild að ESB árið 1992 og svo höfnuðu Norðmenn því að ganga inn í ESB árið 1994. Ein meginástæða þess var nákvæmlega þessi, að kostnaður við ESB-þátttöku væri þjóðarbúinu mun meiri en ávinningurinn.
Ríkisstjórnin hefur boðað að í upphafi kjörtímabilsins verði óháðum erlendum sérfræðingum falið að vinna skýrslu um kosti og galla krónunnar og valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum. Ég hvet ríkisstjórnina til að vanda verulega til þessarar vinnu, opna fyrir þátttöku innlendra aðila og meta einnig efnahagslegan ávinning Íslands í heild sinni og út frá lykilmælikvörðum hagkerfisins.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. febrúar 2025.