Categories
Fréttir Greinar

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs?

Deila grein

12/03/2025

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs?

Ríkissjóður stendur frammi fyrir mikilli áskorun. Boðuð útgjöld nýrrar ríkisstjórnar hafa vakið upp spurningar um hvernig eigi að fjármagna þessa aukningu án þess að grafa undan stöðugleika í efnahagslífinu. Í ljósi þess að við erum nú að ná markverðum árangri við að lækka verðbólgu og stýrivaxtaferlið er í fullum gangi er brýnt að stjórnvöld sýni aðhald í ríkisfjármálum og grípi ekki til aðgerða sem gætu ýtt undir verðbólguþrýsting.

Fjárlög síðustu ríkisstjórnar miðuðu að því að tryggja stöðugleika í ríkisfjármálum og tryggja þannig að efnahagslífið haldi jafnvægi. Ef aukin útgjöld leiða til meiri skuldsetningar ríkissjóðs án hagræðingar eða skýrrar tekjuöflunar getur það leitt til aukinnar verðbólgu og hækkunar stýrivaxta, sem bitnar mest á heimilum og fyrirtækjum.

Óljósar skattahækkanir valda áhyggjum

Í nýliðinni kjördæmaviku þar sem þingflokkur Framsóknar hélt 19 opna stjórnmálafundi kom meðal annars fram að mörgum þykir skortur á skýrleika um fyrirhugaðar skattahækkanir á ferðaþjónustu og sjávarútveg. Þessar atvinnugreinar eru burðarásar í efnahagslífinu og óvissa um skattlagningu getur dregið úr fjárfestingu og valdið röskun á markaði. Margir hafa áhyggjur af því að auknar álögur geti dregið úr samkeppnishæfni þessara greina og haft keðjuverkandi áhrif á aðra hluta hagkerfisins.

Ferðaþjónustan hefur farið í gegnum mikið umbreytingartímabil eftir heimsfaraldurinn og treystir á stöðugleika og fyrirsjáanleika til áframhaldandi vaxtar. Óvæntar skattahækkanir gætu dregið úr aðdráttarafli Íslands sem áfangastaðar, sérstaklega ef verðlag hækkar verulega. Að sama skapi er sjávarútvegur ein mikilvægasta útflutningsgrein landsins, og skattahækkanir gætu leitt til minni arðsemi, samdrætti í fjárfestingu og neikvæðra áhrifa á efnahagslífið í heild. Ég hef áhyggjur af því að hækkun veiðigjalda muni sérstaklega bitna á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum sem eru burðarásar atvinnulífs í mörgum byggðarlögum. Reyndar hefur það raungerst að smærri útgerðir hafa nú þegar ákveðið að leggja upp laupana í ljósi boðaðra hækkana sem mun leiða til aukinnar samþjöppunar í sjávarútvegi sem er þvert á gefin fyrirheit núverandi ríkisstjórnarflokka.

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld án óstöðugleika?

Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir tveimur valkostum: annaðhvort að halda aftur af útgjöldum eða tryggja skýra tekjuöflun án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika. Einn möguleiki væri að einblína á hagkvæmari nýtingu fjármuna ríkissjóðs í stað þess að leggja auknar álögur á atvinnugreinar. Með meiri aga í ríkisfjármálum og hagræðingu í opinberum rekstri mætti draga úr þörfinni fyrir skattahækkanir. Einnig mætti horfa til þess að auka skatttekjur með því að efla hagvöxt frekar en að setja beinar álögur á tilteknar atvinnugreinar.

Stjórnvöld þurfa að sýna ábyrgð

Til þess að viðhalda trausti á íslensku efnahagslífi þurfa stjórnvöld að koma fram með skýra stefnu um hvernig boðuð útgjöld verða fjármögnuð án þess að grafa undan efnahagslegum stöðugleika. Ef stjórnvöld halda áfram á óljósri braut skattahækkana á atvinnulífið án þess að útskýra áhrif þeirra, er hætta á að þetta leiði til minni fjárfestingar, minni hagvaxtar og efnahagslegs óstöðugleika.

Í ljósi alls þessa er mikilvægt að ríkisstjórnin sýni forystu í ríkisfjármálum og tryggi að allar ákvarðanir um útgjöld og skattheimtu séu byggðar á langtímahugsun og ábyrgri hagstjórn. Hvernig ætlar forsætisráðherra að tryggja að boðuð útgjöld verði fjármögnuð án þess að bitna á hagvexti, stöðugu verðlagi og almennri velferð?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 12. mars 2025.