Það felast gríðarleg tækifæri fyrir íbúðarkaupendur í því að fjármálafyrirtæki geti boðið fram löng óverðtryggð lán á föstum vöxtum. Nú er komin fram skýrsla dr. Jóns Helga Egilssonar sem skýrir forsendur og fyrirmyndir frá öðrum löndum.
Það er miður að fjármálaráðherra hafi kosið að mistúlka hluta niðurstaðna skýrslu um leiðir til að bæta lánskjör á íslenskum húsnæðismarkaði með þeim hætti sem hann hefur gert opinberlega.
Skýrslan er mjög skýr: Hún setur fram sex tillögur til að bæta kjör íbúðalána og að strax verði ráðist í að hrinda þeim í framkvæmd. Ráðherra hefur valið að hafna því á þeim forsendum að tillaga um að efla markað með vaxtaskiptasamninga sé áhættusöm fyrir ríkið og líkt við Íbúðalánasjóð! Með því að efla markað með vaxtaskiptasamninga geta aðilar á markaði bætt eigin fjárstýringu. Þetta er þekkt og viðurkennd aðferð í löndunum í kringum okkur og hefur sannað sig í að nýtast bæði bönkum, fyrirtækjum og einnig við fjárstýringu ríkissjóða. Sem dæmi er markaður með vaxtaskiptasamninga í Noregi og Svíþjóð mikilvæg forsenda þess að bankar geta boðið hagkvæm íbúðalán á föstum vöxtum til langs tíma. Ríkissjóðir landa nýta vaxtaskiptasamninga í sinni fjárstýringu. Ríkissjóður Íslands hefur um árabil nýtt vaxtaskiptasamninga í sinni fjárstýringu en getur notið þess í auknum mæli ef umgjörð þessa markaðar verður bætt, eins og lagt er til í skýrslunni.
Vaxtaskiptamarkaðir í löndunum í kringum okkur gera bönkum kleift að bjóða lán með föstum vöxtum til lengri tíma en þeir ella gætu. Ríkissjóður getur lagað fjármögnun að sínum þörfum á hagkvæmari kjörum. Báðir aðilar njóta hagkvæmni.
Það er því óviðeigandi og villandi að fjármálaráðherra tengi tillögur um vaxtaskiptasamninga við reynsluna af Íbúðalánasjóði! Þetta eru algerlega ótengd mál og eiga ekkert sameiginlegt. Vaxtaskiptasamningar eru nýttir út um allan heim af fyrirtækjum, bönkum og lífeyrissjóðum sem verkfæri í fjárstýringu til að draga úr áhættu og bæta kjör – ekki til þess að auka hana eins og fjármálaráðherra virðist halda.
Í ljósi svara ráðherra er vert að velta upp hvort um sé að ræða vanþekkingu eða pólitískan útúrsnúning til að ýta undir stefnu Viðreisnar um ESB-aðild, sem oft er sögð nauðsynleg til að bæta lánskjör almennings á Íslandi. Skýrslan sýnir þvert á móti að bæta má lánskjör á Íslandi án þess að ganga í ESB. Spurningin sem vaknar er hvort það sé það sem raunverulega fer fyrir brjóstið á ráðherra.
Það er brýnt að umræðan sé byggð á staðreyndum og faglegri þekkingu, ekki pólitískum útúrsnúningum eða röngum samanburði sem getur villt fyrir og hindrað að hægt sé að bæta lánskjör fyrir almenning.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.