Categories
Fréttir Greinar

Fjármálaráðherra á villigötum

Deila grein

20/03/2025

Fjármálaráðherra á villigötum

Það fel­ast gríðarleg tæki­færi fyr­ir íbúðar­kaup­end­ur í því að fjár­mála­fyr­ir­tæki geti boðið fram löng óverðtryggð lán á föst­um vöxt­um. Nú er kom­in fram skýrsla dr. Jóns Helga Eg­ils­son­ar sem skýr­ir for­send­ur og fyr­ir­mynd­ir frá öðrum lönd­um.

Það er miður að fjár­málaráðherra hafi kosið að mistúlka hluta niðurstaðna skýrslu um leiðir til að bæta láns­kjör á ís­lensk­um hús­næðismarkaði með þeim hætti sem hann hef­ur gert op­in­ber­lega.

Skýrsl­an er mjög skýr: Hún set­ur fram sex til­lög­ur til að bæta kjör íbúðalána og að strax verði ráðist í að hrinda þeim í fram­kvæmd. Ráðherra hef­ur valið að hafna því á þeim for­send­um að til­laga um að efla markað með vaxta­skipta­samn­inga sé áhættu­söm fyr­ir ríkið og líkt við Íbúðalána­sjóð! Með því að efla markað með vaxta­skipta­samn­inga geta aðilar á markaði bætt eig­in fjár­stýr­ingu. Þetta er þekkt og viður­kennd aðferð í lönd­un­um í kring­um okk­ur og hef­ur sannað sig í að nýt­ast bæði bönk­um, fyr­ir­tækj­um og einnig við fjár­stýr­ingu rík­is­sjóða. Sem dæmi er markaður með vaxta­skipta­samn­inga í Nor­egi og Svíþjóð mik­il­væg for­senda þess að bank­ar geta boðið hag­kvæm íbúðalán á föst­um vöxt­um til langs tíma. Rík­is­sjóðir landa nýta vaxta­skipta­samn­inga í sinni fjár­stýr­ingu. Rík­is­sjóður Íslands hef­ur um ára­bil nýtt vaxta­skipta­samn­inga í sinni fjár­stýr­ingu en get­ur notið þess í aukn­um mæli ef um­gjörð þessa markaðar verður bætt, eins og lagt er til í skýrsl­unni.

Vaxta­skipta­markaðir í lönd­un­um í kring­um okk­ur gera bönk­um kleift að bjóða lán með föst­um vöxt­um til lengri tíma en þeir ella gætu. Rík­is­sjóður get­ur lagað fjár­mögn­un að sín­um þörf­um á hag­kvæm­ari kjör­um. Báðir aðilar njóta hag­kvæmni.

Það er því óviðeig­andi og vill­andi að fjár­málaráðherra tengi til­lög­ur um vaxta­skipta­samn­inga við reynsl­una af Íbúðalána­sjóði! Þetta eru al­ger­lega ótengd mál og eiga ekk­ert sam­eig­in­legt. Vaxta­skipta­samn­ing­ar eru nýtt­ir út um all­an heim af fyr­ir­tækj­um, bönk­um og líf­eyr­is­sjóðum sem verk­færi í fjár­stýr­ingu til að draga úr áhættu og bæta kjör – ekki til þess að auka hana eins og fjár­málaráðherra virðist halda.

Í ljósi svara ráðherra er vert að velta upp hvort um sé að ræða vanþekk­ingu eða póli­tísk­an út­úr­snún­ing til að ýta und­ir stefnu Viðreisn­ar um ESB-aðild, sem oft er sögð nauðsyn­leg til að bæta láns­kjör al­menn­ings á Íslandi. Skýrsl­an sýn­ir þvert á móti að bæta má láns­kjör á Íslandi án þess að ganga í ESB. Spurn­ing­in sem vakn­ar er hvort það sé það sem raun­veru­lega fer fyr­ir brjóstið á ráðherra.

Það er brýnt að umræðan sé byggð á staðreynd­um og fag­legri þekk­ingu, ekki póli­tísk­um út­úr­snún­ing­um eða röng­um sam­an­b­urði sem get­ur villt fyr­ir og hindrað að hægt sé að bæta láns­kjör fyr­ir al­menn­ing.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.