Categories
Fréttir Greinar

Aldrei fleiri klárað iðnnám

Deila grein

10/04/2025

Aldrei fleiri klárað iðnnám

Braut­skrán­ing­um úr iðnnámi hjá ein­stak­ling­um yngri en 21 árs hef­ur fjölgað um 150% frá ár­inu 2016, sam­kvæmt töl­fræði Hag­stofu Íslands. Al­gjör straum­hvörf hafa orðið í áhuga á námi í iðngrein­um.

Eitt af áherslu­mál­um síðustu rík­is­stjórn­ar var að efla iðnnám á Íslandi, og því má með sanni segja að það hafi tek­ist í góðu sam­starfi við skóla­sam­fé­lagið, at­vinnu­lífið og sveit­ar­fé­lög­in. Mennta­stefna til árs­ins 2030 legg­ur sér­stak­an metnað í iðnnám og fram­kvæmda­áætl­un um stefn­una. Megin­á­stæða þess að ráðist var í metnaðarfulla stefnu­gerð og aðgerðir var sú staðreynd að mun færri sóttu iðnnám á Íslandi en í öðrum OECD-ríkj­um. Skýr vilji stjórn­valda stóð til þess að fleiri sæktu sér starfs- og tækni­mennt­un til að koma bet­ur til móts við þarf­ir sam­fé­lags­ins.

Stjórn­völd og skóla­sam­fé­lagið gerðu sam­komu­lag árið 2020 við Sam­tök iðnaðar­ins og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um að fara í sam­stillt­ar aðgerðir til að efla iðnnám í fimm liðum: Í fyrsta lagi var ráðist í um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar á iðnnámi með það að mark­miði að ein­falda skipu­lag starfs- og tækni­náms. Ný reglu­gerð var sett um vinnustaðanámið, þar sem helsta breyt­ing­in var að fram­halds­skól­ar báru ábyrgð á gerð og staðfest­ingu vinnustaðanáms­samn­inga fyr­ir iðnnema í gegn­um ra­f­ræna ferl­ibók. Í stuttu máli: Fram­halds­skól­arn­ir tóku í aukn­um mæli ábyrgð á öllu nám­inu – frá inn­rit­un til út­skrift­ar. Í öðru lagi var ráðist í breyt­ing­ar á lög­um um há­skóla­stigið, þannig að iðnmenntaðir skyldu njóta sömu rétt­inda og þeir sem lokið hafa stúd­ents­prófi til að sækja um há­skóla­nám. Í þriðja lagi var mark­visst unnið að því að bæta aðgengi að starfs- og tækni­námi á lands­byggðinni, enda ræður náms­fram­boð í heima­byggð miklu um námsval ung­menna að lokn­um grunn­skóla. Nýr Tækni­skóli er á teikni­borðinu og aðstaða bætt víða um land. Í fjórða lagi skyldi náms- og starfs­ráðgjöf í grunn­skól­um styrkt, bæði fyr­ir ung­menni og for­eldra.

Far­sæl sam­vinna og sam­starf allra lyk­ilaðila skilaði góðum ár­angri fyr­ir land og þjóð. Ég vil þakka öll­um þeim sem lögðu hönd á plóg til að efla iðnnám á Íslandi fyr­ir gott sam­starf.

Í rík­is­fjár­mála­áætl­un nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar er boðaður stór­felld­ur niður­skurður í mennta­mál­um. Sér­stakt áhyggju­efni er fram­halds­skóla­stigið, þar sem veru­lega á að lækka fjár­fram­lög­in. Með þess­um áform­um er hætta á að rík­is­stjórn­in sé að fresta framtíðinni og grafa und­an framtíðar­hag­vexti sem byggður er á mennt­un.

Ljóst er í mín­um huga að ef hand­verk iðnmenntaðra væri ekki til staðar í ís­lensku sam­fé­lagi væri afar tóm­legt um að lit­ast. Full­yrðing Njáls á Bergþórs­hvoli, um að land vort skuli byggt með lög­um, er ljóðræn og fög­ur – en raun­in er sú að miklu meira en laga­bók­staf­inn þarf til að byggja sam­fé­lag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherralilja­alf@gmail.com

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. apríl 2025.