Categories
Fréttir Greinar

Passíusálmarnir eru þjóðarauður

Deila grein

19/04/2025

Passíusálmarnir eru þjóðarauður

Ísland er auðugt land. Ríki­dæmi okk­ar felst meðal ann­ars í tungu­mál­inu okk­ar sem sam­ein­ar þjóðina og varðveit­ir heims­bók­mennt­ir miðalda. Þessi stór­brotni menn­ing­ar­arf­ur hef­ur lagt grunn að þeirri vel­sæld og vel­ferð sem við njót­um í dag. Það er lofs­vert að sjá hversu mikla rækt Íslend­ing­ar leggja við skap­andi grein­ar og hvað við njót­um þeirra ríku­lega í okk­ar dag­lega lífi. Einnig er til­komu­mikið að fylgj­ast með lista­mönn­um okk­ar ná góðum ár­angri á sínu sviði, hvort held­ur hér heima eða á heimsvísu. All­ar list­grein­ar okk­ar eiga framúrsk­ar­andi ein­stak­linga – hvort sem um er að ræða mynd­list, tónlist, bók­mennt­ir, kvik­mynd­ir eða hönn­un.

Páska­hátíðin er kjör­inn tími fyr­ir sam­vist­ir við sína nán­ustu og njóta þess sem er í boði á vett­vangi hinna skap­andi greina. Vita­skuld er þetta einnig til­val­inn tími til að íhuga boðskap þess­ar­ar trú­ar­hátíðar. Pass­íusálm­ar Hall­gríms Pét­urs­son­ar eru órjúf­an­lega tengd­ir pásk­um og hafa fylgt ís­lensku þjóðinni um ald­ir. Að mínu mati eru þetta feg­urstu sálm­ar sem ort­ir hafa verið. Ég les þá ávallt í aðdrag­anda hátíðar­inn­ar, enda fjalla þeir um síðustu daga Jesú Krists – píslar­sög­una, dauðann og upprisuna.

Eitt af því sem heill­ar mig við sálm­ana er hversu per­sónu­leg­ir þeir eru. Það er eins og höf­und­ur­inn vefji eig­in ör­lög og reynslu inn í text­ann. Í Pass­íusálm­un­um öðlast ís­lenskt mál nýj­ar vídd­ir feg­urðar og næmni, sem skýr­ir djúp áhrif þeirra á þjóðarsál­ina. Orð eins og ást­vina­hugg­un, hjarta­geð, dá­semd­ar­kraft­ur, kær­leiks­hót og hryggðarspor fylla text­ann af hlýju og von um betri tíð.

Pass­íusálm­arn­ir eru mikið verk. Í fimm­tíu sálm­um er dreg­in upp drama­tísk mynd af síðustu dög­um Jesú Krists. Hápunkt­ur verks­ins er í 25. sálm­in­um, þar sem Jesús er leidd­ur út og Pílatus legg­ur til að hann verði náðaður, en mann­fjöld­inn heimt­ar að hann verði kross­fest­ur. Þetta er jafn­framt talið eitt feg­ursta versið í öll­um sálm­un­um og dreg­ur það sam­an meg­in­boðskap verks­ins – að mann­kynið allt hlaut þá gjöf að vera leitt inn til Guðs með fórn son­ar­ins. Hér kem­ur 25. sálm­ur­inn, 10. vers:

Út geng ég ætíð síðan

í trausti frels­ar­ans

und­ir blæ him­ins blíðan

blessaður víst til sanns.

Nú fyr­ir nafnið hans

út borið lík mitt liðið

leggst og hvíl­ist í friði,

sál fer til sælu­ranns.

Við erum rík sem þjóð að geta hallað okk­ur aft­ur um páska­hátíðina og notið þessa auðuga menn­ing­ar­arfs. Við erum líka afar lán­söm að búa í landi þar sem friður og frelsi eru ríkj­andi.

Gleðilega páska!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. apríl 2025.