Ísland er auðugt land. Ríkidæmi okkar felst meðal annars í tungumálinu okkar sem sameinar þjóðina og varðveitir heimsbókmenntir miðalda. Þessi stórbrotni menningararfur hefur lagt grunn að þeirri velsæld og velferð sem við njótum í dag. Það er lofsvert að sjá hversu mikla rækt Íslendingar leggja við skapandi greinar og hvað við njótum þeirra ríkulega í okkar daglega lífi. Einnig er tilkomumikið að fylgjast með listamönnum okkar ná góðum árangri á sínu sviði, hvort heldur hér heima eða á heimsvísu. Allar listgreinar okkar eiga framúrskarandi einstaklinga – hvort sem um er að ræða myndlist, tónlist, bókmenntir, kvikmyndir eða hönnun.
Páskahátíðin er kjörinn tími fyrir samvistir við sína nánustu og njóta þess sem er í boði á vettvangi hinna skapandi greina. Vitaskuld er þetta einnig tilvalinn tími til að íhuga boðskap þessarar trúarhátíðar. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar eru órjúfanlega tengdir páskum og hafa fylgt íslensku þjóðinni um aldir. Að mínu mati eru þetta fegurstu sálmar sem ortir hafa verið. Ég les þá ávallt í aðdraganda hátíðarinnar, enda fjalla þeir um síðustu daga Jesú Krists – píslarsöguna, dauðann og upprisuna.
Eitt af því sem heillar mig við sálmana er hversu persónulegir þeir eru. Það er eins og höfundurinn vefji eigin örlög og reynslu inn í textann. Í Passíusálmunum öðlast íslenskt mál nýjar víddir fegurðar og næmni, sem skýrir djúp áhrif þeirra á þjóðarsálina. Orð eins og ástvinahuggun, hjartageð, dásemdarkraftur, kærleikshót og hryggðarspor fylla textann af hlýju og von um betri tíð.
Passíusálmarnir eru mikið verk. Í fimmtíu sálmum er dregin upp dramatísk mynd af síðustu dögum Jesú Krists. Hápunktur verksins er í 25. sálminum, þar sem Jesús er leiddur út og Pílatus leggur til að hann verði náðaður, en mannfjöldinn heimtar að hann verði krossfestur. Þetta er jafnframt talið eitt fegursta versið í öllum sálmunum og dregur það saman meginboðskap verksins – að mannkynið allt hlaut þá gjöf að vera leitt inn til Guðs með fórn sonarins. Hér kemur 25. sálmurinn, 10. vers:
Út geng ég ætíð síðan
í trausti frelsarans
undir blæ himins blíðan
blessaður víst til sanns.
Nú fyrir nafnið hans
út borið lík mitt liðið
leggst og hvílist í friði,
sál fer til sæluranns.
Við erum rík sem þjóð að geta hallað okkur aftur um páskahátíðina og notið þessa auðuga menningararfs. Við erum líka afar lánsöm að búa í landi þar sem friður og frelsi eru ríkjandi.
Gleðilega páska!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. apríl 2025.