Categories
Fréttir Greinar

140 ára fæðingarafmæli Jónasar Jónssonar frá Hriflu

Deila grein

01/05/2025

140 ára fæðingarafmæli Jónasar Jónssonar frá Hriflu

Við minn­umst 140 ára fæðing­araf­mæl­is Jónas­ar Jóns­son­ar frá Hriflu, sem var einn áhrifa­mesti stjórn­mála­maður og hugsuður Íslands á sinni tíð. Jón­as frá Hriflu, eins og hann er jafn­an kallaður, var leiðandi afl í Fram­sókn­ar­flokkn­um og gegndi lyk­il­hlut­verki á um­brota­tím­um ís­lenskr­ar þjóðar. Jón­as var tákn og and­lit flokks­ins í huga Íslend­inga á 20. öld­inni.

Jón­as frá Hriflu

Jón­as Jóns­son fædd­ist í Bárðar­dal árið 1885, 1. maí. Hann ólst upp við sveita­störf á bæn­um Hriflu, æsku­heim­ili sínu, og kynnt­ist þar af eig­in raun þeim lífs­kjör­um og áskor­un­um sem ís­lensk­ir bænd­ur og alþýða stóðu frammi fyr­ir á þess­um tíma. Þrátt fyr­ir bág kjör sótt­ist Jón­as eft­ir mennt­un. Hann stundaði nám bæði í Dan­mörku og Englandi. Mennta­veg­ur hans var nokkuð óhefðbund­inn en mótaði hann og varð til þess að hann fékk brenn­andi áhuga á upp­bygg­ingu ís­lensks sam­fé­lags. Að námi loknu sneri Jón­as aft­ur heim upp­full­ur af hug­mynd­um um fé­lags­leg­ar fram­far­ir og fram­sókn. Hann hóf störf sem kenn­ari og fræðimaður og lét strax að sér kveða í umræðu um þjóðfé­lags­mál.

Stofn­un Fram­sókn­ar­flokks­ins og póli­tísk­ar lín­ur lagðar

Póli­tísk arf­leifð Jónas­ar frá Hriflu spann­ar marga þætti sam­fé­lags­ins og má skil­greina hann sem rót­tæk­an um­bóta­mann. Jón­as Jóns­son fæðist um svipað leyti og sam­vinnu­hug­sjón­in festi hér ræt­ur. Hann lagðist snemma á sveif með henni. Sam­vinnu­hreyf­ing­in var í hans aug­um meg­in­stoð fé­lags­hyggjuþjóðfé­lags­ins. „Stofn­un Fram­sókn­ar­flokks­ins var bein­lín­is skipu­lögð af hon­um,“ sagði Jón Sig­urðsson í Ysta­felli um Jón­as Jóns­son frá Hriflu. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn var stofnaður 16. des­em­ber árið 1916. Að auki var hann einn af frum­kvöðlun­um að stofn­un Alþýðusam­bands Íslands og Alþýðuflokks­ins haustið 1916. Jón­as hafði mjög skýra sýn á það hvernig hið póli­tíska lands­lag ætti að vera á Íslandi á þess­um tíma. Hann taldi að það sem myndi henta Íslandi best væri „eðli­leg flokka­skipt­ing“, þ.e. þrískipt­ing í íhalds­flokk, frjáls­lynd­an flokk og jafnaðarmanna­flokk.

Póli­tísk­ur fer­ill Jónas­ar

Jón­as fer að starfa með Fram­sókn­ar­flokkn­um og var driffjöðrin að stofn­un dag­blaðsins Tím­ans, 17. mars 1917. Jón­as var kjör­inn á Alþingi fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn árið 1922. Jón­as var þekkt­ur fyr­ir skel­egg viðhorf sín og kröft­ug­ar ræður þar sem hann mælti fyr­ir fé­lags­legu rétt­læti, mennt­un al­menn­ings og fullu sjálf­stæði Íslands. Árið 1927 varð hann dóms- og kirkju­málaráðherra í rík­is­stjórn og gegndi því embætti til 1932. Sem for­ystumaður í Fram­sókn­ar­flokkn­um mótaði Jón­as stefn­una á þess­um um­brota­tím­um. Hann var formaður flokks­ins árin 1934 til 1944 og stýrði Fram­sókn í gegn­um kreppu­ár­in og síðari heims­styrj­öld­ina. Á þeim tíma festi flokk­ur­inn sig í sessi sem einn af burðarás­um ís­lenskra stjórn­mála.

Mennt­un þjóðar­inn­ar

Mennta­mál þjóðar­inn­ar voru Jónasi einkum hug­leik­in og upp­bygg­ing mennta­kerf­is­ins. Hann átti stór­an þátt í stofn­un og efl­ingu margra mennta­stofn­ana. Má þar nefna Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri, Mennta­skól­ann á Laug­ar­vatni, Sam­vinnu­skól­ann og Héraðsskól­ann á Laug­um. Þá gegndi hann um tíma starfi skóla­stjóra Sam­vinnu­skól­ans, fræðslu­stofn­un sam­vinnu­hreyf­ing­ar­inn­ar. Hús­næðismál Há­skóla Íslands voru hon­um einnig mik­il­væg og í byrj­un fjórða ára­tug­ar­ins beitti hann sér fyr­ir setn­ingu laga sem heim­iluðu bygg­ingu nýs há­skóla­húss. Með þessu lagði Jón­as sitt af mörk­um til að auka mennt­un bæði í þétt­býli og dreif­býli, í sam­ræmi við þá sann­fær­ingu sína að þekk­ing og fram­far­ir ættu að ná til allra lands­manna.

Menn­ing­ar­mál ætíð veiga­mik­il

Menn­ing­ar­mál þjóðar­inn­ar voru hon­um ætíð of­ar­lega í huga. Hann var ein­dreg­inn talsmaður ís­lenskr­ar tungu, bók­mennta og lista og lagði áherslu á að menn­ing þjóðar­inn­ar byggðist á þjóðleg­um grunni. Oft var Jón­as gagn­rýn­inn á lista­menn eða strauma í menn­ingu sem hon­um þóttu of fram­andleg­ir eða í and­stöðu við hefðir þjóðar­inn­ar. Deil­ur hans við ýmsa fræðimenn og rit­höf­unda vöktu tals­verða at­hygli á sín­um tíma, enda þótti sum­um sem Jón­as gengi of langt í menn­ing­ar­mál­um. Hins veg­ar beitti hann sér öt­ul­lega fyr­ir því að styrkja um­gjörð menn­ing­ar­mála og má nefna Menn­ing­ar­sjóð, stofn­un Rík­is­út­varps­ins, styrki til lista­manna úr rík­is­sjóði og að reist yrði Þjóðleik­hús.

Loka­orð

Nú, 140 árum eft­ir fæðingu Jónas­ar frá Hriflu, má sjá að margt í framtíðar­sýn hans hef­ur orðið að veru­leika og var til þess fallið að efla ís­lenskt sam­fé­lag. Auðvitað hef­ur tím­inn einnig fært sam­fé­lag­inu breyt­ing­ar sem Jón­as gat vart séð fyr­ir, en grunn­stef hans um mennt­un, sam­vinnu og þjóðlega sjálfs­virðingu má enn greina víða. Arf­leifð Jónas­ar lif­ir þannig góðu lífi og minn­ir okk­ur á mik­il­vægi framtíðar­sýn­ar og hug­sjóna við upp­bygg­ingu þjóðar. Segja má að áhrif Jónas­ar á ís­lenskt sam­fé­lag á mik­il­vægu mót­un­ar­skeiði eigi sér fáar hliðstæður.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. maí 2025.