Á Alþingi, þann 5. júlí 2025, voru samþykkt lög um stofnun Þjóðaróperu.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, ritaði grein í Morgunblaðið 7. júlí 2025 af því tilefni.
„Íslensk menning og listir eru meðal þess sem skilgreinir þjóð okkar ásamt stórbrotinni náttúru. Það er einstakt hvað Ísland á af öflugu listafólki sem hefur aukið hróður þjóðarinnar langt út fyrir landsteinana, hvort sem litið er til miðalda- eða samtímabókmennta, myndlistar, tónlistar, kvikmynda eða sviðslista.
Um helgina urðu tímamót þegar áratugalöng vinna söngvara og annarra sviðslistamanna bar loks árangur. Alþingi samþykkti þá frumvarp menningarmálaráðherra um stofnun óperu á Íslandi. Með þessu er óperunni tryggð sambærileg staða og öðrum sviðslistum og verður hún kjarnastofnun óperulistar á sama hátt og Þjóðleikhúsið í leiklist og Íslenski dansflokkurinn í danslist. Þetta er stórt skref fyrir íslenska óperulist, en Íslendingar eiga marga framúrskarandi söngvara sem fá nú aukið svigrúm til að starfa við list sína og þróa þetta mikilvæga listform á Íslandi.
Nýja óperan verður rekin sem hluti af Þjóðleikhúsinu og mun hafa aðsetur í Hörpu. Hún mun njóta góðs af öflugum innviðum Þjóðleikhússins, einstakri sérþekkingu og traustu sambandi þess við þjóðina. Óperan getur þannig nýtt stoðstarfsemi Þjóðleikhússins á sviðum eins og rekstri, leikmunagerð, lýsingu, hljóðvinnslu, búningum og leikgervum.
Sjálf hef ég alla tíð haft mikla ánægju af óperulistinni og átti þess kost að kynnast henni í gegnum góða vinkonu mína, Margréti Pétursdóttur Jónsson, sem fædd var í Bremen árið 1928. Hún var dóttir Péturs Á. Jónssonar óperusöngvara, sem fyrstur Íslendinga söng inn á plötur og átti farsælan óperuferil í Þýskalandi. Pétur stundaði nám í óperuskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn og starfaði víða í Þýskalandi, meðal annars í Berlín, Kiel og Darmstadt. Hann endaði feril sinn við Deutsches Opernhaus í Berlín, eitt stærsta óperuhús landsins, sannarlega glæsilegur ferill. Pétur flutti fyrr heim til Íslands með fjölskyldu sína en stóð til. Helgaðist það af stöðunni í Þýskalandi og uppgangi nasisma. Mikið af listafólki flutti sig frá Þýskalandi vegna þessa og í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Samtöl mín við Margréti um feril föður hennar og þróun óperulistar opnuðu augu mín fyrir mikilvægi þess að efla óperustarfsemi á Íslandi.
Það skiptir máli að skapa listafólki okkar umgjörð þar sem það getur unnið að list sinni og glatt okkur hin. Einn mesti vaxtarsproti okkar samfélags er í gegnum skapandi greinar. Við höfum séð þær eflast verulega og sífellt fleiri starfa í þeim geira skapandi greina til heilla fyrir samfélagið. Til hamingju, kæru landsmenn, með nýja óperu! Megi starfsemi hennar vaxa og dafna okkur öllum til heilla.”