,,Lægri verðbólga og vextir eru ein mesta kjarabót sem hægt er að ná fyrir heimilin og fyrirtæki í landinu. Verðtryggð lán fjölskyldna hækka stöðugt með aukinni verðbólgu, og þau heimili sem tekið hafa óverðtryggð lán glíma áfram við háa vexti. Það að lækka verðbólgu og vexti fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu á að vera sameiginlegt verkefni okkar allra.
Vaxtalækkunarferlið hófst haustið 2024
Vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst á seinni hluta ársins 2024 en nú bendir allt til þess að það ferli hafi stöðvast. Við vorum á réttri leið og aðgerðir síðustu ríkisstjórnar lögðu traustan grunn að þeim góða árangri sem náðist á skömmum tíma. Það eru því veruleg vonbrigði að staðan skuli vera sú sem raun ber vitni.
Vextir munu ekki lækka nema ríkissjóður sé vel rekinn. Sé horft í baksýnisspegilinn má vel vera að síðasta ríkisstjórn hefði getað gengið enn lengra til að tryggja stöðugleika á grunni aðhalds í ríkisrekstri. Þá telja flestir að Seðlabankinn hafi lækkað vexti of bratt, og svo aftur hækkað þá of mikið, sem hefur hugsanlega skapað fleiri áskoranir en þörf var á.
Við verðum þó fyrst og fremst að horfa fram á veginn, vinna markvisst úr þessum aðstæðum sem við búum nú við og skapa forsendur fyrir áframhaldandi vaxtalækkunum á grunni efnahagslegs stöðugleika. Skattahækkanir á sjávarútveg, óvissa um málefni ferðaþjónustu og skortur á skýrum markmiðum um aðhald og hagræðingu í ríkisrekstri hjálpa ekki í þessu samhengi.
Óttinn við of háa verðbólgu
Nýjustu mælingar Hagstofunnar eru áhyggjuefni. Verðbólgan mælist nú 4,2% og hefur aukist hratt síðustu mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hefur hækkað um 3,2% síðustu tólf mánuði og síðasta mánuðinn nam hækkunin 0,84%. Landsbankinn hefur endurskoðað verðbólguspá sína og gerir nú ráð fyrir áframhaldandi hækkun, allt upp í 4,5% í október nk. Þessi þróun á sér stað þrátt fyrir sterkari krónu og lækkandi olíuverð.
Hagstofan telur enn fremur í nýjustu þjóðhagsspá sinni að verðbólgan muni „nálgast verðbólgumarkmið árið 2027“. Því er eðlilegt að spyrja hvað það merkir í raun og veru að verðbólga „nálgist“ verðbólgumarkmið árið 2027, eða eftir tvö ár. Orðalagið gefur til kynna óvissu og þýðir að fjölskyldur munu þurfa að búa áfram við háa vexti og hækkandi verðtryggð lán um nokkurn tíma enn.
Hættan fram undan
Verðbólgan er drifin m.a. áfram af almennri hækkun á innfluttum vörum sem fjölskyldur finna fyrir í daglegum innkaupum. Landsbankinn hefur enn fremur bent á að án aukinnar framleiðni gæti skapast hættuleg þensla sem erfitt verður að ráða við. Í stuttu máli þýðir þetta að án raunverulegrar aukningar á getu hagkerfisins til að framleiða meira muni þenslan leiða til verðbólgu sem getur reynst erfið og kostnaðarsöm að hafa stjórn á.
Næsti vaxtaákvörðunarfundur Seðlabankans þann 20. ágúst verður mikilvægur og líkurnar á vaxtalækkun virðast því miður minnka með hverjum deginum.”
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júlí 2025