,,Ísland á að standa á grunni festu og ábyrgra ákvarðana sem teknar eru á traustum grunni. En þegar ríkisstjórn leggur fram illa undirbúin lagafrumvörp án samráðs og bregst ekki við réttmætri gagnrýni verður niðurstaðan óstöðugleiki og minnkandi trúverðugleiki. Slíkir stjórnarhættir skapa pólitíska áhættu.
Þessa hættu sáum við glögglega raungerast á tímum vinstristjórnarinnar 2009-2013, þegar stefnt var að því að umbylta íslensku samfélagi í einni svipan. Þá var ráðist í hækkun skatta á almenning og fyrirtæki, auk tilrauna til byltingarkenndra breytinga á ýmsum sviðum samfélagsins sem áttu að raungerast á tiltölulega stuttum tíma. Þessi tilraun mistókst hrapallega.
Stefna sem grefur undan atvinnulífinu
Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvörp og boðað aðgerðir sem skapa aukna óvissu og grafa undan fjárhagslegum forsendum mikilvægra atvinnugreina. Þar ber hæst fyrirhugaða hækkun veiðigjalda sem mun hafa alvarleg áhrif á margar sjávarbyggðir. Þrátt fyrir varnaðarorð 26 sveitarfélaga, þar sem um 100 þúsund manns búa, er hvergi hvikað. Endurskoðendur og fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn, ásamt minni og stærri útgerðum, hafa gert veigamiklar athugasemdir og kallað eftir svörum við mjög áleitnum spurningum en ekki verið virt viðlits.
Á sama tíma stendur til að hækka álögur og skatta á ferðaþjónustuna, þrátt fyrir blikur á lofti á alþjóðlegum mörkuðum og skerta samkeppnisstöðu greinarinnar. Að auki liggja fyrir ýmsar breytingar sem snúa að lífeyrissjóðakerfinu og munu meðal annars hafa neikvæð áhrif á lífeyristekjur bæði eldri borgara og komandi kynslóða á vinnumarkaði. Í reynd má segja að megináhersla ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sé að auka álögur á almenning og fyrirtæki án þess að fyrir liggi mat á áhrifum á hagvöxt, fjölda starfa og fjárfestingarvilja í atvinnulífinu. Gamalkunnugt stef það.
Óvissan smitar út í hagkerfið
Þannig eru undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar settar í viðvarandi óvissuástand á innlendum vettvangi, sem bætist ofan á þann óróleika sem þegar ríkir á alþjóðlegum mörkuðum. Allt þetta dregur úr tiltrú markaðarins á efnahagsstjórn og eykur líkur á viðvarandi verðbólgu og háu vaxtastigi, dregur úr fjárfestingarvilja, hægir á atvinnusköpun og veikir þannig grundvöll verðmætasköpunar í samfélaginu.
Í pistli Gunnars Baldvinssonar, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins, í Viðskiptablaðinu 4. júlí kemur fram að nýlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar kunni að hafa svo veruleg áhrif að lífeyrissjóðir neyðist til að hækka mat sitt á pólitískri áhættu. Þeir þurfi jafnframt að grípa til aðgerða til að draga úr mögulegu tjóni, ef áhættan raungerist. Slík þróun undirstrikar að pólitísk óvissa hefur þegar haft mælanleg áhrif á fjárhagslegt umhverfi lykilstofnana samfélagsins. Með óbreyttri stefnu ríkisstjórnarinnar munu fjárfestingar dragast saman og atvinnusköpun minnka. Slík þróun veikir grunnstoðir hagkerfisins og dregur úr getu samfélagsins til að standa undir öflugu velferðarkerfi.
Verkstjórn ríkisstjórnarinnar er nú þegar farin að hafa verulega neikvæð áhrif.”
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júlí 2025